Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Norðmenn verjast allra frétta af vopnagjöf til íslensku lögreglunnar

$
0
0

Kvennablaðið fór á stúfana til að kanna tilurð hinnar óvanalegu byssugjafar Norðmanna til Íslendinga.

Um er að ræða 150 MP5 öflugar hríðskotabyssur frá þýska vopnaframleiðandanum Heckler og Koch sem að sögn Jóns Bjartmarz yfirlögregluþjóns hjá embætti ríkislögreglustjóra eru gjöf frá Norðmönnum.

Ástæða þess að lögreglan endurnýjar vopn sín nú er sú að vopnakostur íslensku lögreglunnar er orðin úreltur að sögn Jóns. Mörgum er brugðið að nýr tækjabúnaður lögreglunnar séu vopn af þessu tagi en sum tæki lögreglunnar eru víst svo gömul að þau voru til staðar í Gúttóslagnum. Vesalings löggurnar að vera að vinna með svona afdönkuð skrapatól.

Kvennablaðið er mjög áhugasamt um vopn og herminjar og leggur til að íslenska lögreglan komi nú upp veglegu safni með þessum aflóga sýnisgripum. Það er reyndar sérkennilegt að svo gamlir gripir séu yfirleitt í vörslu lögreglunnar því það er einmitt í verkahring þeirra að farga gömlum, úreltum og ónothæfum vopnum.

Hugsanlega gæti íslenska lögreglan selt þessi gömlu vopn erlendum söfnum eða söfnurum og haft upp úr dágóða summu og þyrfti ekki að betla vopn hjá nágrannaþjóðum okkar. Annað eins er nú selt á Ebay, ekki gleyma að Landspítalinn hefur verið að kaupa varahluti í bágborinn tækjakost sinn á Ebay.

En til að fá staðfestingu á gjöf Norðmanna lögðum við af stað í lítinn leiðangur.

Við vorum ekki vissar hvert við ættum að snúa okkur fyrst en afréðum að leita til norsku löggunnar því eins og allir vita þá veit löggan ýmislegt.

Við heyrðum fyrst í talsmanni þeirra Kare Hansen og hann sagði af og frá að byssurnar væru gjöf frá norsku lögreglunni en hugsanlega væri byssurnar frá norska ríkinu. Kári sagðist senda okkur tölvupóst með frekari upplýsingum.

Meðan við biðum fyrirmæla frá hinum norska Kára hjá norsku löggunni hringdum við í norska herinn og hittum á Brynjar Stordal sem er í félagi í M16 og hefur oft dvalið á Íslandi við gæslu lofthelginnar nú síðast í vor.

Stordal sagðist ekki geta staðfest að byssurnar væru gjöf frá norska hernum. Hann bar Íslandi góða sögu og sagði að landið væri fallegt.

Við spurðum hann hvort það væri rétt að íslenska lögreglan væri í samstarfi eða þjálfun á vegum norska hersins eða lögreglunnar og sagðist Stordal ekki hafa vitneskju um það og gat því ekki staðfest það.

Netpóstur frá Kára talsmanni lögreglunnar í Noregi datt inn um lúguna hjá okkur þegar samtalinu við Stordal lauk með eftirfarandi skilaboðum:

“Våre undersøkelser kan tyde på at disse våpnene ikke stammer fra politiet, men trolig fra Forsvaret”

“Eftirgrennslanir okkar geta bent til þess að þessi vopn séu ekki frá lögreglunni komin heldur að líkindum frá hernum.”

Kári sendi okkur einnig símanúmer hjá talsmanni norska varnarmálaráðsins en okkur gekk brösuglega að hafa upp á honum. Einn talsmaðurinn var veikur enda geysa haustflensur í Noregi eins og hér á landi en að lokum náðum við í Merit nokkra hjá varnarmálaráðuneytinu sem kannaðist ekki við gjöf vopnanna heldur sölu þeirra en veigraði sér við að staðfesta nokkuð og vísaði á herinn.

Eftir langa leit fengum við samband við Dag Aamoth talsmann norska hersins og þegar við spurðum hann hvers vegna væri svona erfitt að ná í hann sagði hann glaðhlakkalega og án allrar gremju:

„Nú, það er vegna þess að það hefur ekki verið flóafriður fyrir íslenskum blaðamönnum í dag . Það virðist vera að það séu misvísandi fréttir á Íslandi og því miður get ég ekki staðfest það sem fram hefur komið um málið í íslenskum fjölmiðlum um nýfengin byssukost íslensku lögreglunnar.“

Hann Dagur sagðist jafnframt ekki vera búin að fá nægilegar upplýsingar til að geta yfirhöfuð tjáð sig um málið. Við slepptum honum ekki samt enda viðkunnanlegur í síma og spurðum hann hvort hann vissi hver hefði kallað eftir eða stýrt slíkri gjöf ef um gjöf væri að ræða, því varla hefði norska ríkið eða herinn vaknað upp einn morguninn og sagt : „Hey, gefum Íslendingum þessari herlausu friðelskandi þjóð tæplega 150 MP5 byssur“.

Dagur hló við og sagði : „Auðvitað ekki, hvað heldur þú? Það skal sagt að af og til seljum við notuð vopn, vopn sem við erum hættir að nota og höfum selt til annara Evrópuþjóða. Við vitanlega þröngvum þeim ekki upp á neinn. Salan kemur til af þörf viðkomandi kaupanda. Þannig að sala notaðs hernaðarvarnings kemur til af kröfu eða neyð annara þjóða. Ég get engu að síður ekki tjáð mig um þetta tiltekna mál.“

Þar sem við Kvennablaðskonur erum margfróðar um vopn spurðum við hvort væru búið að gera grein fyrir vopnaflutningi 150 MP5 vopnanna til Íslands því að það er krafa frá framleiðandanum Heckler og Koch að hann hafi vitneskju um ef vopn eru færð á milli eigenda. Dagur vissi ekkert um málið.

Við spurðum Dag að endingu hvenær hann gæti staðfest sölu eða gjöf Norðmanna til Íslendinga og hann svaraði:

„Ég er bara ekki viss, ég get spurst fyrir en veit ekki hvenær ég fæ staðfestingu. En til að svara þér einhverju þá seljum við vopn þegar við eigum umframvopn eða þegar við leggjum ákveðnum tegundum vopna af einhverjum ástæðum.“

Gefið þið einhverntíman vopn?

„Það hefur komið fyrir, í þeim tilfellum þar sem… já það hefur gerst það er allt sem ég get sagt.

Hvað þarf land að uppfylla til að fá slíka gjöf. Er þetta einhverskonar neyðaraðstoð í þeim tilfellum að þið gefið vopn? Til þriðja heims landa?

„Reglan er að vopn eru seld en t.d höfum við gefið hernaðarvarning til landa eins og Afghanistan, ekki þungavopn en tjöld og stoðbúnað ýmislegan.“

Við kvöddum Dag og þökkuðum honum fyrir spjallið og báðumst afsökunar á ágangi okkar og annara íslenskra blaðamanna sem hafa tekið tíma hans í dag en Dagur sagði að það væri alger óþarfi enda hefði hann notið hverrar mínútu.

Hver MP5 byssa kostar ný í innkaupum um 350.000 kr. að grunnverði þannig að ef um gjöf er að ræða eins og Jón Bjartmarz yfirlögregluþjónn heldur fram er þetta um rúmlega 50 m.kr gjöf! Og með afslætti vegna aldurs eitthvað minna eflaust.

Það er góður ‘vinur’ sem gefur slíka gjöf og ætlast ekki til nokkurs í staðinn!


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283