Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Orkneyskar þjóðsögur

$
0
0

Bókaútgáfan Sæmundur hefur sent frá sér Orkneyskar þjóðsögur, safnað af Tom Muir. Þýðandi er Jóna Guðbjörg Torfadóttir en Bryce Wilson myndskreytir. 

Jóna Guðbjörg

Jóna Guðbjörg

Tildrög þess að Jóna Guðbjörg þýddi sögurnar eru þau að hún kynntist Tom Muir á vordögum árið 2003 í gegnum Evrópuverkefnið „Destination Viking – Sagas and Storytelling“. Að verkefninu vann fólk frá sex þjóðlöndum: Íslandi, Grænlandi, Færeyjum, Noregi, Skotlandi og Svíþjóð og það var styrkt af Norðurslóðaáætlun ESB (Northern Periphery Programme).  Síðan eru ríflega tíu ár og því forvitnuðumst við hjá Jónu Guðbjörgu hvers vegna bókin kæmi út fyrst núna?

„Ég kalla það afrek að hún skuli koma út nú því ég þýddi sögurnar fyrir rúmum tíu árum síðan og það hefur gengið brösuglega að fá þær útgefnar, þar til nú!“

Í texta frá bókaútgáfu Sæmundar segir:

„Orkneyingar eiga líkt og Íslendingar uppruna bæði á Bretlandseyjum og Norðurlöndum. Hin forna tunga þeirra taldist til norrænna mála og þjóðsagnaarfur þeirra er um margt líkur hinum íslenska. Safn Toms Muir er spegilmynd frændþjóðar. Við kynnumst vættum lands og sjávar, Finnfólki, nánykrum og sætrítlum svo fátt eitt sé talið. Allt er þetta úr örlítið öðruvísi hugmyndaheimi en í íslensku þjóðsögunum en samt kunnuglegt.“

 

orkneyskar

 

Tommi Hay og álfarnir

Tommi Hay var malari í gömlu kornmyllunni í bæjarumdæminu Eyrarlandi í Steinsnesi. Hann bjó í Brekku og var venjulega kallaður ,maðurinn í Brekku‘. Tommi var alltaf að sjá álfa, en fólk taldi það fremur stafa af því hversu mikið hann hékk á kránni en að það væri yfirnáttúrulegt. Hann giftist Margréti Clouston 1745 og eignuðust þau dóttur 1751. Fáeinum dögum eftir fæðinguna var Tommi á leið sinni heim frá myllunni að kvöldlagi. Hann hafði fengið sér fáeina drykki og var eins kátur og hundur með tvö skott. Leið hans heim lá eftir hlykkjóttum stíg sem teygði sig upp í hlíðina. Vegurinn leiddi hann nærri gamla haugnum í Tongue sem var kunnur fyrir að vera heimkynni álfahóps.

Þegar Tommi stansaði við hlíðarfótinn heyrði hann raddir, þetta voru álfar að tala saman. Tommi stóð og hlustaði um stund og það sem hann heyrði fékk hárin á honum til að rísa. Álfarnir voru á leið í Brekku til að stela nýfæddu stúlkubarni hans. Þeir höfðu með sér veikan, dauðvona krakkabjálfa og þeir ætluðu að láta hann í skiptum fyrir barn Tomma.

Tommi tók til fótanna og hljóp heim til sín eins hratt og hann gat. Hann var kominn þangað rétt á undan álfunum svo að hann mátti engan tíma missa. Hann greip Biblíu fjölskyldunnar og fyrirskurðarhníf[1] sem hékk fyrir ofan eldinn. Um leið og álfarnir komu inn um dyrnar hamraði hann með hnífnum á Biblíuna og tuldraði bæn. Álfarnir hlupu veinandi frá húsinu og að haugnum sínum. Á hlaupunum rifust þeir um hver þeirra hefði talað svo hátt að Tommi hefði getað komist á snoðir um áform þeirra.

Öðru sinni var Tommi á leið heim eitt kvöldið þegar hann sá hóp af álfum dansa í kringum hólinn þeirra. Honum fannst hann vera dreginn í humáttina til þeirra. Þegar hann var kominn upp að hólnum sá hann að ein hliðin var opin. Inni fyrir var heill herskari af álfum sem dönsuðu eins og þeir ættu lífið að leysa. Áður en Tommi gat áttað sig á því sem gerðist var hann staddur inni í hólnum, dansandi við álfana. Hann dansaði alla nóttina og fór ekki fyrr en við fyrstu ljósskímu. Þó svo að hann hefði dansað alla nóttina fann hann ekki fyrir minnstu þreytu. Og þetta var sagan sem hann sagði Margréti þegar hann kom heim, en vera má að hún hafi ekki trúað honum.

Einn vetrardag þegar Tommi var að vinna við mylluna lá snjór á jörðu og skyndilega fór að hlána. Ísinn og snjórinn á holtinu bráðnaði sem varð til þess að það fór að flæða yfir árbakkann. Þegar tími var kominn til þess að fara heim varð Tomma ljóst að hann var tepptur röngu megin við ána. Trébrúin sem hann varð að nota hafði skolast í burtu og það lágu engar aðrar brýr yfir ána. Eina ráðið var að vaða vatnselginn en hann var of mikill og straumharður fyrir Tomma. Hann varð þó að vaða en þegar hann var kominn heim til sín voru fötin hans skraufþurr. Margrét spurði hann hvernig honum hefði tekist að komast yfir ána og vera samt þurr. Hann sagði álfana hafa borið sig yfir ána og hann hélt sig við þá sögu til æviloka.

Dag nokkurn gerðu álfarnir þó Tomma skelk í bringu. Hann var uppi á hæðinni að stinga mó þegar skall á þykk þoka. Tommi hélt af stað heim til sín, eða fremur í áttina þangað sem hann hélt að væri heimili sitt því að þokan var eins og þykkur grautur. Hann hafði enga hugmynd um hvar hann var staddur en hann lét auðnu ráða. Skyndilega varð Tommi var við að hann var ekki einn. Það voru álfar allt um kring, fyrir framan hann, á bak við hann og báðum megin við hann. Hann sá að það var árangurslaust að reyna að hlaupa því að álfarnir höfðu umkringt hann. Hann vissi ekki hvað taka skyldi til bragðs en hann tók upp hnífinn sinn og stakk honum í álfinn sem stóð fyrir framan hann. Hann hvorki æpti upp né féll niður en Tommi tók til fótanna og hljóp alla leið heim til sín og skildi við hnífinn þar sem hann stóð út úr álfinum. Hvernig hann rataði heim er ekki vitað en einhvern veginn hafði hann það af.

Viku, eða tveimur vikum, síðar var einn nágranni Tomma við vinnu upp á hæðinni. Mónum hafði verið hlaðið upp í litlar hrúgur til þurrkunar og var nú tímabært að setja hann á kerrur og flytja heim. Maðurinn varð var við eitthvað óvenjulegt og fór að gefa því nánari gætur. Það reyndist vera hnífur Tomma sem stóð út úr einni lítilli móhrúgu.

 



[1] Á orkneysku: gully.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283