Ég held að það eigi eftir að koma í ljós að með skuldaleiðréttingunni, þótt umdeild sé, hafi Sigmundur Davíð náð að bjarga sér og Framsóknarflokknum og koma standandi niður úr frjálsu falli.
Á um það bil sex árum í pólitík hefur Sigmundur Davíð náð undraverðum frama. Hversu föstum fótum hann stendur í hugum kjósenda er annað mál. Sé miðað við að stjórnmálamenn eigi sér níu líf eins og kettirnir þá held ég að SDG eigi að minnsta kosti tvö líf eftir.
Annað lífið byggist á því að hann nái að sækja peninga þangað sem peningarnir eru, það er að segja í hrægammasjóðina þar sem um risavaxnar upphæðir er að tefla, hundruð milljarða sem duga meira en vel til að endurreisa heilbrigðiskerfið og fleira – ef peningarnir fara þá ekki í að hugga óseðjandi grátkór útgerðarauðvaldsins.
Hitt lífið byggist á því að hann nái að standa við yfirlýsingar um að afnema verðtrygginguna (sem trúlega er ekki hægt án þess að taka hér upp alvörugjaldmiðil og hverfa þá aftur að fyrri stefnu Framsóknarflokksins og óska eftir aðild að Evrópusambandinu).
Svo mundi ég ráðleggja honum að slappa ofurlítið af gagnvart fjölmiðlum. Það eru ekki allir að reyna að eyðileggja allt fyrir honum og ekki heldur finnst öllum að sólin skíni út um afturendann á honum. Þannig er nú bara lífið og eins gott að venjast því.