Ég rekst oft á lista yfir átta eða tíu bestu hitt og þetta í tímaritum. Hér kemur minn „topp-listi“ – að sjálfsögðu upprunninn úr vinnunni minni. Ég er á þeirri skoðun að allan mat skuli borða í hófi og að sjálfsögðu er í boði fyrir börn að smakka allt og kynnast nýjum bragðtegundum. Þannig sjá þau og skilja smám saman það sem þau eru að borða. Börn eiga auðvitað einnig að borða það sem þau hafa ekki áhuga á, allavega smakka. Hver veit – kannski fá þau áhuga á því.
Nr. 8 Gulrótarsúpa
Haha, ég er að segja satt. Gulrótarsúpa. Ofboðslega vinsæl. Með sætum kartöflum, appelsínukeim og öðrum töfrabrögðum sem leynast þarna ofan í pottinum. Súpan er maukuð, en ég hef gaman af því að skilja nokkra stóra bita eftir svona „óvart“ svo það verði eitthvað til að bíta í. Súpur eru spennandi og ögrandi verkefni fyrir börn, því maukaðri og sléttari súpa því einfaldara verður að fela allt grænmeti sem í henni er. En svo er auðvitað mjög gaman að láta bitana sjást (eins og í kjötsúpu) og verða þeir oft gott tilefni til umræðu um hvað þetta sé og hvernig smakkast. Ef bragðið og bitarnir henta ekki er líka svo einfalt fyrir litla fingur að tína þá í burtu.
Það er pínu erfitt að velja einhverja eftirlætissúpu hjá börnunum, mér finnst þau borða allar súpur af bestu lyst en gulrótarsúpan er á toppnum.
Nr. 7 Grænmetisbuff
Girnileg buff að utan, en inní leynist hollusta sem enginn sér eða finnur því allt er hnoðað og maukað saman. Algjör snilld! Öll hráefnin eru sett í skál og hrærð saman. Buff eru mótuð, velt upp úr t.d. haframjöli, kókós eða því sem hugurinn girnist. Steikt á pönnu eða hituð í ofni. Mitt uppáhaldsbuff er gert úr kartöflum, hýðisgrjónum, spergilkáli, kjúklingabaunum, hvítlauk, karrý, svörtum pipar og salti. Svo einfalt og gott!!
Nr. 6 Kjúklingur í bleikri
Er kjúklingur ekki alltaf vinsæll matur? Held það. Breytir engu hvernig hann er matreiddur – hann klikkar ekki. Og ég ætla ekki að bulla neitt með þetta, bara gefa ykkur smá leiðbeiningar um einn flottan í bleikri sósu. Þessi er vinsæll með stóru V. Sjóðið hýðisgrjón og setjið þau í ofnfast form. Blandið matreiðslurjóma saman við flösku af chili-tómatsósu og kryddið með oregano, salti, pipar og nokkrum chili-flögum (þær lyfta alltaf bragðinu upp á ögn hærra plan þessar fallegu flögur) og svo er steiktum kjúklingabitum hrært saman við sósuna. Þessu er hellt yfir grjónin, rifnum osti stráð yfir og bakað í ofninum þar til það er gegnumheitt. Verði ykkur að góðu!
Nr. 5 Pitsa og hamborgari
Það er óyggjandi staðreynd að börn elska pitsu og hamborgara. Sættum okkur bara við það! Býð ég upp á þessa rétti í skólanum? Að sjáfsögðu geri ég það. Baka alla botnana því þeir eru betri á bragðið og fara betur með fjármálin. Svo kafa ég inn í ísskápinn og finn allt álegg sem ég þarf, sumt eftir bókinni en sumt alls, alls ekki, sem er lang-skemmtilegast.
Hamborgararnir eru afar hefðbundnir – með brauði, salati, kaldri sósu úr ab-mjólk og svo ristaðir kartöflubátar til hliðar.
Nr. 4 Kjötbollur
Kjötbollur eiga að vera litlar og alveg hringlaga og mátulega stórar þannig að þær komist fyrir á milli þumals og vísifingurs, svo hægt sé að skjóta þeim í einum munnbita í munninn. Annars eru þetta ekki kjötbollur. Þær eiga að veltast um pönnuna á meðan þær brúnast fallega og gefa frá sér snarkandi hljóð. Mér finnst óþarfi að setja lauk og egg í nautahakkið – set frekar haframjöl sem ég hef látið liggja í bleyti i mjólk eða rjóma smá stund, salta og pipra blönduna, læt skeið af dijon-sinnepi út í, hræri svo öllu vel saman og byrja að rúlla. Auðvitað eru kartöflur, brún rjómasósa og sulta með þessum elskum.
Nr. 3 Soðinn fiskur
Soðinn fiskur með kartöflum, tómatsósu og bræddu smjöri. Svo mörg voru þau orð – þarf ég að segja meira?
Nr. 2 Spagettí bolognese
Spagettí og hakk? Þurfum við að ræða það eitthvað frekar? Eru ekki allir með hakksósuna „sína“ á hreinu? Þegar um unga neytendur er að ræða finnst mér hugtakið „less-is-more“ eiga best við varðandi kryddnotkun. Gott „dass“ af tómatsósu út í, salt og pipar, oregano, laukur … og voilà!
Á grænmetisdögum hef ég sett bygg út í sama tómatgrunn og látið það marínerast í sólarhring áður en ég hita það og ber fram með pasta. Hljómar undarlega? Ég lofa, þetta er mjööög gott!
Nr. 1 Grjónagrautur
Grjónagrautur rennur ljúft ofan í langflesta. Með ýmsum brögðum má gera hann hollari um leið og hann er alveg eins og hann á að vera. Silkimjúkur og rjómakenndur.
Notið hýðisgrjón og bygg til dæmis á móti hvítum grjónum (og svo er auðvitað upplagt að draga úr hvítu grjónunum þegar á líður). Sjóðið hann hægt og rólega. Ég læt örlítið af vanilludropum út í og svo er leyndarmálið mitt flórsykur til að bæta við örlítilli sætu (og jú, reyndar líka smá smjörklípu). Hann er borinn fram með gómsætri lifrarpyslu, rúsínum, kanil og auðvitað mjólkurdreitli fyrir þá sem vilja. Kúamjólkinni er hægt að skipta út fyrir sojamjólk ef mjólkuróþol er á bænum.
Já, kom þetta ykkur nokkuð á óvart? Þessar máltíðir gætu hæglega verið í matinn á hverjum einasta degi, en þar sem ég vil börnum það allra besta get ég ekki stillt mig um að láta þau smakka á sem flestum af þeim dásemdum sem lífið hefur upp á bjóða. Þau sitja þess vegna uppi með mig.
Ljósmynd eftir Matt’s Homes