Á dögunum var mér boðið að koma í útvarpsviðtal og ræða um fitufordóma. Ég staldraði aðeins við. Fannst þetta aðeins of mikið skref og hvað ef þeir ætluðu bara að „grilla“ mig í þættinum? Ég hugsaði þetta aðeins en áttaði mig svo á því að ég kom umræðunni af stað og ég verð að fylgja henni eftir.
Ég get alveg svarað fyrir mig ef þess þarf. Beinið í nefinu á mér er orðið ansi sterkt og ég veit hvernig það er að upplifa fitufordóma.
Á meðan ég var að hugsa málið þá ræddi ég við hina og þessa. Fékk álit hvað þeim fyndist um það að ég færi í svona viðtal. Nokkrir sögðu strax „nei ekki gera þetta!“, alveg eins og ég sagði við sjálfa mig í upphafi, en svo voru aðrir þarna sem sögðu mér að hika ekki og smella mér í þetta.
Þegar ég var að ræða viðtalið við mína nánustu þá fékk ég ábendingu eins og þessa: Er það ekki borgaraleg skylda okkar að passa upp á náungann? Hvort sem það er feitur maður að versla sér óhollt úti í búð eða eftir hörku bílslys? Verðum við ekki að bjarga þeim báðum? Þetta var ekki meint í alvöru. En samlíkingin var skiljanleg og fékk mig aðeins til að hugsa um hana!
Ég komst að þessari niðurstöðu: Ef þú kemur að mér úti í búð með óhollan mat í körfunni og byrjar að benda mér á að ég ætti ekki að borða hann þá væri það eins og að einhver kæmi að bílslysi, rifi upp hurðina hjá stórslösuðum bílstjóranum og húðskammaði hann fyrir það að hafa valdið slysinu.
Við eigum frekar að koma til hjálpar. Aðstoða nágungann með góðum stuðningi en ekki þjarma að honum með skömmum og niðurlægingu.
Ég sló til! Mætti í viðtalið með stóran hnút í maganum og kaldsveitta lófa. Sem var óþarfi því viðtalið gekk vel, miðað við skilaboðin sem ég fékk eftir á. Ég vildi samt ekki hlusta á það strax því að ég hélt að ég hefði komið illa út úr því (NiðurbrotsHarpan að tala þið munið!) en svo ákvað ég að setjast niður heima hjá mér og hlusta í ró og næði. Viðtalið kom bara mjög vel út að mínu mati. Ég er sátt.
Mér finnst gott að umræðan er komin af stað. Ég vil koma henni enn betur inn í samfélagið.
Af hverju eru til fitufordómar? Af hverju er fólk með fordóma fyrir grönnu fólki? Af hverju er fólk sem er ekki að berjast við aukakíló eða að halda í þau að skipta sér af því hvernig aðrir eiga að líta út?
Núna í kvöld, áður en ég settist niður að skrifa þennan pistil þá hlustaði ég á lag.
Það fjallar um það að við eigum að líka við okkur eins og við erum. Að við þurfum ekki að leggja svona mikið á okkur til að öðrum líki við okkur. Fyrst of fremst þurfum við að líka við okkur sjálf. Það er svo satt!
Ég er í endalausum barningi við NiðurbrotsHörpuna sem segir mér að ég sé með of stóran rass, of mikinn maga, ekki nógu stælt og svo margt fleira! En hvaðan hefur þessi niðurbrotshluti af mér þessa hugmynd um það hvernig ég á að líta út? Get ég í alvöru ekki verið hamingjusöm eins og ég kem til dyranna í dag?
Svarið er einfalt: Jú, þú getur það!
Ég þarf bara að trúa á mig, ég þarf að elska mig eins og ég er.
Ég á ekki að reyna að vera einhvern veginn eins og öðrum finnst ég eigi að vera.
Afhverju skiptir það mig meira máli að náunganum líki við mig heldur en ég sjálf?
Fitufordómar eru stórhættulegir!
Ég vil taka það fram að ég er að tala um fordómana í báðar áttir.
Ég sá mynd á internetinu í dag og mér blöskraði. Þar stóð: Það sem stelpur halda að strákar vilja (og mynd af grönnum kvenlíkama) en þetta er það sem strákar virkilega vilja (mynd af þrístnum kvenlíkama). Erum við ekki öll misjöfn og með mismunandi smekk? Afhverju ættu strákar ekki að hrífast af grennri líkamanum? Að mínu mati er þetta fordómar í hina áttina!
Image may be NSFW.
Clik here to view.
Vinur minn (já þetta gildir ekki bara um stelpur!) sendi mér skilaboð um það að hann væri endalaust að fá komment um það að hann væri of grannur. Hann fengi ljót „átröskunarskot“ á sig. Hann nefnilega á það til að grennast þegar hann er undir álagi. Einhvern veginn finnst fólki allt í lagi að setja út á það með ljótum orðum. Eins og hann orðaði sjálfur: „Fólk hikar ekki við að segja manni hvað maður sé ógeðslegur, að það sé ógeðslegt að sjá mann. Koma með ósmart anorexíu-gubbudjóka ef maður grennist of mikið!“
Við megum ekki gleyma því að á baki allra aukakílóa og ekki aukakílóa, þar er manneskja með tilfinningar.
Ég er að vinna í því þessa dagana að sætta mig við það að ég líti ekki út eins og ég held að fólk vilji að ég líti út.
Ég er falleg eins og ég er.
Ég er með fallegan líkama.
Það er enginn með eins líkama og ég!
Pælum aðeins í því. Það er enginn með eins líkama og einhver annar!
Ég þarf að læra að elska alla mína kosti og alla mína galla.
Þar byrjar ferðalag mitt í átt að því að vera hamingjusöm eins og ég er.
Svo einhvers staðar heyrði ég líka að við erum öll með persónuleika og hann ætti í raun að skipta meira máli en kg tölur eða stærð á rassi! (sel það samt ekki dýrara en ég stal því).
„Burtu með fordóma og annan eins ósóma!“