Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all 8283 articles
Browse latest View live

Styttri vinnuvika í Reykjavík | 1. áfangi sýnir að minni vinna leiðir til meiri ánægju

$
0
0
Skýrsla um styttingu vinnuviku, forsíða.

Skýrsla um styttingu vinnuviku, forsíða.

Fyrsti áfangi tilraunaverkefnis Reykjavíkurborgar um styttingu vinnuvikunnar á árunum 2015–2017 hefur haft jákvæð áhrif, segir í kynningu á skýrslu stýrihópsins að baki verkefninu, sem barst fjölmiðlum í fréttatilkynningu í dag, fimmtudag.

Þar kemur fram að verkefnið hafi haft „jákvæðari áhrif en væntingar stóðu til á öllum vinnustöðum nema einum“. Dregið hafi úr fjarvistum og hugarfar fólks til styttingar eða aukins sveigjanleika í starfi hafi almennt verið jákvætt.

Fimm vinnustaðir í fyrsta áfanga

Skrifstofa þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts og Barnaverndar, leikskólinn Hof, Laugardalslaug og heimaþjónusta og heimahjúkrun í efri byggð voru þátttakendur í þessum fyrsta áfanga verkefnisins, eða alls um 300 starfsmenn. Vinnuvikan var í þessum áfanga stytt um 4–5 klukkustundir, eða hver vinnudagur um eina klukkustund.

Í skýrslunni sjálfri kemur fram að mælingar hafi sýnt að dregið hafi úr „andlegum og líkamlegum einkennum álags auk þess sem starfsánægja jókst á öllum starfsstöðunum“ – aftur, fyrir utan einn. Ekki kemur fram í kynningartextum á hverjum af þeim fimm vinnstöðum sem tóku þátt ánægja jókst ekki.

Afköst Barnaverndar minnkuðu ekki við fækkun stunda

Þá segir að stytting vinnuvikunnar hafi ekki dregið úr „hreyfingum í málaskrám Barnaverndar og þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts“. Hjá Barnavernd hafi dregið úr skammtímaveikindum til að byrja með, en þau reyndar aukist aftur árið 2016 og staðið í stað 2017. Veikindafjarvistir í heild hafi þó verið minni við lok verkefnis en áður en það hófst.

Næsti áfangi: 100 vinnustaðir, 2200 starfsmenn

Hefst nú annar áfangi verkefnisins og taka 100 starfsstaðir alls 2200 starfsmanna þátt í honum. Meðal þátttakenda eru allir starfsmenn menningar- og ferðamálasviðs borgarinnar. Hver vinnustaður velur um styttingu vinnuvikunnar á bilinu eina til þrjár klukkustundir og er útfærsla hvers vinnustaðar sögð sveigjanleg. Þessi áfangi verkefnisins stendur yfir til ágústloka 2019, en þá verður unnin lokaskýrsla um verkefnið.


Ef þig skyldi langa í svín … nýjar leiðbeiningar Matvælastofnunar

$
0
0

Víða um heim hafa svín reynst nokkuð vinsæl gæludýr á seinni árum. Á Íslandi hefur einnig færst í vöxt að fleiri en bændur einir kaupi stök svín til að ala, sérstaklega yfir sumartímann, að sögn Matvælastofnunar. Af því tilefni hefur stofnunin gefið út leiðbeiningar fyrir þá sem hafa hugsað sér að kaupa grísi, þar sem „dregin eru fram helstu atriði sem harfa þarf í huga“.

Ekki fóðra á dýraafurðum

Meðal viðfangsefna í leiðbeiningunum eru smitvarnir, en bent er á að grísir geti borið með sér smit, ekki síst salmonellu. Er þá sérstaklega tiltekið að bannað er að gefa svínum dýraafurðir til átu, „eldhúsúrgang sem inniheldur dýraafurðir eða hefur komist í snertingu við dýraafurðir“ enda geti það haft alvarlegar afleiðingar í för með sér, en neysla dýraafurða er talin vera ein helsta smitleið alvarlegra smitsjúkdóma í svín. Mjólk og egg eru þó undanskilin banninu.

Svínapestin 1942 og blöðruþot 1955 rakin til eldhúsúrgangs

Um svínahald gilda bæði Lög um velferð dýra frá árinu 2013 og Reglugerð um velferð svína frá 2014. Þá er í leiðbeiningum Matvælastofnunar vísað til Fóðurlaga og Evróputilskipunar um aukaafurðir dýra.

Kemur fram í leiðbeiningunum að tvisvar hafi alvarlegir smitsjúkdómar borist í svín á Íslandi. Annars vegar árið 1942, þegar upp kom svínapest, og hins vegar árið 1955 þegar vart varð við sjúkdóm sem nefndur er blöðruþot. „Í báðum tilvikum var hægt að rekja smitleið til eldhúsúrgangs sem innihélt innflutt kjöt,“ segir þar.

Óhugnanlegur tvískinnungur

$
0
0

„Sá sem ræður yfir draumunum ræður yfir heiminum. Sá sem ræður yfir hárinu ræður yfir konunum. Sá sem ræður yfir frjósemi kvenna ræður líka yfir karlmönnunum. Sá sem heldur konum fullnægðum fullnægir líka karlmönnum og sá sem læknar hár- og barnsjúkar manneskjur er konungur þeirra“ (220)

segir í nýlegri skáldsögu Sofi Oksanen.

Oksanen hreppti bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2010 og er einn þekktasti samtímarithöfundur Finna (f. 1977). Hún segir sjálf að enginn nema Tove Janson, múnínálfahöfundurinn mikli, sé þekktari en hún. Oksanen hefur sent frá sér mergjaðar skáldsögur sem hafa hlotið heimsathygli. Í verkum sínum, sem eru beinskeytt og femínísk inn að beini, fæst Oksanen m.a. við sögu þjóðar sinnar, hlutskipti kvenna, ást og vald.

Skáldsaga hennar, Norma (2016) segir frá konu er reyndar ekki alveg normal að því leyti að hár hennar vex í metravís á degi hverjum. Þetta er hræðilegt leyndarmál sem hún felur vandlega fyrir umheiminum með tilheyrandi fyrirhöfn og angist. Í sívaxandi hárinu búa tilfinningar hennar, það getur sagt til um fortíð og framtíð fólks og virkar eins og lyf eða vímugjafi sé það klippt af og reykt í pípu. Hár er jafnan talið höfuðprýði og tengt kvenlegum þokka og erótík en það er bölvun fyrir Normu því fyrir utan fyrirhöfnina sem fylgir hinum öra vexti, er glæponinn frændi hennar í hárbissness og ef hann vissi af þessari náttúrulegri auðlind slyppi hún aldrei undan honum. Móður Normu tókst að forða henni frá því að lenda í klóm hans og verða sirkusfrík eða internet-meme en þegar hún deyr með voveiflegum hætti þarf Norma að taka til sinna ráða.

Í bókinni dregur Oksanen upp skuggalega mynd af útlitsbransanum sem veltir billjörðum á hverju ári. Það er ágætt að leiða hugann að því hvaðan lokkarnir koma sem fara í hárkollur, hárlengingar og gerviaugnhár í snyrtivöruiðnaðinum í Evrópu og hvernig hárið er meðhöndlað og verkað áður en það fer í neytendaumbúðir. Það er líka hollt að spá í launakjör stúlknanna sem vinna langan vinnudag í ódýrum nagla- og nuddstúdíóum sem hafa skotið upp kolli í götumynd flestra stórborga á síðustu árum. Í bók Oksanen er að auki vakin athygli á því að glæpamenn halda staðgöngumæðrum föngnum á „barnabúgarði“ þar sem konur frá Úkraínu, Búlgaríu eða Rúmeníu eru neyddar til að ganga með hvít börn fyrir ríkt fólk og Hollywoodstjörnur. Það er vissulega óhugnanlegur tvískinnungur að útlitsdýrkun og hégómi vestrænna kvenna verða til þess að kynsystur annars staðar í heiminum eru beittar gegndarlausu ofbeldi:

„Hárið sem límt var á höfuð þessara kvenna var ópersónulegt, andlitslaus hármassi, og þær vildu heldur ekki vita hverjum það hafði tilheyrt á undan þeim. Þær vildu ekki vita að einhver önnur hefði elskað, reiðst, vonað, grátið og látið sig dreyma með þessa sömu lokka, þær höfðu í mesta lagið áhyggjur af lúsum eða sjúkdómum. Marion hafði lagt áherslu á þetta þegar hún upplýsti Normu um leyndardóma hárþjónustunnar og gert hana orðlausa. Ekkert kvikindi lifði af meðhöndlun hársins sem útheimti að iðnverkafólkið sem vann við hana notaði öndunargrímur og samt sem áður höfðu kúnnarnir áhyggjur af lúsum, ekki uppruna hársins. Þessar sömu konur hrærðu þó egg úr frjálsum hænum í ommiletturnar sínar og lásu innihaldslýsingar nákvæmlega“ (122).

Samhliða frásögn af viðamikilli glæpastarfsemi frændans sem gengur út á að afhjúpa fegrunarbransann, er rakin hliðarsaga um fjölskyldu Normu sem burðast mann fram af manni með ættarskömmina sem fylgir töfrahárinu. Á köflum er sagan býsna ruglingsleg enda margir boltar á lofti. Frumleg hugmynd, brýnn boðskapur sögunnar og hörkuspenna halda lesandanum oftast við efnið en Norma er þó langt frá því besta frá Oksanen; atburðarásin er of reikul og brotakennd til að brýnt erindið skili sér almennilega, Norma sjálf er óttalegur vingull og sögulokin furðuleg.


Norma

Mál og menning

317 bls.

Þýðandi (úr finnsku): Sigurður Karlsson


Ljósmynd, cc: Alexander Lagergren fyrir Bókamessuna í Gautaborg, 2016.

„Hefði það gerst ef ég væri Íslendingur?“ Írskur karlmaður segir lögregluna á Ísafirði hafa kvalið sig í sólarhring

$
0
0

Ungur írskur karlmaður, Graham Anthony Bruton, skrifar færslu á síðu Facebook-hópsins Pírataspjallið, þar sem hann sakar Lögregluna á Ísafirði um harðræði. Hann greinir frá því að í mars hafi hann verið handtekinn á heimili sínu í Hnífsdal, vegna gruns um sölu eiturlyfja. Lögregla hafi beitt offorsi við handtökuna, haldið honum í sólarhring, beitt brögðum til að knýja fram húsleitarheimild á heimili hans, og hunsað bæði fötlun hans og kvalir henni tengdar. Grunur lögreglunnar hafi ekki átt við nein rök að styðjast, eins og komið hafi í ljós.

Hunsuðu fötlun og beittu hann kvalræði við handtöku

Við handtökuna segist Bruton hafa verið handjárnaður með offorsi í garðinum við hús sitt. Lögreglumennirnir í þeirri aðgerð hafi gert hróp að honum á íslensku, frammi fyrir nágrönnum. Bruton segist hafa svarað rólyndislega: „Getum við tekið þetta inn fyrir, því þið hafið augljóslega tekið mig í misgripum fyrir einhvern annan og gert alvarleg mistök“. Þessi beiðni hans hafi verið hunsuð. Lögreglumennirnir hafi dregið hann eftir götunni að lögreglubíl, um 100 metra leið á að giska.

