Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Um sýninguna Gullna hliðið

$
0
0

Ó, mikið held ég að hann Davíð minn (Davíð Stefánsson frá Fagraskógi) hefði orðið glaður ef hann hefði getað farið með mér í leikhúsið. Fór nefnilega að sjá eitt af hans fjórum leikverkum, Gullna hliðið, í Borgarleikhúsinu. Þið verðið að afsaka þótt ég tali um hann Davíð minn eins og ég þekki hann. En hafandi verið menntaskólastúlka hér í denn, sem sökkti sér í ljóðin hans, varð ástfangin af honum og samdi til hans heit ástarljóð, get ég bara ekki annað. Hann er hluti af sál minni.

Sýningin, sem sett var upp á síðasta leikári hjá Leikfélagi Akureyrar, er nú komin suður um heiðar. Margverðlaunuð og vel heppnuð. Og já, hún stóð alveg undir væntingum og meira en það. Magnað að þetta verk var fyrst frumsýnt jólin 1941 og hefur verið margsýnt við miklar vinsældir á Íslandi síðan. Ég man eftir því í sjónvarpsuppsetningu fyrir ansi mörgum árum, sem ég var látin horfa á en skildi lítið í enda barnung.

Ég var því svona temmilega spennt yfir verkinu sjálfu því hann er ekkert léttmeti þessi texti sem verkið samanstendur af, þótt hann sé hlaðinn merkingu og boðskap. Og sá boðskapur stenst vel tímans tönn. Sagan af konunni sem ætlaði sér að koma sínum manni inn fyrir hlið himnanna, hvað sem það kostaði. Svo sönn og átakanleg er leiðin sem hún fer og það að hún gefst ekki upp hvernig sem karluglan lætur. Söguna má túlka á margan hátt sé hún ekki bundin beint við persónurnar sem slíkar og það er svo spennandi. Sem dæmi mætti hugsa sér kerlingu sem hina íslensku þjóð og Jón pólitíkina í landinu …

Kómíkin í verkinu var dregin alveg einstaklega vel fram í þessari uppsetningu og fékk að njóta sín. Textinn varð aldrei eintóna og leiðinlegur. Hann var alltaf lifandi, maður beið spenntur eftir næstu setningu. Jafnvel svo spenntur að einstaklega vel heppnaður tónlistarfluttningurinn varð  stundum of fyrirferðarmikill.

Þegar á heildina er litið var þessi sýning laus við alla tilgerð og hrá sviðsmyndin ýtti undir tímaleysi sögunnar og færði verkið til nútímans þannig að boðskapurinn um breyskleika mannsins kallaði á mann. Heimilisleg stemning þar sem verkið naut sín í fallegum og vönduðum meðförum leikaranna.

Uppbrot með tónlist og sviðsmyndartilfæringum virkaði vel til þess að allir héldu einbeitingu og fylgdu kerlingu í ferð sinni til himna. Það er svo magnað hvað lýsing getur verið áhrifarík og var það eftirtektarvert í þessari sýningu. Og svo kom eitt uppáhalds ljóðið mitt við sögu, Vodka, fléttað inn í listilega vel í fallegum tónum. Það gladdi ungmeyjarhjartað.

Kaldhæðnin í verkinu gleymist oft, og klínt á það einhverri helgislepju, eða það er allavega mín tilfinning. En þarna fékk það að njóta sín eins og til var ætlast. Davíð vildi (held ég) að við horfðumst svolítið í augu við sjálf okkur sem þjóð og gerði þannig létt grín að þessu öllu saman. Heilagleika kristnidómsins með allri sinni tilgerð og hégóma, hugmyndinni um djöfulinn, þjóðarrembuna og hjónabandið. Viðkvæm mál sem hann sauð saman í umgjörð sem hægt er að horfa á án þess að kafa djúpt, en er þegar vel er að gáð, mikil ádeila á mannskepnuna, og síðast en ekki síst Íslendinga. Og mikið óskaplega hefur nú þjóðin gott af slíkri ádeilu einmitt núna.

Ferð á þessa sýningu er því vel þess virði, og í raun nauðsynleg hverjum Íslendingi.

Leikstjóri verksins er Egill Heiðar Anton Pálsson. Leikarar: Aðalbjörg Árnadóttir, Hannes Óli Ágústsson, Hilmar Jensson, María Pálsdóttir og kór. Tónlist: Hljómsveitin Eva. Búningar: Helga Mjöll Oddsdóttir. Sviðsmynd og lýsing: Egill Ingibergsson. Sýningin hlaut Grímuna 2014 fyrir leikmynd, búninga og leikstjórn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283