Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Afhjúpun Reynis Traustasonar

$
0
0

Reynir Traustason fyrrum ritstjóri DV hefur ritað fréttaævisögu sem ber heitið Afhjúpun. Samkvæmt höfundi er þetta bók sem spannar feril hans frá því að hann var sjómaður og fréttaritari á Flateyri og allt fram til þess dags er átökin um DV kostuðu hann starfið. Hægt er að kaupa bókina í forsölu í gegnum hópfjármögnunarvefinn Karolinafund.

reynir

Reynar leitar fjármagns til útgáfu bókarinnar á Karolinafund og nú þegar hafa safnast yfir 2000 evrur á örfáum sólarhringum. Markmið söfnunarinnar eru 7000 evrur.

Í kynningu á bókinni á vef Karolinafund segir Reynir:

„Afhjúpun er fréttaævisaga mín. Sagan hefst árið 1983 þegar ég gerðist fréttaritari DV á Flateyri. Móðir mín hafði sinnt þessu samfélagslega hlutverki en þoldi illa áreitið sem fylgir því að segja fréttir. Hún bað mig, togarasjómanninn, um að taka við. Eftir að hafa hugsað mig um ákvað ég að láta slag standa og taka að mér hlutverkið. Þar með eignuðust Vestfjarðamið fréttaritara. Og ég byrjaði að klífa upp metorðastigann í fjölmiðlaheiminum. Á endanum náði ég að verða ritstjóri og einn af stærstu eigendum DV.

Í Afhjúpun fer ég í gegnum mörg af mínum stærstu fréttamálum og leyfi lesendum að skyggnast á bak við tjöldin. Ég fjalla um Landssímamálið, mál Árna Johnsen, Æsumálið og Lekamálið þar sem ég lagði allt undir. Svo eru skemmtilegu fréttirnar þarna eins og glíman við harmonikkuunnendur vegna flugdólgs sem varð þeim samferða.

Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði eitt sinn við mig að ég væri ekki tvöfaldur í roðinu heldur þrefaldur. Þar vísaði hann til þess að á sama fundinum kom ég fram sem formaður í stéttarfélagi, félagi í Sjálfstæðisflokknum og loks fréttaritari DV. Á köflum þurfti ég að skilja á milli þessara hlutverka minna. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að eiga þátt í að bjarga mannslífi þegar togarinn Krossnes SH sökk á Halamiðum. Augu allra fjölmiðla landsins voru á þessum atburði en DV var um borð.

Í Afhjúpun er farið í gegnum átökin um DV sem enduðu með því að ég var rekinn að kröfu Björns Leifssonar í World Class. „Stórhættulegur mannorðsmorðingi,“ var einkunn hans.

Afhjúpun er áttunda bókin mín og sú fyrsta í átta ár. Að þessu sinni ákvað ég að gefa bókina út undir merki einkahlutafélags míns. Með þessu legg ég út í mikla fjárhagslega áhættu á tíma þar sem ég hef verið sviptur atvinnu minni. Ég bið því um stuðning til að minnka áhættuna. Jafnframt lofa ég skemmtilegri og áhugaverðri bók.“

Hægt er að styrkja útgáfuna hér og tryggja sér jafnframt eintak af bókinni í forsölu.

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283