Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Lýðræði eða skrílræði?

$
0
0

Þegar ég bjó erlendis – árum saman – var ég alltaf ákaflega stolt af því að geta sagt að á Íslandi væri og hefði alltaf verið þing og lýðræði. Engir kóngar, keisarar eða furstar sem notuðu lýðinn eins og þræla eftir behag hverju sinni.

Því miður er það svo að eftir Hrunið hefur komið vel og rækilega í ljós að lýðræðið á Íslandi er farið í norður- og niðurfallið og í raun alveg ónothæft. Hvert málið rekur annað þar sem kemur í ljós að stjórnmálamenn og stjórnsýsla eru óvitandi um gjörðir hinna mismunandi stofnana og enginn virðist vita neitt um neitt eða geta svarað hvers vegna hin og þessi mál eru á þennan eða hinn veginn. Þetta eitt og sér ætti, svo slett sé ensku, að vera Red Alert fyrir almenning.

Svo hefur líka komið í ljós að vegna hagsmunatengsla stjórnmálamanna og stjórnsýslu inn í hin ýmsu félög og fyrirtæki, þá er ekki hægt að vinna úr Hruninu á þann máta sem þyrfti að gera, sem sagt með almannahag fyrir brjósti og róttækar breytingar í farteskinu. Þannig að enn þann dag í dag er hreint kaos nánast allsráðandi í þjóðfélaginu og sér ekki fyrir endann á því.

Enginn segir af sér út af nokkrum hlut, nokkru máli, enginn tekur ábyrgð nema með svona einu litlu „ég biðst afsökunar“ og þá frekar með hroka en auðmýkt.

Sem sagt íslenska lýðræðið er orðið skrílræði í sinni verstu mynd og trú almennings og traust á þessu lýðræði og stjórnmálamönnum og flokkum er orðið það lítið að kosningaþáttaka fer minnkandi með hverjum kosningum sem hafa orðið eftir Hrun. Því þegar upp er staðið þá eru þeir einu sem tapa alltaf almenningur sem getur bara rekið alþingismenn á fjögurra ára fresti.

Þegar staðan er orðin sú í samfélaginu að almenningur treystir ekki lýðræðinu og þeim manneskjum sem eiga að vera fulltrúar þess á þingi og það þetta mörgum árum eftir Hrunið, þá má spyrja sig hvort ekki hefði verið farsælla að stíga út fyrir rammann rétt eftir hrun og koma á utanþings(neyðar)stjórn sem hefði tekið yfir hlutina í einhvern tíma. Möguleikinn er fyrir hendi því þetta hefur verið gert í sögu landsins.

Akkilesarhællinn er sá að samkvæmt núverandi stjórnarskrá á forseti Íslands að skipa slíka stjórn en það má spyrja hvort ekki mætti setja það fyrirkomulag í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, þannig að þegar upp er staðið væri það þjóðin sem tæki lokaákvörðun um þá aðila sem yrðu valdir í slíka stjórn.

Þegar horft er yfir stjórnmálasviðið í dag og hvernig hvert málið af öðru er látið reka á reiðanum þá er naumast vafamál að skárra væri að vera með minni stjórn samansetta af fólki sem er tilbúið til að endurskoða kerfin og samfélagið og gera þær róttæku breytingar sem ekki verður komist hjá að gera ef þetta þjóðfélag á einhvern tíma að rétta úr kútnum og þróast í átt til stöðugleika fyrir almenning og heildina.

Svo undarlega vill nefnilega til að það er ekki hægt að laga og leysa vandamál með sömu aðferðum og vandræðunum ollu, en það er einmitt það sem stjórnmálamenn og stjórnsýsla á Íslandi eru að reyna að gera og hafa gert síðustu ár samfélaginu til tjóns.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283