Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Risafíllinn í stofunni

$
0
0

Í fyrrinótt gat meginþorri landsmanna farið inn á leiðréttingarvef ríkisstjórnarinnar til að athuga hve mikil eða lítil skuldaleiðrétting félli þeim í skaut að þessu sinni. Það sem er sammerkt með þessari leið og þeirri sem síðasta ríkisstjórn fór – 110% leiðinni – er að lækka höfuðstól húsnæðislána landsmanna að einhverju marki miðað við forsendubrestinn sem varð við hrunið 2008.

Sé þetta skoðað grannt þá hefur þessi forsendubrestur ekki verið leiðréttur, hvorki með 110% leiðinni né þeirri sem er verið að fara núna og ástæðan fyrir því er einföld og þó mjög snúin og heitir verðtrygging. Verðtyggingin er risafíllinn í stofu okkar landsmanna.

Rót vandans í leiðréttingu forsendubrests hefur verið, er og verður verðtryggingin. Þegar 110% leiðin var farin virkaði hún því aðeins að fólk fengi lán fellt niður að fullu. Þeir sem fengu lán felld niður að hluta til, hafa horft á höfuðstól lána sinna hækka aftur og í mörgum tilfellum er lækkun á lánum nú þegar búin að éta sig upp.

Þegar upp er staðið er það þannig að á meðan hér er verðtrygging munu lán hækka aftur þótt þau lækki núna um 1–2 milljónir að meðaltali við þessa leiðréttingu ríkisstjórnarinnar.

Á meðan ekkert er gert í verðtryggingunni og hún fryst eða afnumin, eða vægi hennar mildað í sambandi við lántökur, erum við alltaf að plástra svöðusár, vona að það reddist bara einhvern veginn og að okkur blæði ekki út á meðan við leitum að nýjum plástri til að skella á sárið þegar hinn er orðin gegnvotur.

Það sem getur svo orðið hættulegt núna eftir leiðréttinguna eru áhrifin af afnámi gjaldeyrishaftanna, þó það verði gert í áföngum. Hvernig sem að því verður staðið má gera ráð fyrir að krónan falli og það hafi í för með sér verðbólguskot sem hækki lán/verðtryggingu. Ef það gerist snöggt og með miklum kúf upp á við má reikna með að lækkunin sem landsmenn hafa fengið á lánum sínum verði étin upp á skömmum tíma.

Við þurfum að fara að takast á við risafílinn sem býr í samfélags-stofunni okkar og gengur undir nafninu verðtrygging, því engar aðgerðir munu hafa áhrif til langframa nema það verði gert.

 

Ljósmynd af verki Banksy Elephant in the room.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283