Bruton segist þá aftur hafa ávarpað lögreglumennina af stillingu og beðið þá að hægja á sér, þar sem hann sé hreyfihamlaður og með brotna fótleggi sem enn séu að gróa. Í fótleggjum er hann með títaníum-stangir og skrúfur, eftir ákeyrslu sem hann lenti í fyrir þremur árum síðan. Lögreglumennirnir hafi þá sakað hann um að ljúga, ekkert amaði að fótleggjum hans. Bruton segist hafa þjáðst af verkjum í fótleggjunum svo vikum skiptir í kjölfarið.

Húsleit sett sem skilyrði fyrir að vera sleppt

Á lögreglustöðinni segist Bruton hafa útskýrt að hann þurfi á lyfjum að halda vegna langvinnra veikinda, sem hann þurfi að taka með máltíð, en þjáist annars af magaverkjum alla nóttina. Fjórum klukkustundum síðar hafi honum verið ekið heim til sín. Hann hafi talið að ferðin væri ætluð til að sækja lyfin sem hann þarfnaðist. Á leiðinni þangað, í bílnum, hafi honum aftur á móti verið sagt að hann þurfi að undirrita húsleitarheimild vilji hann að lögreglan leysi hann úr haldi. Hann hafi undirritað heimildina, og lögreglan leitað á heimili hans. Ekkert grunsamlegt eða saknæmt fannst við leitina. Bruton var engu að síður færður aftur í klefa á Ísafirði og haldið þar yfir nótt.

„Þetta er ekki hótel“

Hann segist hafa fengið að taka lyfin sín undir miðnætti, 5–6 klukkustundum eftir að gera grein fyrir þörf lyfjatökunnar. Með lyfjunum hafi hann fengið kalda samloku og gosdrykk. Þegar hann bað um meiri mat, til að stilla magaverki, hafi honum verið svarað: „Þetta er ekki hótel“. Eftir að krefjast þess að sjá lækni hafi honum verið veittur aðgangur að lækni á neyðarvakt. Með því að sýna lækninum örin á fótleggjum sínum hafi Bruton tekist að sannfæra hann um að hann þjáðist af raunverulegum verkjum, og fengið verkjalyf. Þegar verkjalyfin bráðu af honum og hann bað um annan skammt hafi honum verið neitað um hann.

Þegar hann bar fram efasemdir um framkvæmd lögreglunnar í málinu og möguleg mannréttindabrot gegn sér svaraði lögregluþjónn honum: „Við erum ekki hér til að ræða þetta“. Þá hafi hann verið yfirheyrður um annað fólk sem handtekið var sama kvöld og hvað hann vissi um fíkniefnaviðskipti í bænum. Bruton segist hafa útskýrt að hann þekkti ekkert til þeirra mála, enda nýr í bænum og ókunnugur flestum.

Haldið í sólarhring án nokkurra saka

Eftir yfirheyrsluna segir Bruton að lögreglan hafi tilkynnt að honum yrði bráðlega sleppt úr haldi enda hefði hann ekki brotið af sér. Þó hafi honum verið haldið í varðhaldsklefa í 2–3 klukkustundir enn, aftur verið neitað um mat og skipað að þegja þegar hann grét af sársauka og grátbað um að fá að fara heim til sín, eða á sjúkrahús.

Alls segist Bruton hafa verið í haldi lögreglu í 24 klukkustundir án þess að hafa nokkuð til saka unnið.

Bruton býr í húsi sem hann lýsir sem „draumakofa“, sem hann hafi varið öllu fé sínu til að kaupa – peningum sem honum voru greiddar í bætur eftir ákeyrsluna fyrir þremur árum síðan. Hann segist ekki þiggja atvinnuleysisbætur og hafa verið tekjulaus í hálft ár, á meðan hann byggir upp rekstur, gistiaðstöðu fyrir ferðamenn, í Hnífsdal.

„Ætti ég þá nú að selja húsið mitt?“

Bruton segir að hann hafi, eftir þetta atvik, verið fræddur um að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem lögreglan á Ísafirði ráðist á erlendan samkynhneigðan karlmann. Því spyrji hann: myndi þetta gerast væri ég kona? Hefði það gerst ef hreyfihömlun mín væri augljósari? Hefði það gerst ef ég væri Íslendingur? Bruton segist ekki eiga áreiðanleg svör við þessum spurningum enda hafi hann heyrt að „þeir geri alls konar furðulega hluti við alls konar saklaust fólk. En segið mér, ef ég flyt til Íslands vegna þess hve mér fannst ég öruggur þegar ég kom hingað til heimsóknar, ætti ég þá nú að selja húsið mitt og finna stað þar sem ég verð ekki áreittur? Mér finnst ég ekki öruggur hér. Mér finnst ég ekki velkominn. Þetta er ekki í lagi.“

Bruton segist vænta þess að sendiráð Írlands í Danmörku muni beita sér í málinu. Hann leiti ekki eftir bótum en vilji að brugðist verði við til að hann og aðrir í hans stöðu megi vænta þess, í framtíðinni, að lögreglan veiti vernd frekar en ógn.

358 skrautfuglar enn í haldi í Holtagörðum

$
0
0

Skrautfuglarnir 358 sem haldið var frá því að yfirgefa sóttkví dýraverslunarinnar Dýraríkið á dögunum, vegna sníkjudýrs sem fannst á einum fuglanna, eru enn í sóttkvínni. Pestin sem um ræðir nefnist norrænn fuglamítill. Á einum kanarífugli í sendingunni fundust 12.000 mítlar.

Fuglarnir sem um ræðir eru meðal annars dísur, gárar, finkur, ástargaukar og hringpáfar, auk kanarífugla.

Staðan er sú, að sögn Matvælastofnunar, að fulltrúar verslunarinnar þurfa að skila henni gögnum í síðasta lagi á mánudag, og verður málið þá tekið til frekari skoðunar. Sennilegt er þá að í næstu viku verði tekin ákvörðun um hvort dýrin verða hreinsuð af pestinni, þyki ferlin sem bjóðast til þess áreiðanleg, hvort þau verða endursend til Hollands, þaðan sem þau voru keypt, eða hvort fuglunum verður fargað.

Golfstraumurinn veikari en nokkru sinni í 1.600 ár, segja nýjar rannsóknir

$
0
0

Samkvæmt nýjum rannsóknum er Golfstraumurinn nú aflminni en hann hefur verið í 1.600 ár, eða frá því nokkrum öldum fyrir landnám á Íslandi. Hnignunin nemur 15%. Vísbendingar eru um að hnatthlýnun af mannavöldum eigi sinn þátt í þessu verulega fráviki.

Hringrás Golfstraumsins.

Hringrás Golfstraumsins.

Forsenda Íslandsbyggðar – og gott betur

Eins og öllum skólabörnum á Íslandi er kennt er það Golfstraumnum fyrir að þakka að lífvænlegra er á landinu en breiddargráða þess gæfi annars tilefni til að ætla: Golfstraumurinn ber með sér hlýjan sjó úr suðurhöfum, meðal annars frá Mexíkóflóa, sem vermir hafið kringum landið og þar með andrúmsloft þess.

Það er þó ekki aðeins Ísland sem myndi líða fyrir það ef áhrif Golfstraumsins taka verulega dýfu, heldur stór hluti Vestur-Evrópu, þar sem gera mætti ráð fyrir harðari vetrum, og austurströnd Bandaríkjanna þar sem sjávarmál myndi hækka.

Golfstraumurinn er yfirborðsstraumur, enda leitar hiti upp á við. Hlýr sjór sem berst með honum norður á bóginn, áleiðis að Norðurpólnum, kólnar í kringum heimskautið, þéttist þar með og sekkur. Eftir kólnun leitar hann eftir dýpinu aftur suður eftir, og gengur þannig í hring. Hnatthlýnun tefur hins vegar fyrir kólnun yfirborðssjávarins – áhrif sem aukast enn af bráðnun jökla, ekki síst af Grænlandi. Þannig dregur úr kraftinum í gangverki straumsins.

Hnignun straumsins jók frosthörkur um 5–10°C á síðustu ísöld

Dr. David Thornalley, við landfræðideild University College London, leiddi aðra tveggja rannsókna sem sýna fram á hversu veruleg hnignun straumsins er nú þegar í sögulegum samanburði. Í viðtali við The Guardian segir Thornalley að á síðustu ísöld hafi verulegar breytingar á straumnum lækkað hitastig andrúmslofts og aukið vetrarhörkur um allt að 5–10° C, á ekki meira en þremur árum.

Er hrun Golfstraumsins þá yfirvofandi? Hvort líkur eru á svo afgerandi hnignun, með svo verulegum afleiðingum, er erfitt að segja, þar sem ekkert líkan er til sem gerir skýra og ótvíræða grein fyrir því hvar mörkin liggja. Þá fela niðurstöður rannsóknanna tveggja í sér ólíkt mat á því hversu veigamiklir manngerðir þættir eru í þeirri hnignun sem nú er orðin. Hvað sem þar býr að baki er ljóst, segir í umfjöllun The Guardian, að frekari hlýnun felur í sér aukna hættu.

Ísland tali „skýrt gegn stríðsátökum og fyrir stríði“ —Mismæli dagsins á Alþingi

$
0
0

Meðal þeirra þingmanna sem tóku til máls á föstudag, í umræðum um árlega skýrslu Utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál, var Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður VG. Óhætt er að segja að hún hafi átt mismæli dagsins:

„Það þarf ekki að tíunda stefnu VG þegar kemur að öryggis- og varnarmálum. Stefna sem endurspeglar stefnu vinstrimanna í tæp 70 ár og líka stefnu friðarsinna hér á landi um áratuga skeið: Ísland á ekki að hafa her, hvorki innlendan né erlendan, á að standa utan hernaðarbandalaga og hafna vígvæðingu. Þetta hefur verið stefna VG frá stofnun og verður að koma með einhverjum hætti skýrar fram í stefnu ríkisstjórnarinnar í utanríkismálum og alþjóðamálum. Það getum við til að mynda gert sem herlaus þjóð sem beitir sér ávallt með virkum hætti á alþjóðavettvangi fyrir friðarumleitunum og talar skýrt gegn stríðsátökum og fyrir stríði. Fyrir friði. Svo það sé skýrt sagt. Fyrir friði.“


Ljósmynd af þinghúsinu við Austurvöll, cc 1983: Roger Goodman.

Ísland „í fjölþjóðabandalagi sem vinnur að því að uppræta ISIL“

$
0
0

Í árlegri skýrslu utanríkisráðherra um Utanríkis- og alþjóðamál sem tekin var til umræðu á Alþingi á föstudag er því teflt fram að Íslandi hafi

„í Sýrlandi og Írak stutt aðgerðir sem miða að því að sporna við áhrifum ISIL-hryðjuverkasamtakanna“ (bls. 41).

Þá segir í skýrslunni að Ísland eigi:

„hlutdeild að fjölþjóðabandalagi sem vinnur að því að uppræta ISIL“ (bls. 42);

og ennfremur að ISIL sé

„á undanhaldi í Sýrlandi og Írak eftir að hafa síðasta vor tapað mikilvægum landsvæðum, og þá einkum borginni Raqqa í Sýrlandi“ (bls. 42).

