Ég tók upp á því í sumar að hætta að borða kjöt. Það var engin sérstök ástæða fyrir þessari ákvörðun nema sú að ég hafði fyrir margt löngu hætt að borða svínakjöt og kjúklingakjöt. Eftir stóð nautaket og lambaket. Í sumar gekk ég svo skrefið til fulls og hætti alveg að borða dauð spendýr. Ég held að þetta hafi verið góð ákvörðun fyrir mig því mér líður betur, er sjaldnar slappur og þarf ekki að hugsa lengur um þyngdina og er pikkfastur í ákjósanlegri þyngd.
Ég borða hollari mat fyrir vikið því ég þarf að hugsa mig tvisvar um áður en ég elda. Ég borða miklu meiri fisk en annars var undarlegt hvað þetta var auðveld breyting. Pitsur borða ég sem fyrr fyrir utan ketið. Ég splæsi frekar í gómsæt þistilhjörtu eða súrsaðar paprikur og þar sem ég elda oftast á heimilinu hefur kjötneysla fjölskyldunnar snarminnkað.
Það er lítið um kvartanir en stundum sé ég á strákunum að þá langar í hamborgara eða kjötbollur. Þá splæsi ég í slíkt. Ég fæ sömu þörf stundum og dreplangar í brasaðan mat. Mitt uppáhald var satt best að segja „bandaríska eldhúsið“ og ég var bara heiðarlegur þegar ég viðurkenndi að uppáhaldsmaturinn minn væri sveittur borgari með stökkum frönskum og sósu. Brasaður borgari var því eiginlega það eina sem ég sá eftir varðandi þessa breytingu á mataræðinu mínu. En sem betur fer eru til grænmetisborgarar og það kom mér mikið á óvart hvað þeir eru ferlega góðir.
Ég fæ mér stundum slík stykki og þeir slá alveg á „ég-vil-borgara-strax-og-ekkert-kjaftæði-köstin“.
Grænmetisborgarar eru heil vísindagrein rétt eins og „venjulegir“ hamborgarar. Sumir eru slappir. Aðrir eru betri. Sumir snilld. Ég mæli t.d ekki með grænmetisborgaranum á American Style, en grænmetisgaurinn á McDonalds er frábær. Grænmetisborgarinn á Búllunni er stórkostlegur og það er beinlínis áþreifanlegt því
athugasemdir sem gestir staðarins hafa skilið eftir á veggjunum bera þess skýr merki. „Great veggie burger“ stendur stórum stöfum á nokkrum tungumálum frá þakklátum viðskiptavinum.
Það var svo í gær að ég bragðaði á besta grænmetisborgaranum í Reykjavík. Hann fæst á Brooklyn Bar sem er í Austurstræti. Þar er reyndar einhver girnilegasti borgaramatseðill Reykjavíkur en það er önnur saga. Í stuttu máli er grænmetisborgarinn frekar „hot“ og grillaður í grænu eggi (sem er önnur vísindagrein eldamennskunnar).
Hann er borinn fram með osti, káli og tómötum eins og hefðbundinn borgari. Svo er á honum sósa sem er akkúrat í réttu hlutfalli við annað. Stundum hættir kokkum nefnilega til að nota of mikla sósu. Ekki á Brooklyn bar. Þessu fylgdu svo grannar franskar. Alveg dúndur gott. Borið fram á fallegum diski og með kók í flösku.

Borgararnir á Brooklyn bar heita í höfuðið á frægum Brooklynbúum. Grænmetisborgarinn heitir Spike Lee
Ég var svo heppinn að ná tali af afgreiðslumanni sem sá hvað ég var ánægður með borgarann. Hann sagði mér frá innihaldinu og eftir því sem ég man best var innihaldið blanda af gulrótum, selleríi, hvítlauk, haframjöli og chilli … það var örugglega eitthvað meira en það var augljóst
– og þetta er lykilatriði –
að það var lögð ást, umhyggja og metnaður í grænmetisborgarann á Brooklyn bar. Brauðið var alveg nýtt og hvítt eins og vera ber og mér sýndist það vera penslað með smjöri að ofanverðu (virkilega girnilegt) og án sesamfræja. Það er eitt af þessum litlu atriðum sem skipta öllu máli.
Niðurstaðan eftir þessa máltíð er einföld. Besti grænmetisborgarinn í Reykjavík er á Brooklyn bar.