Kvenfataverslunin Möst C fagnar fjögurra ára afmæli um þessar mundir. Búðin lætur ekki mikið yfir sér þar sem hún kúrir í bláu húsunum við Faxafen og því kemur úrvalið manni nokkuð á óvart þegar inn er komið. Ekki minnkar undrunin eftir að maður hefur kíkt á nokkra verðmiða og séð að hér væri vel hægt að kaupa föt bæði fyrir jólin og árshátíðina án þess að ganga út með rauðglóandi kreditkort og slæma samvisku. Þetta er óvenjulegt, ekki síst í ljósi þess að um íslenska hönnun er að ræða í mörgum tilvikum. Við spurðum eigandann, Söndru J. Svavarsdóttur, aðeins út í tilurð búðarinnar.
Alltaf haft áhuga á fötum
„Ég var búin að vera viðloðandi blóm í 20 ár og vildi prófa eitthvað annað. Dæturnar voru líka orðnar stórar svo maður hafði tíma. Ég hafði alltaf haft gaman að fötum svo þetta virkaði upplagt,segir Sandra. Hún segir að það hafi strax frá upphafi verið sér ofarlega í huga að fötin yrðu að vera á góðu verði.
„Ég vildi opna búð þar sem ég gæti boðið upp á flott föt á fínu verði. Hér átti maður að geta keypt æðislegan jakka án samviskubits og gengið út með kjól án þess að líða illa út af því,” segir hún og brosir.
Hún fór því að kanna málin og komst að því að þetta var hægt. „Ég kom mér í samband við framleiðendur í Frakklandi, Hollandi, Ítalíu og Spáni og fór að flytja inn föt frá þeim. Ég komst þó að því að ítalskar og spænskar stærðir hentuðu okkur engan veginn því við Íslendingar erum ögn stærri! Í dag er ég því aðallega með fatnað frá Frakklandi og Hollandi.” Sandra segir það vera kappsmál að bjóða upp á föt sem henti öllum konum, sama hvernig þær eru í laginu. „Ég hef því allt frá stærðum 34 og upp í 58, hér er öll flóran. Það er mín skoðun að við eigum allar að geta fundið okkur falleg föt sem klæða okkur vel og eru á góðu verði. Það er okkar mottó,” segir hún ákveðin.
Fötin saumuð í Evrópu
Fyrir utan frönsk og ítölsk merki býður Möst C upp á mikið úrval af íslenskri hönnun sem Sandra á heiðurinn að sjálf. „Það má segja að ég hafi þetta í blóðinu því afi var einn af fyrstu klæðskerameisturum landsins og mamma ólst upp á saumastofu. Ég fylgdist mikið með henni sauma og fékk snemma áhuga á fötum og sniðum,” segir Sandra. Hún segir að fötin séu saumuð í Frakklandi og Hollandi; þar sé úrval framleiðenda gott meðan hér sé útilokað að láta sauma fyrir sig ef ætlunin er að halda verðinu niðri. „Ég fer út með snið og hugmyndir að útfærslum og vel svo falleg efni.”
Upphaflega sá móðir Söndru um að sauma fyrir hana en Sandra sá fljótlega að það var ekki að ganga upp! „Hún var alltaf að sauma eitthvað fyrir mig og það fór allt sama daginn! Ég hugsaði með mér: Þetta gengur ekki, ég verð að finna aðra leið, mamma er bara ein kona með saumavél og þetta selst allt jafnharðan!” Úr varð að láta sauma fyrir sig í Evrópu.
Klassíkt og þægilegt
Sandra segist hanna flíkur sem sig langi sjálfri að ganga í. „Ég er mikið heima á kvöldin að hugsa og teikna. Ég fæ einhverja hugmynd og velti svo fyrir mér hvernig væri sniðugt að útfæra hana. Fötin eiga að vera bæði klassísk, þægileg og klæðileg.” Sandra segir að sér þyki þetta ofsalega gaman og eiginlega sé hún alltaf að hugsa um eitthvað sem gæti hentað í búðina; eitthvað klassískt og fallegt sem gæti hentað öllum konum.
Hönnun Söndru hefur fallið konum vel í geð og einna vinsælasta flíkin í versluninni eru t.d. buxur sem hún hannaði. „Það er svo mikið af konum sem vilja buxur sem eru háar í mittið og beinar niður. Þær vilja ekki mjaðmabuxur eða leggings. Það er hins vegar erfitt að finna öðruvísi buxur í búðum. Svona mjaðmabuxur eru óþægilegar og klæða í raun ekki nema einstaka manneskjur.”
Hún teiknaði því þannig buxur og lét sauma. ,„Buxurnar eru svartar, úr teygjuefni, og rosalega þægilegar, enda hafa þær rokið út. Margar konur hafa komið aftur og aftur og vilja helst eiga 2-3 svona buxur,” segir hún.
Sandra hefur líka hannað toppa úr siffoni sem hún segir alltaf vera einkar vinsæla. „Þetta eru t.d. síðar kápur sem fara yfir kjóla og svo víðar blússur með fiðrildasniði sem maður getur verið í yfir allt. Svona toppar eru alltaf mjög vinsælir enda eru þeir mjög flottir og fara vel við alla liti. Svo er ég líka mikið með síða kjóla sem hafa mikið selst.” Svarti liturinn er ríkjandi en Sandra hefur líka litríka klúta á boðstólum sem lífga upp á svarta litinn, sem og flott skart.
Konurnar verða svo glaðar
Markhópur Möst C er konur á öllum aldri. „Hér geta konur fengið föt sem klæða þær vel, fela svæði sem við erum ekki ánægðar með og draga fram það besta.” Sandra segir að þegar konur hafi eitt sinn uppgötvað búðina komi þær aftur og aftur.
„Stundum koma hingað kannski sex eða sjö konur í einu, utan af landi, og þær tala um þetta sem Litlu Glasgow. Þær koma hingað nokkrum sinnum á ári og segja að þetta sé falin búð hjá mér en með miklum gersemum!” segir Sandra og brosir.
Sandra segist líka senda mikið út á land og fólk sé duglegt að panta gegnum Facebook. „Ég reyni líka að hafa mikið af myndum þar og að svara öllum fyrirspurnum fljótt.” Hún segir að sér þyki mjög gaman að vera í þessum rekstri.
„Konur verða svo glaðar þegar þær versla hjá okkur! Eftir að hafa keypt föt hér þurfa þær ekki að vera með móral yfir því að vera búnar að eyða hálfum laununum í föt á sjálfa sig. Það gefur mér svo mikið.”
Gull og glimmer
Vöruúrval Möst C er síbreytilegt og ávallt er eitthvað nýtt að koma inn. „Þegar ég ákveð að taka inn nýja flík er lykilatriðið alltaf að geta boðið góða flík á góðu verði. Það er svo mikilvægt því í dag spáir fólk virkilega í það hvað það gerir við peningana; allt er svo dýrt.” Þegar við spyrjum Söndru hvað muni einkenna jólafötin svarar hún strax að það verði svart, gull og glimmer. „Við verðum auðvitað með þetta hefðbundna en maður verður eitthvað svo glysgjarn um jólin! Þannig að svart verður sem fyrr ríkjandi en pallíettur, gull og glimmer verður áberandi. Við munum hafa gott úrval af þannig flíkum!” segir Sandra, eigandi Möst C og fatahönnuður.
Sigrún Erna Geirsdóttir skrifaði fyrir Kvennablaðið.