Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Peningaleikarnir

$
0
0

Sóley Kaldal skrifar. Hún er búsett í Kaupmannahöfn.

Sóley Kaldal

Sóley Kaldal

 

Ég sakna Íslands en ég get ekki flutt heim.

Ég vil ekki þurfa að velja mér þann starfsframa sem gefur hæstu mögulegu launin af einskærum ótta við það að fjölskyldumeðlimur veikist alvarlega eftir nokkur ár eða að ég eigi ekki eftir að geta leyft börnunum mínum að læra á hljóðfæri því greiðslubyrði námslána verði mér svo þungur baggi. Ég vil ekki þurfa að vera sérfræðingur í banka, þegar mig langar að vera stærðfræðikennari í menntaskóla.

Á Íslandi þarf ég nefnilega að taka þátt í Peningaleikunum og ég veit að mér mun ekki vegna vel í þeim.

Af hverju?

Vegna þess að sama hvað ég reyni, þá hef ég ekki nokkurn einasta áhuga á peningum.
Allir íbúar samfélagsins eru þátttakendur í Peningaleikunum. Flestir nauðugir.
Í Peningaleikunum hafa keppendur eitt markmiði: Auðsöfnun.
Þú skalt hafa áhuga á peningum eða þú hefur verra af.

Gildi fólks er metið eftir því hversu góð laun það fær. Bankastarfsmaðurinn er svo duglegur því hann þénar svo vel. Hann er óskabarn yfirvalda. Við vitum líka öll að hann leggur fimm sinnum meira á sig og vinnur fimm sinnum meira á sínum átta tímum en leikskólakennarinn. Eða hvað? Framkvæmdastjórinn er líka rosalega duglegur. Tífalt duglegri en verkafólkið.

Hér vilja eflaust einhverjir segja: Kommúnisti!

Hlífið mér við því. Kommúnismi, sem var á sínum tíma einhvers konar óðaviðbragð við kapítalisma, var hræðilegur bráðdrepandi andskoti í framkvæmd. Kapítalismi sigraði heiminn enda margt gott við hann. Það virðist fúnkera vel í mannlegu samfélagi að stefna á hagnað. Hins vegar hefur krafan um að sífellt verði að hámarka hagnað búið til ófreskju sem ekki aðeins stuðlar að ójöfnuði, heldur er komin langleiðina með að tæma auðlindir jarðar. Ólíkt kommúnismanum, sem steindrepur sína eigin þegna, þá drepur kapítalismi nútímans bara þegnana hinum megin á hnettinum. Það er einhvern vegin auðveldara að lifa með því.

Ég veit að það er fullt af fólki sem hefur áhuga á peningum og ólmt vill eignast sem mest af þeim. Það er líka allt í lagi. Það er bara fínt að einhverjir vilji búa í stórum húsum, eiga marga bíla, elda í háglansaeldhúsi með sjálflokanlegum skúffum og halda á veski sem kostar meira en heilsíðuauglýsing í Fréttablaðinu.

En við erum líka ansi mörg sem sækjumst eftir lífshamingjunni annars staðar. Fólkið sem vill ekki þurfa að eiga bíl, er alveg sama þó það sé línóleumdúkur í íbúðinni og að fjölskyldan gangi í notuðum fötum. Fólkið sem er meira umhugað um að minnka vistspor sitt en að nota það til að spígspora um verslunargötur heimsborganna. Það hlýtur líka að vera í lagi að við séum til.

Við stuðlum kannski ekki jafn vel að hagvexti, en við höfum marga góða þjóðfélagslega eiginleika – þó ríkisstjórnin kunni ekki að meta þá.

Hvað er ég að tuða – ef ég fíla svona vel að lifa lágt, þá get ég bara gert það í friði og allir eru sáttir.

En það er ekki alveg svo einfalt.

Það eru ansi margir starfsvettvangar sem eru ekki metnir að verðleikum á Íslandi. Kennarar, slökkviliðsmenn, löggur, heilbrigðisstarfsfólk og aðrir í ummönnunarstörfum, listamenn og svo framvegis og svo framvegis.

Fólk sem velur þessar starfsgreinar gerir það gjarnan af hugsjón og gerir sér grein fyrir lélegu launakjörum. Flest er það meira að segja tilbúið til að færa þá fórn til þess að sinna störfum sínum. En er hægt að ætlast til þess að fólk færi þessa fórn og ennfremur hegna því með því að takmarka aðgengi þess að grunnþjónustu samfélagsins. Ef dæminu er stillt þannig upp að launaseðillinn rétt dugi fyrir mánaðamótunum, þá verður samfélagið að tryggja að grunnþörfum allra sé mætt.

Mig langar að búa í samfélagi þar sem fólk á jafnan rétt að heilbrigðisþjónustu og menntun. Alla ævi. Þar sem það er raunverulegur valkostur að eiga ekki bíl. Þar sem ég get valið að vinna sem kennari án þess að bókstaflega stefna velferð fjölskyldu minnar í hættu.

Er það til of mikils mælst?

 

Ljósmynd efst í grein RÚV. Pistill fyrst birtur á Facebook Sóleyjar.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283