Það er mjög algengt að fólk prjóni rendur í stroff á t.d vettlingum eða sokkum. Ef að þú hefur einhvern tíma gert þetta þá hefur þú efalaust tekið eftir mjög óheppilegu atriði sem á sér stað í brugðnu lengjunum ef ekkert er gert til að koma í veg fyrir það.
Brugðna lykkjan í öðrum litnum sést blandast saman við hin litinn og skapar þannig leiðinda sikk sakk rönd. Persónulega finnst mér alltaf frekar leiðinlegt að sjá þannig útfærslu og fór hrikalega í taugarnar á mér meðan ég vissi ekki hvernig ég gat komið sjálf í veg fyrir að þetta gerðist. Góðu fréttirnar eru þær að það er til afar einföld lausn.
Þegar þú ætlar að skipta um lit í stroffi þá þarftu aðeins að prjóna allar lykkjur slétt í fyrstu umferð við litaskipti ef prjónað á réttunni en brugðið ef prjónað á röngunni. Eftir fyrstu umferð prjónar þú síðan áfram stroff eins og áður. Útkoman er afar snyrtileg skil á milli lita. Og hafðu engar áhyggjur af því að sléttu lykkjurnar sjáist . . . þær falla algjörlega inn í.
Þú getur notað þessa tækni hvort sem þú ert að prjóna fram og til baka eða í hring. Það er einungis tvennt sem þú þarft að hafa í huga.
Það fyrsta er að það sem þú ert að prjóna verður að hafa röngu, því slétta umferðin sem prjónuð er verður sem garður á röngunni. Þess vegna skaltu alls ekki nota þessa aðferð ef þú ert að prjóna eitthvað sem verður að vera fallegt báðum megin. Haltu þig þá við stroff prjón út í gegn – það verður nákvæmlega eins báðum megin.
Hitt atriðið er að þessi aðferð virkar best ef prjónaðar eru fleiri en 2 umferðir í hvorum lit. Ef hver rönd er aðeins 2 umferðir þá breytir það algjörlega útlit stroffsins að prjóna það með þessari aðferð og eyðileggur líka teygjanleikann sem hlýst af því að prjóna stroff. Og það er oftar en ekki nákvæmlega það sem við sækjumst eftir þegar við prjónum stroff.
Ef uppskriftin þín hentar fyrir þessa aðferð þá legg ég til að þú prufir. Ég held þú munir finna út eins og ég gerði að þessi einfalda tækni breytir ótrúlega miklu.
Mundu svo að kvitta. Þú ert enga stund að því og það kostar þig ekkert.
Ljúfar kveðjur á línuna.