Vesturlönd létu Kúrda færa fórnirnar

Öllum heimildum ber saman um að Haukur Hilmarsson hafi barist í borginni Raqqa, með fjölþjóðlegu liði sjálfboðaliða, við hlið þeirra kúrdísku sveita YPG og YPJ sem gerðu að engu yfirráðasvæði „hryðjuverkasamtakanna ISIL“ eins og þau eru nefnd í skýrslu Utanríkisráðuneytisins.

Aðgerðir Kúrda nutu stuðnings Bandaríkjanna og er sá skilningur raunar nánast óskoraður og einróma að Bandaríkin hafi í reynd látið Kúrda og bandamenn þeirra um að færa þær fórnir sem þurfti til að binda endi á landvinninga hryðjuverkasamtakanna, stutt þá með vopnum, loftárásum, og upplýsingaöflun, en haldið eigin landgönguliðum í skjóli þar til yfir lauk.

Aðild að fjölþjóðabandalagi gegn ISIL/ISIS nú skjalfest

Ljóst var frá því að landvinningar hinna fasísku hryðjuverkasamtaka hófust að óvenju útbreiddur samhugur ríkti á meðal íbúa og stjórnvalda Vesturlanda, nær óháð stjórnmálaafstöðu að öðru leyti, um að binda þyrfti endi á yfirráð þeirra í Sýrlandi og Írak. Að Ísland hafi átt aðild að fjölþjóðabandalagi í því augnamiði hefur hins vegar ekki legið fyrir skjalfest með þessum hætti fyrr en nú.

Sé að marka þessi brot úr skýrslu utanríkisráðherra stóð Ísland, sem aðili að fjölþjóðabandalaginu, við bakið á kúrdísku sveitunum YPG/YPJ og bandamönnum þeirra, á meðan þær réðu niðurlögum ISIL. Og ætlar sér nú einhvern heiður fyrir þá baráttu.

Ekki er vitað til að nokkur íslenskur ríkisborgari hafi hætt lífi sínu í þeirri baráttu nema Haukur Hilmarsson.


Ljósmynd af höfuðstöðvum NATO á Reykjanesi, 1983, cc: Roger Goodman.

„Mikilvægt að Vinstri-græn hafi kyngt þessu“ | Katrín Jakobs lofaði að vinstrið hefði hljótt um NATO

$
0
0

Á föstudag birtist árleg skýrsla Utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál og fóru í kjölfarið fram þingumræður um efni hennar.

Í umræðunum, að vænta má viðamestu þingumræðum um utanríkis- og alþjóðamál á yfirstandandi þingi, minntist hvorki ráðherra, í kynningarerindi sínu, né aðrir þingmenn í ræðum og andsvörum, á árásir Tyrklands á sjálfsstjórnarsvæði Kúrda í Sýrlandi eða á mál Hauks Hilmarssonar, sem talinn er hafa farist í þeim árásum en er enn leitað.

Þögnin um Tyrkland, Afrin og Hauk

Það hefur vakið furðu margra að hvorki ríkisstjórnin sem VG veitir forystu né flokkurinn sjálfur hafi fordæmt aðgerðir Tyrklands. Í ljósi þess að íslenska ríkið lítur á sig sem einn bakhjarla þeirra aðgerða gegn ISIS sem Haukur hélt til Sýrlands til þátttöku í, hefur tregða ráðamanna til að bregðast opinberlega við fréttum af fráfalli hans einnig sætt furðu. Síðast á þriðjudag ávarpaði Lárus Páll Birgisson Alþingi af áheyrendapöllum og spurði: „Af hverju segið þið ekki neitt?“

Þá hefur forystusveit VG ekki fjallað um innrásaraðgerð Tyrklands, þjóðernishreinsun þeirra í Afrin-héraði og hernám þess sem tilefni til að afturkalla aðild Íslands að NATO, eða draga úr þátttöku landsins í bandalaginu. Þó er flokkurinn enn, samkvæmt stefnuskrá, formlega mótfallinn aðild landsins að bandalaginu.

„Pínu vandræðalegt fyrir VG“

Á þessari þögn varð engin undantekning í umræðunum á föstudag. Erindi eins þingmanns fól þó í sér upplýsingar sem tengjast málinu. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði í ræðu sinni:

„Það er samt pínu vandræðalegt fyrir VG, sem enn hefur á sinni stefnu að það sé betra að vera utan NATO — já, og hér koma þingmenn VG hlaupandi inn og gefa merki: já það er allt satt og rétt, við viljum ekki vera aðilar að NATO. Það er gott að það sé staðfest. En ríkisstjórnin, sem betur fer, hefur það í sínum ríkisstjórnarsáttmála að þjóðaröryggisstefna sem var samþykkt hér á Alþingi, verði höfð að leiðarljósi.“

Þjóðaröryggisstefnan er stutt skjal, þingsályktun, með 11 samþykktum. Þriðja samþykkt skjalsins er svohljóðandi:

„Að aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu verði áfram lykilstoð í vörnum Íslands og meginvettvangur vestrænnar samvinnu sem Ísland tekur þátt í á borgaralegum forsendum til að efla eigið öryggi og annarra bandalagsríkja.“

„Mikilvægt að Vinstri-græn hafi kyngt þessu“

Þorgerður Katrín lofaði Sjálfstæðisflokkinn fyrir að láta VG, þvert á yfirlýsta stefnu hreyfingarinnar, „kyngja“ þjóðaröryggisstefnunni:

„Vel að merkja var þjóðaröryggisstefnan samþykkt með öllum greiddum atkvæðum nema að það var einn flokkur sem sat hjá, út af sinni grunnstefnu, að vera á móti NATO, það var náttúrulega VG. Það er rétt sem heilbrigðisráðherra hæstvirtur hefur bent á, það er sósíalisti við borðsendann, sem er á móti því að Ísland sé í NATO og hefur núna undirgengist þessa þjóðaröryggisstefnu sem þau greiddu ekki atkvæði með, sem þau studdu ekki, en hafa sem betur fer – og ég vil hrósa hæstvirtum Utanríkisráðherra og Sjálfstæðisflokknum fyrir það – að hafa látið VG í rauninni kyngja þessari stefnu.“

Forsætisráðherra hafi heitið ró um Þjóðaröryggisstefnu

Þorgerður hamraði þessa sögn inn, og ítrekaði að sér þætti „mikilvægt að Vinstri-græn hafi kyngt þessu.“ Þá sagði hún það hafa verið:

„upplýsandi og um leið þakkarvert að forsætisráðherra kom á fund utanríkismálanefndar þingsins og útskýrði þetta mjög gaumgæfilega, að það væri ekki vandamál af þeirra hálfu að vinna og fylgja eftir stefnunni, þetta væri lýðræðislega samþykkt stefna hér í þinginu og þess vegna myndi VG og ríkisstjórnin undir forystu þeirra vinna að henni. Og það er mikilvægt að þetta sé á hreinu. Mér finnst það skipta máli og vil hrósa þeim sem drógu VG inn á þennan vagn.“

Andsvar VG: „Ekki eins máls hreyfing“

Steinunn Þóra Árnadóttir varð til andsvars. Hún sagði VG enn líta svo á að „hagsmunum Íslands“ sé „betur borgið utan NATO“. VG sé aftur á móti ekki „eins máls hreyfing“, þau vilji berjast fyrir fleiri stefnumálum í pólitík, og vilji ekki útiloka sig frá stjórnarþátttöku með því að gera þetta eina mál að frágangssök. Hún sagði það vera afstöðu flokksmeðlima, sem þingræðissinna, að verða að beygja sig „undir það að við erum enn sem komið er með minnihlutaskoðun þegar kemur að NATO.“ Eitt af markmiðum þingmanna flokksins sé aftur á móti að tala gegn aðild Íslands að NATO, sem þau ætli svo sannarlega að halda áfram að gera „líka í þessu ríkisstjórnarsamstarfi“.

Mikill bragur að málamiðlun Katrínar

Katrín steig þá aftur í pontu og endurtók að núverandi ríkisstjórn væri sú fyrsta á Íslandi undir forystu sósíalista „með þá skoðun að Ísland eigi að vera utan NATO.“ Það hafi þurft að skýra, því hafi hún og fleiri gengið á eftir því hvað það þýddi.

Þá endurtók hún einnig lofsyrði sín í garð Katrínar Jakobsdóttur og sagði:

„Mér fannst mikill bragur á því þegar hæstvirtur forsætisráðherra kom í Utanríkismálanefnd og gerði einfaldlega grein fyrir því að vinstrihreyfingin undir þeirra forystu, ríkisstjórnin undir þeirra forystu, myndi fylgja eftir þjóðaröryggisstefnunni, á grundvelli málamiðlunar, samkomulags. Og þar með var það einfaldlega skýrt.“

Að lokum tók Þorgerður Katrín mikilvægi þessa viðfangsefnis í eigin huga saman í einni setningu:

„Það sem má ekki gerast í utanríkismálum er að utanríkisráðherra annars vegar og forsætisráðherra hins vegar séu ekki að tala sama tungumál, ekki síst á, meðal annars, leiðtogafundum NATO.“


Ljósmynd af samskiptamiðstöð Bandaríkjahers á Reykjanesi, 1983, cc: Roger Goodman.

Utanríkisráðuneytið ítrekar að Ísland hafi þegar gagnrýnt Tyrkland

$
0
0

Á einum stað í skýrslu Utanríkisráðherra til Alþingis er minnst á árásir Tyrklands á sjálfsstjórnarsvæði Kúrda í Sýrlandi. Þar segir að „hernaðaraðgerðir Tyrklands í Afrin héraði í Sýrlandi nýverið“ hafi „valdið áhyggjum og mætt gagnrýni á alþjóðavettvangi, meðal annars af Íslands hálfu“ (bls. 41).

Svipuðu hefur forsætisráðherra áður haldið fram, það er að íslensk stjórnvöld hafi gagnrýnt herferð Tyrkja gegn Kúrdum. Enn hefur ekki komið fram á hvaða vettvangi eða með hvaða hætti sú gagnrýni hefur verið birst.


Ljósmynd 1983, cc: Roger Goodman.

Í minningu Sigurðar Pálssonar, látins manns og til að minna á Sigurð Pálsson sprelllifandi ljóðskáld

$
0
0

Kári Stefánsson skrifar:

Þegar Sigurður Pálsson ljóðskáld lést orti ég þessa ferskeytlu í minningu hans og kom henni á framfæri:

Um kinnar tárin trega renna
töpuð oss fágæt snilli máls
þornað er blek í beittum penna
borinn til grafar Siggi Páls

Ég bið alla þá afsökunar sem urðu fyrir því að lesa hana vegna þess að hún er í besta falli haglega smíðaður misskilningur á peysufötum. Fyrsta og síðasta vísuorðin eru að vísu rétt, ég skildi við töluverðan vökva um augntóftir þegar ég frétti af andláti Sigurðar Pálssonar og hann var jarðsettur. Hitt er allt þvæla. Við glötuðum ekki snilli hans til máls. Hún er þarna í bókunum hans fyrir okkur og komandi kynslóðir að njóta og blekið í pennanum hans er ekki þornað. Það er nefnilega þannig að bókmenntir eru eiginlega ekki til eða áhrifalausar nema á snertifleti bókar og lesanda. Þegar ljóð eftir Sigga Páls er lesið, annað hvort af nýjum lesanda eða aftur af þeim sem hefur lesið það áður verður úr því ný lífsreynsla og einstök. Það má því leiða að því rök að blekið úr pennanum hans flæði í hvert sinn sem ljóð eftir hann er lesið. Ljóðskáldið Sigurður Pálsson deyr ekki nema við hættum að lesa hann og það vona ég að gerist aldrei.

