Síðustu vikur hef ég hugsað mikið um innflutning á hundum og þá helst einangrunina sem þeir þurfa að ganga í gegnum áður en þeir fá að fara heim til eigenda sinna. Ég hef velt fyrir mér hversu mikil þörf er raunverulega á einangrun og þá hvort að hún þurfi að vera svona löng. Ég vil taka það fram að ég er enginn sérfræðingur í þessum málum en hef þó mikinn áhuga á þessu ásamt velferð dýra almennt.
Hinn 18. júlí 2001 var settur á fót starfshópur á vegum embættis yfirdýralæknis til að meta áhættu á innflutningi gæludýra til Íslands og skilaði hann skýrslu í september 2002. Starfshópurinn ályktaði að einangrun væri nauðsynleg til að koma í veg fyrir að sjúkdómar bærust til landsins og ætti því einangrunin fyllilega rétt á sér. Starfshópurinn vann þó aðeins út frá tveimur leiðum, þ.e. óbreyttu ástandi með tilheyrandi einangrun eða alls engar sjúkdómavarnir. En eru til aðrar leiðir heldur en einangrun til að koma í veg fyrir að sjúkdómar berist til landsins með innflutningi á dýrum?
Í dag skilst mér að áður en hundur er fluttur til landsins þurfi hann að fara í fjöldann allan af bólusetningum og fá ormalyf fyrir alls konar ormum. Þeir hundar sem fluttir eru frá löndum þar sem hundaæði finnst eru bólusettir fyrir því. Eftir því sem ég kemst næst tekur bólusetningar- og ormahreinsunarferlið sem hundurinn fer í gegnum áður en hann leggur af stað til Íslands allt að tvo mánuði en eftir að hann kemur til landsins þarf hann einnig að fara í gegnum fjórar vikur af einangrun.
Margir muna eftir því þegar hundurinn Hunter slapp af Keflavíkurflugvelli þegar hann millilenti þar með eiganda sínum og stóð leit að honum yfir í u.þ.b. viku og fannst hann töluvert frá vellinum. Tveimur dögum eftir að Hunter fannst þá gaf Matvælastofnun út yfirlýsingu þess hljóðandi að Hunter hafi ekki borið með sér smitsjúkdóma. Af hverju þarf hinn venjulegi hundur að vera fjórar vikur í einangrun ef Matvælastofnun getur komist að því á tveimur dögum að hundur sé ekki smitberi?
Mörg lönd hafa lagt niður einangrun og tekið upp svokallaðan Pet Passport í staðinn. Pet Passport er eins konar vegabréf fyrir hunda sem virkar þannig að í vegabréfinu er númer örmerkingar dýrsins ásamt vottun frá viðurkenndum dýralækni að viðkomandi dýr hafi undirgengist nauðsynlegar bólusetningar og ormahreinsanir. Þau lönd sem nota Pet Passport geta hvert um sig sett sínar eigin reglur t.d. hversu margar bólusetningar og á hve löngum tíma hundurinn þarf að hafa verið meðhöndlaður áður en hann kemur til landsins.
Ef litið er á andlega velferð hunda eru margir hundar sem kæmu ekki vel út úr einangrun og tala ég þá helst út frá minni tík sem kæmi að öllum líkindum ekki heil til baka eftir að hafa verið fjarri því sem hún þekkir í fjórar vikur. Hún er lítil í sér og einstaklega háð mér og manninum mínum og myndi ég aldrei leggja á hana að fara í einangrun.
Ég hafði samband við Árna Stefán Árnason lögfræðing sem er með dýrarétt sem sérsvið og hann segir að ef dýraverndarsjónarmiðið er haft að leiðarljósi finnist honum ekki boðlegt að setja dýr í einangrun í 4 vikur og sé það andstætt velferðarsjónarmiðum dýravelferðarlaga. Hann segir að þeir sem hann hefur talað við segi að Pet Passport sé það sem muni koma fljótlega.
Til þess að Pet Passport geti orðið að veruleika þarf að breyta lögum í landinu sem snúa að innflutningi á dýrum (lög nr. 54/1990). Undanfarin ár hafa tvisvar verið lögð fram frumvörp á þingi til að breyta þessum lögum en hafa þau fengið litlar undirtektir.
Ég legg til, ásamt mörgum öðrum sem ég hef rætt við, að stjórnvöld setji saman nýjan starfshóp sem fyrst sem myndi þá skoða umrædd lög og vinna út frá öðrum leiðum en einangrun án þess að skera á allar sjúkdómavarnir til og frá landinu með innflutningi dýra. Lausnirnar eru til, það þarf aðeins að hafa vilja til að skoða þær.