Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Kristín og Sverrir í Gunnarshúsi fimmtudagskvöld

$
0
0

Húsráð Gunnarshúss mun standa fyrir vikulegum Höfundakvöldum í Gunnarshúsi fram að jólum. Á hverju fimmtudagskvöldi mæta tveir höfundar og spjalla um bækur sínar, lesa aðeins úr þeim, og síðan gefst áhorfendum kostur á að spyrja líka. Meiningin er að lyfta jólabókavertíðinni aðeins upp úr fari hinna hefðbundnu upplestrarkvölda, og gefa hverri bók og hverjum höfundi meiri tíma.
Fimmtudaginn 23. október mæta þau Kristín Steinsdóttir og Sverrir Norland og svara spurningum Höllu Þórlaugar um bækur sínar, skáldsöguna Kvíðasnillingana (SN) og Vonarlandið (KS). Allir velkomnir á meðan stólar leyfa, aðgangur 500 kr.

Kristín Steinsdóttir:
Kristín hefur verið rithöfundur í fullu starfi síðan 1989 og skrifað meira en 30 bækur bæði fyrir börn og fullorðna. Og þá einnig töluvert af leikritum fyrir svið og útvarp, sem hún skrifaði með Iðunni systur minni. Hún var formaður SÍUNG (barna- og unglingabókasambandsins) í nokkur ár og formaður Rithöfundasambandsins 2010 – 2014.

Bókin Vonarlandið kemur út sama dag og upplesturinn er, eða þann 23. október. Kristín er búin að ganga með bókina í maganum árum saman. Hún gerist að mestu í Reykjavík upp úr miðri nítjándu öld og egir frá almúgafólki – mest konum – sem reyna að lifa af við óblíð kjör. Þær komast ekki í vist í fínum húsum eins og þær dreymir um en vinna þá vinnu sem til fellur: Bera kol, vinna í
saltfiski, eru vatnsberar og þvottakonur í Laugunum. Kjörin eru bág og okkur kann að virðast lífið strit út í eitt en þær hafa lag á að sjá ljósu punktana í tilverunni þrátt fyrir allt . . .

Sverrir Norland: 
Sverrir Norland hefur áður sent frá sér tvær ljóðabækur, hljómplötu með eigin lagasmíðum og smásagnabók sem gefin var út í takmörkuðu upplagi síðasta haust af Tunglinu, á fullu tungli. Hann birtir einnig daglega nýja myndasögu undir heitinu „Þættir úr daglegu lífi“ (sverrir.tumblr.com).
Kvíðasnillingarnir er fyrsta skáldsaga hans og fylgir þremur brothættum, listhneigðum og ástleitnum drengjum frá æsku allt til fullorðinsára. Bókin hefur fengið prýðilega dóma, þykir fanga hlutskipti ungra manna í samtímanum á sérstakan hátt, og höfundur kveðst hlakka til að rabba um hugmyndirnar að baki sögunni, vinnuferlið og næstu skref.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283