Ég var líklega fjórtán ára þegar Sigurður Pálsson vék sér að mér fyrir utan Hagaskólann og hrósaði mér fyrir ljóð sem hafði birst eftir mig í skólablaðinu. Ég er svo heppinn að muna ekkert eftir ljóðinu en Sigga Páls gleymi ég seint. Hann var kominn með alpahúfuna og trefilinn og eyrnannaámillibrosið hvarf sjaldan af andlitinu. Hann bauð mér heim til sín við þetta tækifæri og sagði mér hvernig hann hefði drepið kvígu með því einu að horfa í augun á henni. Mér þótti þetta merkilegt afrek og hef margoft logið því að hafa leikið það eftir. Ég man sérstaklega eftir því hvernig hann bar sig að við að setjast á bekkina við borðin á Tröð. Hann henti sér inn eftir bekknum um leið og hann tók ofan alpahúfuna með höndinni sem utar var. Það var eitthvað við þessar hreyfingar sem benti til þess að maðurinn hefði ekki hugmynd um hvað hann væri að gera en væri alveg sama um það. Á þeim árum var ekkert flottara en nákvæmlega það, að líta út fyrir að hafa ekki hugmynd um hvað maður væri að gera og að vera alveg sama um það. En þegar ég horfi til baka er ljóst að Siggi Páls vissi að minnsta kosti stundum hver hann væri og hvert hann stefndi. Hann var ljóðskáld og ætlaði svo sannarlega að halda því áfram. Hann var einn af þessum einstaklingum með alveg sérstakt samband við orð. Ekki veit ég hver snerti hann með töfrasprotanum og sagði mergur og bein breytist í ljóðskáld, en sá kunni aldeilis til verka og gerði það þegar Siggi Páls var kornungur.

Eftir hann liggur fjöldi ljóðabóka, allar góðar og með sniðugum heitum, sumar mjög góðar en sú síðasta, Ljóð muna rödd, ber af. Hún er skrifuð af skáldinu þegar hann veit að hann á ekki langt eftir og það er eins og hann hafi við það öðlast aukið frelsi frá sjálfum sér. Hann hættir algjörlega að flækjast fyrir í ljóðum sínum. Eitt af ljóðunum í þeirri bók, það sem er prentað utan á kápuna og heitir Orð og draumar eru í mínum huga galdur allra galdra í íslenskri ljóðlist. Þar stendur skáldið andspænis dauðanum en neitar að dvelja í skugga hans og leitar skjóls í birtunni, ágústbirtunni um leið og hann segir okkur frá sambandi sínu við orð. Í mínum huga varpar það samband birtu á eðli ljóðsins.

Orð og draumar

Sigurður Pálsson

Orð og draumar
hafa alltaf farið saman
í lífi mínu
Lengur en ég man

Nú bíður hann færis
Þessi sem ég vil ekki nefna
Bíður færis ég finn það

Kemst ekki nær mér
meðan ágústbirtan

breytir draumum
í orð

breytir orðum
í drauma

Ég sat í flugvél um daginn á leiðinni frá Los Angeles til Keflavíkur, sem er nokkurn vegin það leiðinlegasta sem hent getur mannskepnu, og reyndi að bjarga mér frá sturlun með því að lesa bók eftir Franz Wright, sem er amerískt ljóðskáld af kynslóð Sigga Páls. Hann er að mínu mati eitt merkasta ljóðskáld allra tíma. Hann hlaut Pulizerverðlaun fyrir ljóðlist árið 2004, en faðir hans James Wright fékk sömu verðlaun árið 1958. Franz hlaut ekki bara ljóðlistina í arf frá föður sínum heldur líka illvígan alkóhólisma og hann var heimilislaus róni um margra ára skeið. Ljóð muna rödd minnir mig um margt á ljóðin hans Franz. Þeir kollegar, Siggi Páls í Orð muna rödd og Franz í flestum bóka sinna horfast í augu við örlög sem þeir ráða ekkert við en tekst að blanda sér úr þeim kokteil af angist og æðruleysi sem þeir teiga af áfergju og áhrifin eru frelsi til þess að yrkja eins og enginn sé morgundagurinn. En á þessari heimleið minni yfir Atlandshafið komst ég að því að þeir deila ýmsu öðru. Ég rakst til dæmis á ljóð eftir Franz sem mér finnst lýsa svipuðu sambandi milli ljóðskáldsins og orðsins og Siggi Páls yrkir um í Orðum og draumum.

Orð

Franz Wright

Ég veit ekki hvaðan þau koma.
Ég get sótt þau
(stundum ég get)
inn í huga minn
fram í fingur mína,
ég veit ekki afhverju. Eða ég heyri þau allt í einu
gangandi, stundum
gangandi-
þau koma sjaldnast þegar ég þarf.
Þegar þörf mín er brýnust,
aldrei

(þýðing Kári)

Orðið verður ekki hamið eða brotið á bak aftur. Það kemur stundum þegar þú vilt en stundum ekki og stundum kemur það bara í draumi eða sem draumur. Ljóðið verður til í flæði eða sem flæði en ekki fyrir sakir áreynslu eða rembings. Það má ekki gleymast hér að orðið er grundvallareining tungumálsins og tungumálið er það tæki sem við notum til þess að hugsa með. Þegar við ætlum að tjá tilfinningar reynum við oftast að gera það í orðum og þá er sú hætta fyrir hendi að úr verði hugsun sem skýtur sér inn á milli tilfinninganna og þess sem við vildum sagt hafa. Sú hætta eykst til muna ef tjáningin byrjar á hugmynd (afsprengi hugsunar) um það hvernig tjáningin eigi að vera. Þess vegna skjóta bestu ljóðin upp kollinum í kollinum á þeim sem hlutu Gjöfina, án áreynslu. Ég held að þetta sé það sem Siggi Páls og Franz eru að segja með þessum orðum sínum um orð. En lesandi góður þetta eru bara skoðanir amatörs á ljóðlist og þá sérstaklega ljóðlist tveggja stórmenna og skoðanir hans á skoðunum þeirra á ljóðlist og þú mátt ekki gleyma því að þær eru eins fjarri því að vera ljóðlist og súrsaðir hrútspungar.

En aftur að misskilningnum í vísunni minni hér að ofan. Í kirkjubókum má sjá að þeir eru báðir dánir, Sigurður Pálsson og Franz Wright, en það þarf ekki að fletta mikið í bókunum þeirra til þess að gera sér grein fyrir því að þeir eru báðir sem ljóðskáld sprelllifandi og halda áfram að gleðja og hryggja og leggja að mörkum til menningar okkar tíma. Ég vil nota tækifærið og biðja Sigga Páls afsökunar á vísunni hér að ofan. Þegar ég setti hana saman var hugmyndin að tjá virðingu, aðdáun og söknuð en ekki að dæma hann til dauða. Eins og svo oft áður lagði hugmyndin (afsprengi hugsunar) að mörkum til þess að útkoman varð léleg (þótt aðalástæðan í þessu tilfelli hafi nú að öllum líkindum verið hæfieikaskortur).
Að lokum stenst ég ekki freistinguna og fæ að láni nafnlaust ljóð eftir Franz Wright sem hann orti til föður síns og lýsir að hluta til afstöðu minni til Sigga Páls eins og hún er í dag.

Nafnlaust

Franz Wright

Ég baðaði mig í þér;
Ég elskaði þig, hjálparvana, takmarkalausri, málheftri
ást.
Dauðinn kemur ekki í veg fyrir að ég elski þig.
Þess utan,
mér finnst þú ekki vera dauður.
(ég þekki dautt fólk og þú ert ekki dauður)

(þýðing Kári)

Sprengjur hræsninnar

$
0
0

Kristinn Hrafnsson blaðamaður skrifar:

Nokkrum klukkutímum áður en vekjaraklukkan hringdi í Douma til að vekja vísindamenn Sameinuðu þjóðanna svo þær gætu hafið fyrsta vinnudaginn í því starfi að komast að sannleikanum um hina meintu efnavopnaárás um liðna helgi lét Donald Trump til skarar skríða með fulltingi Theresu May í Bretlandi og Macron í Frakklandi. Trump, May og Macron töldu enga ástæðu til að bíða eftir staðreyndum. Þrenningin taldi enga ástæðu til að leita samþykkis eigin þjóðþinga né heldur töldu þau þarft að fara með málið eftir löglegum leiðum Sameinuðu þjóðanna.

Trump, Macron og May fullyrtu að órækar sannarnir væru fyrir því að Assad stjórnin bæri ábyrgð á efnavopnaárás og að Rússar bæru þar fulla ábyrgð. Enginn blaðamaður bað um að sjá þessar sannanir. Það þykir sem sagt í lagi að ógna heimsfriði á grundvelli upplýsinga sem koma almenningi ekki við.

Það var raunar dáldið erfitt fyrir Macron og May að dansa eftir trumbuslætti „leiðtoga hins frjálsa heims“, því Trump gat ekki tíst í takt. Á miðvikudag tísti hann að sprengjurnar væru á leiðinni í hausinn á Rússum og þær sprengjur væru  „flottar, nýjar og gáfaðar“. Rússum væri nær að vera í vinfengi við „eiturdrepandi skrímsli“ (mín þýðing: gas-killing animal). Þessi tvö fyrrverandi stórveldi í Evrópu, leidd af May og Macron, voru rétt byrjuð að ræsa hreyflana þegar Trump sendi nýtt tíst og dró í land. „Ég sagði aldrei hvenær ráðist er á Sýrland. Gæti verið bráðlega eða bara alls ekki svo bráðlega“. May og Macron misstu taktinn eða þangað til í nótt að friðarsprengjurnar flugu inn yfir Sýrland.

Evrópsku dansfíflin voru ekkert að skafa af því og sögðu bráðnauðynlegt að senda skýr skilaboð um að notkun efnavopna væru aldrei liðin. Þennan viðbjóð mætti aldrei normalisera og þau skýru skilaboð yrðu að senda í sprengjuformi. Aldrei aftur skyldu menn upplifa hrylling gasárása í skotgröfum Fyrri heimstyrjaldarinnar.

Eitthvað mislíkar blaðamanninum Robert Fisk hræsni eigin forsætisráðherra og taldi óþarft að spóla 100 ár til baka. Hann rifjar upp í grein í Independent í fyrradag, atburði sem eru aðeins nær í tíma. Það var nefnilega svo að ekki svo alls fyrir löngu var efnavopnanotkun óátalin af okkar vinum og bandamönnum. Það var í stríði Íraks og Írans á níunda áratug síðustu aldar og þá var það Saddam Hússein sem beitti eitrinu og sendi tugþúsundir hermanna hóstandi blóði af vígvellinum, það er að segja þá sem létust ekki strax. Tölur um fallna í þessum efnavopnahernaði eru á reiki en að minnsta kosti þúsundir létust, ef til vill allt að 20 þúsund.

