Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Ræða Braga Páls Sigurðarsonar á Austurvelli 17. nóvember 2014

$
0
0

„Góðir Íslendingar;

Ég hugsa að aldrei í sögu lýðveldis Íslands hafi önnur eins blanda af vanhæfni, spillingu, hroka og heimsku verið afhjúpuð, og sú afhjúpun hundsuð.

Við erum að lifa ótrúlega tíma. Keisarinn er kviknakinn en neitar að hlusta á það. Kötturinn er sloppinn út. Við vitum líka hvar hundurinn liggur grafinn, hvar lá í því og hvar hnífurinn stendur í kúnni.

Duglegum og sannleikselskandi Íslendingum hefur tekist að fletta ofan af því hvað auðvaldið er undirförult og ósvífið, og ætti það ekki að vera nóg. Maður myndi halda að þegar fólk hefur verið afhjúpað sæi það sóma sinn í að taka pokann sinn.

En þetta er Ísland, og þessir ömurlegu rándýru og gjörspilltu trúðar sem flett hefur verið ofan af telja sig vera ómissandi, og það er okkar hlutverk að benda þeim á að það séu þeir ekki. Að þeir séu í vinnu hjá þjóðinni, og að hún sé búin að senda þeim uppsagnarbréf.

Við erum reið vegna þess að okkur finnst á okkur brotið, okkur finnst hafa verið á okkur brotið í mörg ár og við erum orðin þreytt á því. Við erum reið vegna þess að frammi fyrir algjörri afhjúpun halda ráðamenn, þessir atvinnulygarar, áfram að ljúga að okkur, upp í opið geðið á okkur.

Þau eru föst í lygavef. En við sjáum ykkur, við erum að horfa beint í augun á ykkur, og þið haldið áfram að ljúga. Ótrúlegt.

En við erum ekki bara að mótmæla Hönnu í lygafeninu. Við erum ekki bara að krefjast aðgerða fyrir hinn rotnandi og hrynjandi spítala eða andmæla valdstjórninni að vopna varðhundana sína. Við erum ekki aðeins að mótmæla útlendingahatandi einfeldningum eða hinni tilbúnu baráttu landsbyggðarinnar á móti borgarbúum, því auðvaldið níðist á fólki jafnt burtséð frá póstnúmerum. Þetta eru ekki einungis mótmæli gegn lygurunum í kosningabaráttunni eða lygurunum í Hádegismóum eða lygurunum í innanríkisráðuneytinu.

Þetta eru mótmæli hinna þreyttu. Ég er persónulega rosalega þreyttur á því að vakna við enn eitt hneykslið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Ég er þreyttur á því að vilja ekki búa á Íslandi. Ég er þreyttur á því að láta ljúga að mér. Ég er þreyttur á valdhöfum að svara ekki spurningum heiðarlega. Ég er þreyttur á að lesa röð pistla sem eru upptalningar á því hversu sjúklega fáránlega ríkisstjórnin sé að hegða sér. Pistlar sem taka ekki eitt mál fyrir, heldur þylja upp alla glæpina gegn almenning í runu, líkt og einhver glötuð og martraðakennd útgáfa af laginu „Þrettán dagar jóla“.

Það var nefnilega augljóst frá því að þessi vanhæfa ríkisstjórn settist í valdastóla að hún ætlaði ekki að hlusta. Og ef hún slysaðist til að heyra þá ætlaði hún að hundsa. Við höfum horft upp á þau færa sífellt hærri fjárhæðir úr vösum þeirra sem minnst hafa á milli handanna inn á bankabækur auðmanna. Við höfum horft upp á þau meitla kerfið til þess að verja völd sín. Vopna lögregluna til þess að ekkert geti ógnað þessari óhugnanlegu frjálshyggjumartröð þeirra.

Síðasta árið höfum við svo horft upp á valdhafana ljúga að þjóðinni við hvert einasta tækifæri, reyna að rústa æru flóttamanna til þess að geta sent þá ólöglega úr landi og skella svo skuldinni á blaðamenn, Rauða krossinn og skúringakonur þegar allt annað bregst. Misnota aðstöðu sína til að snúa upp á hendur lögreglunnar, og ljúga svo til um það allt saman líka. Við höfum öll verið að horfa á sama farsann. Sömu ömurlegu sápuna, ráðþrota. Þegar Bjarni Ben sagði að Hanna axlaði best ábyrgð á þessum pólitíska sorphaug með því að sitja áfram sem fastast í honum varð ég svo ringlaður að ég datt næstum því. Hvaða öfugsnúna kjaftæðis óraunveruleika búa þau eiginlega í?

Ég ætla bara að segja það á íslensku að Hanna Birna virðist vera siðblindur og valdasjúkur lygari sem svífst einskis til þess að verja völd sín. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki stjórnmálaflokkur heldur hagsmunasamtök fjármagnseigenda og þar með er hann ekki fulltrúi sinna kjósenda heldur fólksins sem fjármagnar flokkinn sem stýrir þar með lagasetningum og stefnum hans.

Við erum aldrei að fara að breyta skoðun þessa fólks. Þeim finnst við vera óþekkur kommúnistaskríll sama hvað við segjum. Sama hversu mikinn skít blaðamenn grafa upp. Sama hversu augljóslega við afhjúpum vanhæfni þeirra. Sama hversu marga mánudaga í röð við mætum hingað og sendum þeim uppsagnarbréf í formi skilta.

En það sem við getum gert, og erum að gera, er að skrá okkur með mótmælum eins og í dag, í sögubækurnar. Skjalfesta að til var fólk á Íslandi árið 2014 sem var ekki sama. Sem var ekki sama um heiðarleika og mannréttindi. Um réttlæti og spillingu. Sem var ekki sama um stéttskiptingu og misskiptingu auðsins. Um rasisma og popúlisma. Sem andmælti augljósri vanhæfni og var tilbúið að láta í sér heyra.

Við erum staðfesting á því að við sjáum þig, Hanna Birna, við vitum að þú laugst, við vitum að lekinn er á þína ábyrgð, við vitum að þú fórnaðir rasistanum Gísla Frey á altari pólitísks frama þíns. Við erum að horfa á þig ljúga, Hanna. Ekki aðeins er ferli þínum í stjórnmálum lokið við næstu kosningu, heldur ert þú búin að svipta sjálfa þig allri æru. Orðspor þitt er ónýtt. Þú ert ærulaus hræsnari, lygari.

Við getum ekki lánað ykkur samvisku, við getum augljóslega ekki bent ykkur á villu ykkar vega, en við getum staðið hérna úti, sem samborgarar ykkar og sagt við þig „Hanna Birna, elsku systir, það er búið að draga frá. Segðu af þér.“

Þó svo að vera okkar hér í dag hafi ekkert annað í för með sér en að staðfesta að hér býr vakandi fólk sem lætur ekki vaða yfir sig á skítugum skónum þá hefur hún réttlætt sig. Við erum lifandi sönnun þess að á Íslandi bjó einu sinni gott fólk sem var tilbúið að láta á það reyna að með röddum sínum gæti það krafist breytinga. Við erum kannski þreytt, en við munum ekki þagna. Við munum ekki hætta. Við munum ekki gefast upp.

Þakka ykkur fyrir.“

bragi 2

Bragi Páll er ljóðskáld í Reykjavík. Ljósm. Þórhildur Sunna.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283