Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Laumufarþegar

$
0
0

Jónína Leósdóttir rithöfundur skrifar:

Sumir sjá fortíðina í rósrauðum bjarma og finnst allt hafa verið dásamlegt í denn. Öðrum reynist torvelt að gleyma því neikvæða, erfiðu fólki og sársaukafullri lífsreynslu, þannig að liðin tíð nær að skyggja á lífið hér og nú. Þetta geri ég einmitt að umfjöllunarefni í nýju skáldsögunni minni, Bara ef …

Sjálf reyni ég að líta sem minnst um öxl, nema þá til að ylja mér við góðar minningar. Ég vona þó auðvitað að mér hafi lánast að læra eitthvað af þeim mistökum sem ég hef gert um ævina. En fortíðinni fæ ég ekki breytt og þess vegna er best að burðast ekki með hana á bakinu langar vegalengdir.

Einstaklingar og atburðir frá fyrri tíð laumast þó oft bakdyramegin inn í hugskotið. Við erum með þetta allt í höfðinu, hvort sem okkur líkar betur eða verr, og jafnvel hvunndagslegustu hlutir geta óvænt kallað fram minningar. Örstuttu myndbroti eða setningu skýtur bara allt í einu upp, eins og loftbólu í glasi af sódavatni.

Þessi minningaskot tengjast oft ákveðnum athöfnum eða stöðum og þau geta líka kviknað í tengslum við lykt, bragð eða kunnuglega tónlist.

Ég hýsi alls kyns svona laumufarþega. Minningar sem spretta fram við vissar aðstæður, sumar meira að segja á hverjum einasta degi. Og einhverjar þeirra eru ekki einu sinni mínar eigin, heldur minningar annarra sem hafa tekið sér bólfestu í hausnum á mér.

Einn þessara aðskotafarþega tilheyrir til dæmis ritstjóra Kvennablaðsins sem ég heyrði einhvern tímann lýsa því að afi hennar eða amma hefðu lagt áherslu á að hún léti vatn renna á tannburstann áður en tannkremið færi á hann, ekki á eftir. Ég held að hugsunin bak við þessa reglu hafi verið hagsýni, þetta hafi verið varnaðarráðstöfun svo vatnið skolaði tannkreminu ekki af áður en burstinn kæmist upp í munn.
En hvað svo sem vakti fyrir afa/ömmu Steinunnar Ólínu, sem tekið skal fram að ég þekki ekki neitt, þá glymur þessi ráðlegging núna í höfðinu á mér í hvert sinn sem ég bursta tennurnar. „Ekkert vatn á burstann eftir að tannkremið er komið á.“ Og það þarf ekki einu sinni að vanda um þetta við mig, ég hef aldrei lagt í vana minn að sóa tannkremi.

Flesta laumufarþegana þekki ég þó eða þekkti persónulega. Þegar ég þvæ mér í framan hvíslar pabbi til dæmis að mér: „Notaðu kalt vatn, þá verður þú hrukkulaus eins og ég þegar þú eldist.“ Hann sagði þetta í hvert sinn sem hann sá mig munda þvottapoka.

Þegar ég hendi matarleifum í ruslið hvíslar mamma: „Guð fyrirgefi þér að henda mat.“ Þegar ég bölva vindhviðum, sem mælast í tugum metra á sekúndu, heyri ég móður æskuvinkonu minnar útlista að rok sé uppáhaldsveðrið hennar. Því hvassara, þeim mun meira hressandi, fannst henni. Og þegar ég hef skrifað „hins vegar“ bendir djúp rödd Silju Aðalsteinsdóttur ritstjóra mér á að betra sé að umorða setninguna. Laumu-Silju hefur þannig tekist að útrýma þessu algjörlega úr skrifum mínum.

Laumufarþegarnir luma sumsé yfirleitt á heilræðum eða hvatningu. En sumir eru léttari á bárunni en aðrir. Og sumir tala tungum.

Þegar ég stend hikandi frammi fyrir einhverju, sem mig langar í, minnir Fjóla föðursystir á sig á dönsku: „Skal der være gilde, så lad der være gilde.“ Og þessu fylgir minning um dillandi hlátur þessarar síkátu konu. En þegar letin ætlar að yfirbuga mig glymur rödd Ástu föðursystur á þýsku: „Du hast junge Beine.“ Þó á þetta vitanlega ekki jafn vel við í dag og þegar frænkan hvatti mig til að drattast úr sporunum á síðustu öld.

Laumufarþegarnir eru þannig hálfgerð hjálparsveit, stór og fjölskrúðugur hópur með endalaus hollráð á takteinum. Fólk sem segir mér til í dagsins önn, alveg óumbeðið.

Sem betur fer er enginn í þessum hópi fastur í eftirsjá eða biturleika. Enginn sem hvíslar hvað allt væri nú miklu betra „bara ef …“ ég hefði nú gert þetta eða hitt – ja, eða látið það ógert. Það er fen sem leitt er að festast í.

BARA EF ... kápa


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283