Þá var Saddam Hússein ennþá besti vinur aðal. Hann var alls ekki „eiturdrepandi skrímsli“ heldur dyggur bandamaður í slagnum við erkiklerkana í Íran. Þá sagði engin neitt um þá skelfingu að nota efnavopn. Það talaði enginn um hörð viðbrögð til að stöðva „normaliseringu“. Enda dálítið erfitt, svona eftir á að hyggja, því Bandaríska leyniþjónustan hafði fulla vitneskju um að Saddam var að nota eiturvopn. Ekki nóg með það, CIA aðstoðaði hann við að velja skotmörk eiturefnavopnanna, á grunni yfirburða upplýsinga m.a. úr gerfihnöttum. Bandaríkjastjórn bar fulla ábyrgð á þessu eiturdrepandi skrímsli. Þúsundir lágu í valnum. Tugþúsundir eru enn þann dag í dag að glíma við afleiðingarnar.

Þetta var langt í frá í fyrsta sinn sem CIA vissi af, og studdi hernaðaraðgerðir þar sem eiturefnavopn voru notuð. Því það er bara ekki sama hver stendur að baki; það er reginmunur á eiturdrepandi skrímsli sem er í „okkar“ liði og eiturdrepandi skrímsli sem er í liði annara. Það var reynt að klóra í bakkann í Írak með að fullyrða að Bandaríkjamenn hefðu ekkert vitað af áformum um að nota efnavopn, Saddam hefði aldrei tilkynnt það. Rick Francona sem var liðsforingi og hernaðarráðgjafi Bandaríkjanna í Bagdad blés á þetta síðar og í viðtali við tímaritið Foreign Policy sagði hann: „Írakar tilkynntu okkur aldrei að þeir ætluðu að nota taugagas. Þeir þurftu þess ekki. Við vissum það fyrir“.

Það þarf svo sem ekki að fara langt aftur til að afhjúpa tvískinnunginn og hræsnina. Menn ætla sko ekki að una því að harðstjóri drepi eigin þegna, fangelsi blaðamenn og ráðist með ólögmætum hætti með hernaði inn í önnur lönd. Það er að segja ef harðstjórinn heitir Pútín en ekki ef hann heitir Erdogan.

Menn ætla ekki að una því að hernaðarmætti sé beitt gegn óbreyttum borgurum og jafnvel blaðamenn skotnir á færi. Það er, ef viðkomandi heitir Assad en ekki ef hann heitir Netanyahu.

Menn ætla sko ekki að una því að trúarofstækismenn höggvi hausa af fólki án þess að því sé mætt af hörku, nema því aðeins að afhausararnir séu á vegum Konungsríkis Sáda, þá sköffum við þeim vopn en ekki ef þeir kenna sig við Islamska ríkið (þá látum við Sáda um að skaffa þeim vopn).

Í dag keppast leiðtogar „hins frjálsa heims“, meðal annars ráðherra utanríkismála í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, við að fagna sprengjuárásum næturinnar eða í það minnsta sýna þeim „skilning“, eins og Guðlaugur Þór, utanríkisráðherra gerði í morgun. Forsætisráðherra vék sér undan að fordæma loftárásinar en sagði að þær hefðu verið „viðbúnar“. Aumara verður það varla fyrir kjósendur Vinstri-grænna að sjá eigin ríkisstjórn  dansa með May, Macron og öllum hinum við músikina frá tístbjánanum í Hvíta húsinu.

Dansaðu Katrín. Dansaðu.

Framtíð brotaþola

$
0
0

Mikill fjöldi góðra bóka hefur komið út á liðnum vetri. Ein þeirra er Brestir eftir Fredrik Backman. Þar segir frá íbúum Björnstad sem er lítill staðnaður verksmiðjubær með fáa atvinnumöguleika. Höfundurinn er fæddur 1981 og sögutími bókarinnar er trúlega á unglingsárum hans rétt fyrir aldamót þegar jafnréttisbaráttan náði illa til landsbyggðarinnar og metoo byltingin var langt undan.

Sagan er að mestu sögð frá sjónarhorni Péturs íþróttastjóra, Míru konu hans og börnum þeirra Maju og Leo. Um árabil hefur íshokkí verið næstum eina íþróttagreinin í Björnstad. Það var á unglingsárum Péturs að hann og fleiri íshokkístrákar sem nú eru á fimmtugsaldri náðu að koma liðinu upp í fyrstu deild. Pétur varð svo góður að hann komst alla leið til Kanada og spilaði þar sem atvinnumaður í bestu deild heims. En velgengni Péturs var skammlíf og hann sneri aftur heim til Björnstad og gerðist íþróttastjóri.

Eftir stóra sigurinn varð bærinn íshokkístaður og íþróttin hélt uppi merki og sjálfsmynd staðarins og þótt liðið dalaði og félli um deild vegna nýliða sem ekki stóðust væntingar þá kom engin önnur íþrótt til greina. Bærinn fékk með árunum harðan skráp enda íshokkí karllæg bardagaíþrótt. Fyrrum liðsmenn og helstu áhugamenn gerðu allt sem þeir gátu til að halda liðinu uppi. Þeir gengu svo langt að svikja út atvinnuleysisbætur fyrir liðsmenn svo þeir gætu stundað íþróttina af krafti. Þannig ríkir þagnarhefð, spilling og gríðarlegt feðraveldi í litla bænum þar sem allir áttu að dýrka og dá íshokkí. Draumur íshokkíaðdáendanna og afsökun fyrir áherslu þeirra á aðeins þessa einu íþrótt var sú að velgengni liðsins gæti fært staðnum íþróttamenntaskóla og aukna atvinnu í margvíslegum afleiddum störfum.
Stóra vandamálið er að samfélag sem leggur ofuráherslu á gengi einnar íþróttar þrífst aldrei eðlilega. Íshokkí er mikil bardagaíþrótt og í Björnstad var hún aðeins ætluð strákum Ef stelpur mættu á æfingu voru þær litnar hornauga og af sumum taldar annað hvort lesbíur eða hórur. Feðginin Maja og Pétur höfðu bæði áhuga á tónlist en í Björnstad var enginn menningaráhugi, enda sjaldan keppt í gítarleik.

Svo gerist það að liðið á aftur efnilegan strák. Nú er það Kevin sem kemur frá auðugustu fjölskyldu bæjarins og helsta styrktaraðila liðsins. Hann stefnir á atvinnumennsku, er mikill keppnismaður en miskunnarlaus eiginhagsmunaseggur, öfugt við Pétur sem vissulega vildi ekkert nema sigur en spilaði þó líka af ákafa fyrir þjálfarann og liðsheildina.

Það fór mikið fyrir Kevin enda efnilegum hokkíspilurum talin trú um að þeir væru ódauðlegir sigurvegarar. Harðneskjulegt, spillt og karllægt uppeldi kom því inn hjá strákunum að kennslukonan væri of ung, of falleg og allt of tilfinningarík og móðgunargjörn. Það væri ekki hægt að bera virðingu fyrir henni enda báru þeir ekki virðingu fyrir stelpum. Þeir báru heldur ekki virðingu fyrir þeim sem vildu læra og alls ekki fyrir fátækum eða samkynhneigðum.

Og nú þegar Björnstad á efnilegt lið er stefnan tekin á toppinn. Liðið vinnur stórsigur en fögnuðurinn yfir sigrinum er það stór að hann slátrar samfélaginu. Í eftirlitslausu unglingapartíi á sér stað alvarlegt ofbeldi og þegar árásarkæra er lögð fram hrynur íshokkífélagið og sjálfsmynd bæjarfélagsins verður að engu.

Fredrik Backman hefur skrifað nokkrar bækur. Hann öðlaðist miklar vinsældir fyrir bókina Maður sem heitir Ove. Bækur hans hafa að bera góða blöndu af kímni og ádeilu. Brestir verður trúlega seint talið stórkostlegt bókmenntaverk, en bókin er skemmtileg og létt aflestrar, með vel skapaðar persónur. Ég hreifst sérstaklega af bókinni vegna góðrar lýsingar hennar á brothættum smábæ. Sjálfsmynd er hugmynd okkar um hver við erum og lítil samfélög eiga sér sína sjálfsmynd og sú mynd getur verið auðbrotin.

Hér á Íslandi eigum við fullt af smábæjum sem vegna smæðar sinnar hafa takmarkaða getu til að koma til móts við óskir hvers íbúa. Þar skortir fjölbreytni í atvinnu- og tómstundamálum og íþrótta- og tónlistarkennsla er þar oft af skornum skammti. Máttarstólpar sveitarfélagsins streitast við að halda í við fólksflótta frá jaðarsvæðum og kjördæmaþingmenn reyna hvað þeir geta að afla fjármagns til brothættra byggða.

En hvað með íbúana, hvernig líður þeim? Heyrst hefur að konur kjósi frekar búsetu í stærri bæjarfélögum, enda hafa konur verið duglegar að sækja sér menntun og þær vilja síður búa á einhæfu láglaunasvæði. Erfiðir sölumöguleikar húsnæðis halda oft fólkinu heima í héraði og minnkandi atvinna í heimabyggðinni leiða til þess að ekkert má út af bera. Ef upp kemur alvarlegt brotamál sem íbúarnir skammast sín fyrir getur hættan verið sú að framtíð brotaþolans verði fórnað fyrir brothætta tilveru smábæjarins.

Leiðin út úr vítahring landkynningar: Kvennablaðið óskar upplýsinga frá Íslandsstofu

$
0
0

Kvennablaðið hefur sent Íslandsstofu fyrirspurn um boðsferðir blaðamanna og aðra aðkomu stofnunarinnar að umfjöllun erlendra fjölmiðla um Ísland og tengd viðfangsefni.

„Að efla ímynd og orðspor Íslands“

Íslandsstofa var stofnuð árið 2010 með lögum um Íslandsstofu (38/2010). Samkvæmt 1. grein laganna er markmið hennar að „efla ímynd og orðspor Íslands, styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs á erlendum mörkuðum og laða erlenda ferðamenn og fjárfestingu til landsins“. Í 2. grein laganna er meðal annars tilgreint að hún skuli „vera samstarfsvettvangur fyrirtækja, hagsmunasamtaka, stofnana og stjórnvalda um stefnu og aðgerðir til þess að efla ímynd og orðspor Íslands“. Þessu hlutverki virðist stofnunin hafa sinnt með miklum myndarbrag.

Samkvæmt upplýsingum í ársskýrslum stofnunarinnar og því sem fram kemur á vefsíðu hennar felast þær aðferðir sem hún beitir til landkynningar meðal annars í sér að hafa áhrif á umfjöllun um Ísland í fjölmiðlum. Misjafnt er hversu nákvæmlega þessi liður starfseminnar er tilgreindur í ársskýrslum stofnunarinnar, en í ársskýrslu ársins 2015 er starfið reifað svo:

„Íslandsstofa og almannatengslaskrifstofur á hennar vegum voru í samskiptum við meira en 2600 fjölmiðlamenn á árinu. Rúmlega 100 þeirra komu til landsins í skipulagðar fjölmiðlaferðir og yfir 520 blaðamenn fengu beina aðstoð við að skipuleggja Íslandsferðir sínar. Í heildina birtust í fjölmiðlum um 750 greinar tilkomnar vegna almannatengsla Íslandsstofu. Umfjöllunin náði til rúmlega 1,3 milljarðs manna og er virði hennar metin á yfir 84 milljónir evra.“

Íslandsstofuvítahringurinn Spam.

„New York Times, Al Jazeera, National Geographic …“

Annars staðar í skýrslunni eru talin upp dæmi um fjölmiðla sem stofnunin átti slíkt samstarf við: „New York Times, Al Jazeera, National Geographic og GEO … Daily Telegraph, National Geographic Traveller Magazine, Metro, Independent, The Times og Press Association … The Guardian, Elle, Financial Times, Mail on Sunday, Glamour, Daily Express og Fabulous.“ Þá er nefnd tilraun sem stofnunin gerði í Þýskalandi „sem fólst í að vinna meira með sjálfstætt starfandi fjölmiðlafólki sem starfar fyrir fleiri en einn fjölmiðil“. Er það sagt hafa gefist vel, og skilað, meðal annars „mjög stórum umfjöllunum fyrir Die Zeit sem samtals náði til rúmra 6 milljóna,“ „umfjöllun sem náði til rúmra 7 milljóna fyrir Süddeutsche Zeitung,“ „5 greinum sem náðu til samtals 4 milljóan lesenda“ í Geo.de. Síðast en ekki síst hafi einn blaðamaður skilað 22 umfjöllunum í „Die Welt, Berliner Zeitung, Sonntag Aktuell og Die Presse“ sem um 15 milljón manns hafi séð.

Ársskýrsla Íslandsstofu 2015

Ársskýrsla Íslandsstofu 2015

Er þá ótalið samstarf stofnunarinnar við almannatengslafyrirtækin BZ.COMM, TOC, Brighter Group, Brooklyn Brothers og BigFish á sama ári, auk þess sem stofnunin tekur fram að „umfjöllun tengd verkefnunum Ísland – allt árið og Iceland Naturally“ sé ekki talin með í þessari samantekt.

Óháð því hvort það mat stofnunarinnar sjálfrar að umfjöllunin nái til „1,3 milljarðs manna“ er nákvæmt er ljóst að samskipti við 2600 fjölmiðlamenn, 100 heimsóknir í „skipulagðar fjölmiðlaferðir“ og „bein aðstoð“ við heimsóknir 520 blaðamanna til landsins er nokkuð umfangsmikið starf og að áhrifa stofnunarinnar gætir víða, meðal annars í stórum fjölmiðlum sem njóta mikils trausts.

„Viðskiptaboð skulu … vera skýrt afmörkuð frá öðru efni“

Þar kemur babb í bátinn fyrir íslenska fjölmiðla. Samkvæmt fjölmiðlalögum (38/2011) er íslenskum fjölmiðlum skylt að greina skýrt á milli „viðskiptaboða“, til að mynda auglýsinga, og annarrar umfjöllunar, til að mynda frétta. „Viðskiptaboð skulu vera auðþekkjanleg sem slík og vera skýrt afmörkuð frá öðru efni með þeim hætti sem best hentar því formi miðlunar sem notað er“ segir í 37. grein laganna, og: „Dulin viðskiptaboð eru óheimil.“

Með öðrum orðum er staðan nú sú, vegna fyrirferðar markaðsstarfsins sem Íslandsstofa hefur innt svo ötullega af hendi, að íslenskum fjölmiðlum er varla stætt á að vitna í umfjöllun erlendra miðla um landið og viðfangsefni sem tengjast því, nema hætta á að brjóta um leið fjölmiðlalög, eða fara í öllu falli heldur subbulega kringum þau.

Um leið skapast hætta á að úr verði bergmálsklefi, þar sem upplýsingar sem íslensku samfélagi virðast berast frá öðrum löndum eru í reynd, að verulegu leyti, bergmál skilaboða sem upprunnin eru hjá, eða undir verulegum áhrifum frá, íslenskri ríkisstofnun. Ef Íslandsstofa hefur greint rétt frá umfangi þessarar starfsemi í ársskýrslum sínum mætti jafnvel tala um spam: stofnunin hafi með góðum árangri, um árabil, spamað erlenda fjölmiðla. Af því er í sjálfu sér ekki mikill skaði, enda eiga erlendir lesendur ekki mikið í húfi að fá hlutlægar upplýsingar um smáríkið Ísland. Hættan skapist þegar spamið skolast til baka og birtist heimamönnum líkt og um fjölmiðlun sé að ræða.

Íslandsstofuvítahringurinn Spam.

Til að forðast óþarft sull milli frétta og áróðurs

Í ljósi þessa hefur Kvennablaðið sent Íslandsstofu fyrirspurn, í krafti Upplýsingalaga, sem stofnunin heyrir undir, og beðið um sundurliðaða samantekt á aðkomu hennar að fjölmiðlaumfjöllun síðustu ár. Til að halda beiðninni innan gerlegra marka og tefja ekki um of fyrir afgreiðslunnar takmörkuðum við hana við síðustu þrjú ár, það er frá og með upphafi ársins 2015 til og með mars á þessu ári. Við fórum hins vegar fram á nokkuð greinargóðar upplýsingar, um titla, birtingardaga, höfunda efnis og fjölmiðla sem birt hefðu hverja þá umfjöllun sem stofnunin hefur haft aðkomu að, og í hverju aðkoma hennar var þá fólgin.

Auk þess báðum við um tillögu frá stofnuninni um hvernig hún gæti séð fyrir sér að haga viðvarandi miðlun slíkra upplýsinga til íslenskra fjölmiðla, til að við getum gætt okkar á að draga ekki lesendur okkar í þær gildrur landkynningarinnar sem eru ætlaðar erlendum gestum og fjárfestum, en væri bagalegt að taka í misgripum fyrir fréttir eða samfélagsumræðu.

Íslandsstofa hefur staðfest móttöku erindis Kvennablaðsins. Afrit var einnig sent Fjölmiðlanefnd, sem hefur á höndum eftirlit með aðgreiningu markaðsefnis og annars efnis í fjölmiðlum. Við gerum ráð fyrir að forsvarsmenn Íslandsstofu geri sér grein fyrir mikilvægi málsins og taki erindi okkar vel. Við munum láta lesendur vita um leið og stofnunin bregst við beiðninni.

Íslandsstofuvítahringurinn Spam.

Samstöðumótmæli með La ZAD við franska sendiráðið

$
0
0

Hópur sem nefnir sig „Vinir La ZAD og anarkistar á Íslandi“ efndi til mótmæla við franska sendiráðið á sunnudag, til að sýna samstöðu með La ZAD og íbúum þess. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem send var fjölmiðlum sama dag.

La ZAD er um 2.000 hektara svæði 20 km norður af Nantes, þar sem frönsk stjórnvöld áformuðu að leggja flugvöll fyrir um áratug síðan. Íbúar svæðisins mótmæltu þá og kölluðu eftir samstöðu gegn áformunum. Úr varð að á annað hundrað manns tóku sér búsetu á svæðinu og byggðu þar upp staðarsamfélag í nafni vistvænna lifnaðarhátta, samvinnu, andkapítalisma og jafnréttis.

Nú í upphafi ársins 2018 féllu stjórnvöld frá fyrri áformum, og verður ekki af flugvallargerð á svæðinu. Engu að síður krefjast stjórnvöld rýmingu svæðisins. Fyrir um viku síðan, þann 9. apríl, stormuðu þangað 2.500 lögreglumenn á brynvörðum bílum og jarðýtum og tóku að rústa allt sem fyrir varð. Lögreglan var þungvopnuð og beitti táragasi, kylfum, gúmmíkúlum og sprengjum. 150 manns særðust í aðgerðunum.

„Frönsk yfirvöld geta þó ekki sætt sig við að annarskonar samfélagsgerð lifi og dafni innan landamæra þjóðríkisins,“ segir í tilkynningu íslenska hópsins.

„Yfirvöld upplifa fátt sem meiri ógn en samfélagsgerð sem lætur sig ekki óréttlát lög þeirra varða og byggir að miklu leyti á anarkískri hugmyndafræði þar sem frelsi einstaklingsins, samvinna og afbygging kúgandi valdakerfa er hið eilífa markmið.

Í dag sunnudaginn 15. Apríl er búið að blása til mótmæla gegn yfirgangi lögreglunnar og gerð verður tilraun til að endurheimta svæðið. Íbúar eru enn fullir eldmóðs og láta ekki brjóta sig á bak aftur. Samstaða er vopn okkar og baráttueldur brennur einnig innra með okkur sem stöndum fyrir framan franska sendiráðið í dag. Við krefjumst þess að frönsk yfirvöld láti La ZAD vera.“

Undir tilkynninguna er ritað:

Lifi baráttan!

Vinir La Zad og anarkistar á Íslandi 15. apríl 2018, Reykjavík


Þingflokkur Pírata fordæmir árás Frakklands og félaga á Sýrland

$
0
0

Þingflokkur Pírata fordæmir sameiginlega árás Bandaríkjanna, Frakklands og Bretlands á Sýrland, í fréttatilkynningu sem barst fjölmiðlum á sunnudagskvöld. Segir þar að árásin sé sérstaklega gagnrýniverð „í ljósi þess að á sama tíma var verið að undirbúa rannsókn á efnavopnaárásum Sýrlandshers af hálfu teymis frá Alþjóðleg efnavopnastofnuninni (OPCW)“.

Þá segir í tilkynningunni að óásættanlegt sé að ríkisstjórn Íslands lýsi yfir stuðningi sínum við árásirnar, enda séu friðsamlegar og löglegar lausnir óreyndar: „afstaða meints friðelskandi ríkis ætti ávallt að vera að fyrst skuli reyna þær til þrautar áður en gripið er til hernaðaraðgerða“.

Í sömu tilkynningu fordæmir þingflokkurinn Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fyrir að bregðast ítrekað „skyldu sinni gagnvart Sýrlandi sem verndari friðar og öryggis á heimsvísu“.

Yfirlýsing frá Þingflokki Pírata vegna stríðsins í Sýrlandi – fréttatilkynningin öll
Þingflokkur Pírata fordæmir allan ólögmætan árásarhernað í Sýrlandi. Bandaríkin, Frakkland og Bretland hafa nú gert sameiginlega árás á hernaðarleg skotmörk í Sýrlandi. Árásin var sögð svar við enn einni efnavopnaárás sýrlenskra stjórnvalda á eigin borgara. Stríðsátök í Sýrlandi, einu elsta menningarsamfélagi heims, hafa staðið yfir í sjö ár og einn mánuð. Stríðið hefur kostað um fimm hundruð þúsund manneskjur lífið og hrakið milljónir á flótta. Á þessum tíma hafa Sýrlendingar orðið fyrir ólögmætum árásum af hálfu ríkisstjórna Sýrlands, Tyrklands, Bandaríkjanna, Rússlands, Bretlands og Frakklands. Engin þeirra ber hag sýrlensku þjóðarinnar fyrir brjósti með aðgerðum sínum. Árásir þeirra eru í trássi við grunngildi og lykilákvæði stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Eins ber að fordæma að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur ítrekað brugðist skyldu sinni gagnvart Sýrlandi sem verndari friðar og öryggis á heimsvísu. Ráðið er ófært um að beita raunverulegum og lögmætum úrræðum í deilunni vegna neitunarvaldsins, sem er ólíðandi ástand með öllu. Það er skammarlegt að heimsfriður skuli enn velta á því, hvort leiðtogar einstakra stórvelda séu tilbúnir að leggja eigin metnað og kappsemi gagnvart öðrum stórveldum til hliðar.

Að mati þingflokks Pírata er óásættanlegt að ríkisstjórn Íslands lýsi yfir stuðningi sínum við árásir sem ógna öryggi almennra borgara á svæðinu og hamla rannsókn alþjóðlega viðurkenndra eftirlitsaðila á efnavopnaárásinni. Friðsamlegar og löglegar lausnir eru óreyndar og afstaða meints friðelskandi ríkis ætti ávallt að vera að fyrst skuli reyna þær til þrautar áður en gripið er til hernaðaraðgerða.

Glæpir gegn mannkyni eru orðnir svo margir í stríðsátökunum í Sýrlandi að engin leið er að hafa á þeim tölu. Ótal stríðsglæpir hafa verið framdir og hafa fjöldamorð gagnvart hluta íbúa svæðisins skapað neyðarástand um heim allan þar sem áður óþekktur fjöldi fólks er á flótta. Þjóðernishreinsanir Tyrkja gagnvart Kúrdum eru líka í fullum gangi í Sýrlandi, með fullri vitund og þöglu samþykki NATO ríkjanna. Vesturlönd, Ísland þar með talið, hafa hlaupist undan ábyrgð sinni gagnvart Sýrlendingum, Kúrdum og öðrum þolendum stríðsins.

Árásir Bandaríkjanna, Frakklands og Bretlands á Sýrland eru sérstaklega gagnrýniverðar í ljósi þess að á sama tíma var verið að undirbúa rannsókn á efnavopnaárásum Sýrlandshers af hálfu teymis frá Alþjóðlegu efnavopnastofnuninni (OPCW). Þrátt fyrir að efnavopnastofnunin hefði fullt umboð til þeirrar rannsóknar, m.a. á grundvelli aðildar þessara þriggja bandalagsþjóða okkar í NATO að OPCW, biðu þær ekki rannsóknar hennar áður en þær réðust til atlögu og grófu þar með enn frekar undan trausti gagnvart alþjóðastofnunum og friðsamlegum og lögmætum lausnum. Í því ljósi vekur það einnig áhyggjur að svo virðist sem innanlandspólitík í löndum ríkjaleiðtoganna þriggja gæti hafa ráðið för við nýafstaðnar árásir.

Íslensk stjórnvöld geta barist fyrir því að alþjóða stríðsglæpadómstóllinn í Haag fái lögsögu til þess að rannsaka mögulega stríðsglæpi allra þátttakenda. Við getum tekið stórt skref í átt að alþjóðlegu réttlæti með því að taka upp alþjóðlega lögsögu yfir stríðsglæpum á Íslandi. Sem aðilum að Rómarsáttmálanum, Genfarsáttmálunum og alþjóðasamningnum gegn þjóðarmorði ber okkur beinlínis skylda til þess að berjast fyrir réttarhöldum yfir stríðsglæpamönnum. Við getum einnig stutt fjárhagslega og pólitískt við bakið á alþjóðlegu rannsóknarnefndinni um stríðsglæpi í Sýrlandi og hafið vinnu við að setja á fót fjölþjóðlegan dómstól í samvinnu við aðrar þjóðir. Þá er rétt að minna á, að við getum hæglega tekið vel á móti miklu fleira fólki á flótta.

Það er réttlátt og eðlilegt að við beitum okkur fyrir friðsamlegum og lögmætum lausnum sem þessum í stað þess að veita ólögmætum árásum blessun okkar. Þær mannlegu hörmungar sem eru orðnar daglegt brauð í Sýrlandi eru skömm fyrir allt mannkynið. Heimsbyggðin þarf að sameinast í fordæmingu á þeim hörmungum og á því pólítíska umhverfi sem leyfir þeim að viðgangast.

X18 | Frambjóðendur Sósíalistaflokksins: Sanna Magdalena Mörtudóttir

$
0
0

Sanna Magdalena Mörtudóttir, frambjóðandi Sósíalistaflokksins í Reykjavík:

„Ég ólst upp hjá einstæðri móður sem vann í tveimur störfum, sem leiðbeinandi á leikskóla og eftir fullan vinnudag skúraði hún leikskólann. Sama hvað, þá dugðu launin aldrei út mánuðinn, ekki einu sinni fyrir helstu nauðsynjum. Á tímabili þegar hún skúraði ekki leikskólann, vann hún við þrif í Kaupþingi, bláfátæk svöng kona að þrífa fyrir ríku viðskiptamennina. Ég held að margir geri sér raunverulega ekki grein fyrir því að hér á landi sé fólk sem á ekki eina einustu krónu og getur ekki keypt sér mat. Leit að klinki er eftirminnileg úr minni æsku. Þá var leitað í öllum vösum og töskum og sófapullum snúið við í von um að finna klink. Sófinn líkt og önnur húsgögn fengum við gefins, því við höfðum ekki efni á slíku. Einu sinni áttum við mæðgur bara eitthvað tuttuguogníu krónur og það eina sem við höfðum efni á, var rúlla af póló myntum sem við skiptum á milli okkar. Þarna er búið að tæma alla reikninga, hjóla með allar flöskur og fara í Mæðrastyrksnefnd. Við lifðum dag frá degi en stundum reddaðist þetta bara alls ekki og við borðuðum ekkert í langan tíma.

Félagsleg íbúð eftir þriggja ára bið

Á tímabili áttum við ekki ísskáp, síma né þvottavél, við áttum þó gamalt sjónvarp, það kom mynd en reyndar ekkert hljóð. Þegar mamma fyllti út eyðublöð á skrifstofum, skildi hún síma, gsm og netfang eftir autt, því við höfðum ekki efni á þessum tækjum. Svo þegar veikindi áttu sér stað þurfti að labba í tíkallasíma til að tilkynna það en þá þarftu náttúrulega að eiga klink. Í veikindum hefur maður ekki heilsuna til að rölta út í síma en svona er þetta, það er rosalega mikið vesen sem fylgir því að vera fátækur. Eftir tæpa þriggja ára bið fengum við félagslega íbúð í efra Breiðholti, þá var ég tíu ára og við fluttum þá úr Austurbænum. Rúmu ári áður hafði birst viðtal við mömmu í Fréttablaðinu um okkur „mæðgur á götunni“ ásamt stórri mynd af okkur á blaðsíðu númer tvö. Þegar ég mætti í skólann daginn eftir, benti bekkjarbróðir minn í átt til mín í frímínútum og kallaði upphátt „hún býr á götunni“. Þá hugsaði ég með mér að tæknilega séð byggjum við ekki á götunni, við myndum fá að vera tímabundið hjá ömmu. Við yrðum samt húsnæðislausar ef við fyndum ekki íbúð á viðráðanlegu verði. Þarna var maður með þessa meðvitund, ný orðin níu ára og vissi að leigulistinn væri ekki að bjóða upp á neitt.

Mannúðlegra kerfi … þar sem ekki er komið fram við fólk eins og einnota vél sem má henda á haugana

Í dag er móðir mín á örorkubótum því fátæktin bugaði hana andlega, hversu ógeðslegt er það að kerfisbundið óréttlæti geri fólki þetta. Hef horft upp á hana í kvíðakasti þar sem hún heldur að hún sé að deyja, þetta er það sem streitan í kringum fátækt gerir fólki. Einu sinni kom ég að móður minni rænulítilli liggjandi á eldhúsgólfinu. Sama hvað ég gerði þá rumskaði hún ekki, ég endaði með að hringja á sjúkrabíl. Þegar hún rankar við sér á sjúkrahúsinu tjáir hún mér að hafa ekki borðað svo lengi, þess vegna hafi verið komið svona fyrir henni. Þar sem hún vildi ekki valda mér óþarfa áhyggjum, hafi hún ekki sagt mér frá því hversu slæmt ástandið væri.

Í dag er ég mannfræðingur að mennt og er stórskuldug eftir BA og MA nám. Erfitt var að sinna vinnu samhliða námi og tíðum mígrenisköstum. Námslánin eru ekki raunhæf, sem rekur mann í gin annarra stofnanna, það er ekkert elsku mamma og pabbi í boði. Himinhá yfirdráttarheimild, Framtíðin lánasjóður í eigu GAMMA, Netgíró til að greiða fyrir mat og smálán er eitthvað sem maður þekkir vel. Ég hef tekið lán til að borga lán, það er nefnilega dýrt að vera blankur. Þetta gerir maður af þörf þrátt fyrir meðvitund um himinháa vexti. Mér finnst algjörlega út í hött að margir sem sitja við stjórnvölin hafa oft enga innsýn í reynslu almennings og lifa margir í algjörri forréttindabubblu. Fjármagnseigendur ættu ekki að hafa það vald að hagnast á viðkvæmri stöðu einstaklinga, gróði þeirra ætti ekki að byggja á örvæntingarneyð einstaklinga. Mannúðlegra kerfi er eitthvað sem ég vil sjá, þar sem ekki er komið fram við fólk eins og einnota vél sem má henda á haugana þegar hún hættir að virka.“

Sanna Magdalena Mörtudóttir er í framboði fyrir Sósíalistaflokkinn í Reykjavík.


Sósíalistaflokkurinn býður fram til borgarstjórnar í Reykjavík, í kosningunum 26. maí nk. Kynning framboðsins og frambjóðenda er hafin undir yfirskriftinni Hin Reykjavík og mun einnig birtast í Kvennablaðinu.

X18 | Frambjóðendur Sósíalistaflokksins: Ásta Dís

$
0
0

Ásta Dís, frambjóðandi Sósíalistaflokksins í Reykjavík:

„Ég er 52 ára, Vestfirðingur í húð og hár og bý að því að vera sveitastelpa ættuð úr Djúpinu. Í sveitinni lærði ég að nýta, gera við og endurnýta alla hluti enda skiptir lagni og verkvit öllu máli í lífsbaráttunni þar og ekki í boði að skreppa í búð eftir einhverju smáræði.

Móðir mín er hreyfihömluð kona sem ég lærði margt af en hún lét fötlun sína aldrei koma í veg fyrir að hún gerði það sem hún ætlaði sér, pabbi minn er bifvélavirki en vann lengi vel sem leigubílstjóri. Eiginmaður minn er Eggert Bjarki Eggertsson sölumaður hjólbarða og alhliða dekkjasérfræðingur. Við erum búsett í Bakkahverfi í Breiðholti og við eigum samtals 4 uppkomin börn. Við vorum hér áður fyrr á flakki á milli leiguíbúða, sem er bæði óöruggt og lýjandi, en keyptum svo íbúðina okkar 1999 og erum því búin að vera á sama stað í Breiðholtinu í 19 ár.

Eitthvað að samfélagi sem krefst þess að allir passi í fyrir fram mótuð box

Strax á unga aldri var ég sannfærð um að það væri eitthvað að samfélagi sem krefðist þess að allir pössuðu í fyrir fram mótuð box. Konur ættu og mættu bara að gera vissa hluti, en karlmönnum væri ætlað eitthvað allt annað. Og þar sem ég vissi ekki hvað ég vildi prófaði ég því ýmislegt sem ekki þótti sérlega kvenlegt s.s. mótauppslátt, handlang hjá múrarameistara, tók svo meirapróf og keyrði steypubíl svo dæmi séu tekin, en prófaði líka kvenlegri störfin eins og að vinna á hárgreiðslustofu, í fiski og á saumastofu. Ég flutti um tíma til Svíþjóðar, tók sjúkraliðann þar og vann á sjúkrahúsi í Stokkhólmi. Eftir að ég flutti heim aftur prófaði ég ýmis afgreiðslustörf áður en ég skellti mér í bókhalds og skrifstofunám þar sem ég dúxaði og hef ég starfað í þeim geiranum síðan.

Það er til líf eftir erfiðleika

Auk þess að hafa fjölbreytta starfsreynslu í farteskinu, bý ég einnig yfir reynslu af fátækt, heilsubresti og félagslegri einangrun í kjölfarið og þekki því á eigin skinni hversu mannskemmandi ferli það er að ganga í gegnum. Mestumvert er þó að ég þekki einnig flóknu skrefin út úr því lífi og veit að það er til líf eftir erfiðleika en í viðleitni minni við að miðla þeirri reynslu minni fór ég alla leið úr fátækt, þunglyndi og félagslegri vanvirkni beint í valdeflingu annarra og fulla félagslega virkni. Ásamt því að hafa stjórnað bingóunum árum saman var ég formaður Sjálfsbjargar á höfuðborgarsvæðinu í 6 ár, sat í stjórn Sjálfsbjargarheimilisins, einnig í stjórn MedicAlert á Íslandi og var ein af stofnendum og stjórnarmaður Skjaldar, félags um skjaldkirtilssjúkdóma.

Síðustu 7 árin hef ég setið í stjórn Evrópsku samtakanna, EAPN (European Anti Poverty Network) sem berjast gegn fátækt á Evrópugrundvelli,og er önnur af tveimur samhæfingarstjórum Pepp Ísland, samtökum fólks í fátækt en þangað eru allir velkomnir sem búa við eða hafa búið við fátækt og félagslega einangrun því það er mikilvægt að leiða saman fólkið í aðstæðunum sem situr uppi með skömmina og fólkið sem er komið út úr aðstæðunum og getur talað um það og miðlað reynslu sinni.“

Ásta Dís er í framboði fyrir Sósíalistaflokkinn í Reykjavíkur.


Sósíalistaflokkurinn býður fram til borgarstjórnar í Reykjavík, í kosningunum 26. maí nk. Kynning framboðsins og frambjóðenda er hafin undir yfirskriftinni Hin Reykjavík og mun einnig birtast í Kvennablaðinu.

Hvar er þessi yfirlýsing Íslands vegna árásanna á Sýrland?

$
0
0

Í Silfrinu nú um helgina þar sem ræddar voru árásirnar á Sýrland og viðbrögð Natóríkja við þeim, hélt Kristrún Heimisdóttir því fram að Ísland hefði sent frá sér yfirlýsingu þar sem lýst væri skilningi á þessum aðgerðum en ekki sérstökum stuðningi. Kristrún sagðist hafa tekið eftir því hvernig yfirlýsing Íslands var orðuð, lagði áherslu á að orðalag hennar skipti máli og að slíkar yfirlýsingar væru ekki léttvægar því þær væru lesnar upp í sendiráðum og utanríkisráðuneytum um allan heim (frá og með 22. mínútu).

Enga slíka yfirlýsingu er að finna á vef Utanríkisráðuneytisins og ekki veit ég til þess að vitnað hafi verið beint í hana i fjölmiðlum. Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, gerði enga athugasemd við umfjöllun Kristrúnar um yfirlýsinguna og því varla um misskilning að ræða. Yfirlýsingin hlýtur því að vera til og hefur væntanlega verið send út.

Ég er sammála Kristrúnu um að orðalag yfirlýsingar af þessu tagi getur skipt máli og þessvegna langar mig að lesa hana. Hún hlýtur að hafa birst einhversstaðar fyrst Kristrún tók eftir því hvernig hún er orðuð. En hvar? Ég er búin að senda fyrirspurn um það bæði á Borgar Þór og á Lísu Kristjánsdóttur aðstoðarmann forsætisráðherra. Vonandi svara þau fljótlega. Mig langar líka að vita hver samdi þessa yfirlýsingu. Kristrún setur yfirlýsinguna og orðalag hennar sérstaklega í samband við Katrínu Jakobsdóttur og segist hreint út álíta að orðalag hennar sé annað en það hefði verið ef Framsókn og Sjálfstæðisflokkur væru ein í ríkisstjórn (mín 28:26-28:57). Var Utanríkisráðherra ósáttur við yfirlýsinguna? Er það þessvegna sem hún er ekki birt á vef Utanríkisráðuneytisins?

Ég er furðu lostin yfir því að Ríkisútvarpið skuli enn ekki hafa birt þessa yfirlýsingu.

 

„Er lækning sjúkdóma sjálfbært viðskiptalíkan?“ spyr Goldman Sachs í skýrslu

$
0
0

Vandinn við það að finna áhrifaríka lækningu á sjúkdómi, frá viðskiptalegu sjónarmiði, er að virki hún vel fækkar viðskiptavinunum eftir því sem þeir læknast, og arðsemin af meðferðinni hnígur. Þessi innsýn birtist í nýrri skýrslu bandaríska fjárfestingabankans Goldman Sachs sem ber heitið „The Genome Revolution“ eða Genabyltingin.

Skýrslan kom út þann 10. apríl en hefur ekki verið birt opinberlega. Fréttastofa CNBC greindi fyrst frá innihaldi skýrslunnar sem hefur síðan verið staðfest af fulltrúum Goldman Sachs.

Gallinn við að lækna lifrarbólgu C

Undir fyrirsögninni „Er lækning sjúkdóma sjálfbært viðskiptalíkan?“ tekur Salveen Richter, yfirmaður greiningardeildar fjárfestingarbankans og einn af höfundum skýrslunnar, dæmi af meðferð lyfjafyrirtækisins Gilead Sciences við lifrarbólgu C. Lyfjameðferð fyrirtækisins markaði tímamót en hún skilar fullum bata í yfir 90% tilfella. Sala lyfsins skilaði fyrirtækinu 12,5 milljörðum dala árið 2015 en hefur dregist stöðugt saman síðan þá. Gert er ráð fyrir að sala lyfsins í Bandaríkjunum nemi aðeins 4 milljörðum dala á þessu ári.

„Gilead Sciences er dæmi um þetta, þar sem frammistaða lifrarbólgu C-einkaleyfisins þeirra hefur hægt og bítandi mettað fyrirliggjandi sarp læknanlegra sjúklinga,“ skrifaði Richter. „Í tilfelli smitsjúkdóma á við lifrarbólgu C felur það að lækna sjúklinga sem þegar eru til staðar einnig í sér fækkun smitbera sem gætu fært nýjum sjúklingum vírusinn, og því hnígur fjöldi tilfella … Þar sem fjöldi tilfella er stöðugur (t.d. krabbamein) felur möguleikinn á lækningu síður í sér áhættu fyrir sjálfbærni einkaleyfisins.“

Í skýrslunni segir að möguleikar á að veita „lækningu í einu skoti“ séu á meðal eftirsóknarverðustu hliða lyfjaþróunar og meðferðarúrræða á grundvelli erfðavísinda. Slíkar meðferðir krefjist aftur á móti mjög breyttrar sýnar fjárfesta á reglubundna veltu og tekjustreymi: „Tækifærin hafa verulegt gildi fyrir sjúklinga og samfélag en geta falið í sér áskorun fyrir þá sem fást við þróun lækninga á grundvelli erfðavísinda í leit að stöðugu tekjustreymi.“

Mögulegar lausnir Goldman Sachs: allt nema sósíalismi

Í skýrslunni er stungið upp á þremur mögulegum lausnum fyrir fyrirtæki á líftæknisviði. Fyrsta lausn væri að mæta „stórum mörkuðum: dreyrasýki er heimsmarkaður upp á 9–10 milljarða dala og vex um 6–7% árlega“. Önnur lausn væri að fást við algengar raskanir, og nefna höfundar til dæmis mænuvandamál sem valdið geta vandræðum við gang, át og öndun. Þriðja lausnin sem stungið er upp á í skýrslu fjárfestingarbankans er „viðvarandi nýsköpun og útþensla úrvals“. Til dæmis séu til „hundruð arfgengra augnsjúkdóma (arfbundinnar blindu).“ Þá segir að „hraði nýsköpunar muni einnig leika þátt þar sem lausnir framtíðarinnar geta dregið úr velturýrnun fyrri eigna.“

Í umfjöllun á Boing Boing er bent á að meðal „lausnanna“ þriggja sem bent er á skýrslunni er ekki að finna þá lausn að félagsvæða heilbrigðiskerfi og jafna aðgang að úrræðum lyfjarisa, til dæmis í gegnum skatta.

Financial Times segir skýrsluna sýna þörf á félagsvæddu heilbrigðiskerfi

Í Financial Times skrifar aftur á móti Alexandra Scaggs að textabrotin úr skýrslu Goldman Sachs varpi ljósi á þá hagsmunaárekstra sem komi til sögunnar þegar lönd eftirláta hagnaðardrifnum fyrirtækjum umsjón heilbrigðismála. Undir fyrirsögninni „Kapítalísk stofnun færir sterk rök fyrir sósíalískri heilbrigðisþjónustu“ skrifar Scaggs:

„Verið getur að í sjónmáli séu alls konar spennandi kostir til að lækna arfgenga kvilla, en að það meiki ekkert sens fyrir fyrirtæki að lækna þá í raun og veru þar sem það myndi þýða að þau búi ekki lengur að „besta viðskiptalíkani heims“.“

Hinn freistandi valkostur, „besta viðskiptalíkan heims“, skrifar Scaggs, er rakvéla-og-rakvélablaða-líkanið: að fjárfesta í eitt skipti fyrir öll í þróun vöru eða þjónustu og láta fólk svo greiða endurtekið til að nálgast hana. „Eða framleiða frábæra rakvél, selja hana ódýrt, og hækka svo verðið á rakvélablöðum“.

Línan sýnir veltu síðustu missera og spá fram í tímann fyrir HIV-lyf sem taka þarf reglubundið til að halda einkennum í skefjum. Súlurnar sýna veltu og veltuspá fyrir lifrarbólgumeðferð sama fyrirtækis, sem vinnur bug á sjúkdómnum í eitt skipti fyrir öll. Graf: Financial Times; gögn: Goldman Sachs.

Ábatasamara að halda einkennum í skefjum

Scaggs ber hnígandi veltu af lifrarbólgulyfinu saman við viðvarandi veltu sama fyrirtækis af HIV-lyfi þess, sem felur ekki í sér lækningu en heldur afleiðingum smits í skefjum með endurtekinni inntöku. Veltan af síðarnefnda lyfinu hefur vaxið ár frá ári og er gert ráð fyrir að hún haldist nokkuð stöðug til næstu ára. „Kaldhæðnin er sú,“ segir hún, „að yfirleitt dregst sala saman þegar fyrirtæki stendur sig illa. Í þessu tilfelli dregst sala saman þegar fyrirtækið stendur sig svo vel að þörfin fyrir það minnkar.“

Starfsemi fjárfestingarbankans Goldman Sachs teygir sig meðal annars til Íslands, en samsteypan er á meðal eigenda Arion banka.

Viewing all 8283 articles
Browse latest View live