Ég var að ljúka mínu fyrsta misseri við Háskólann á Bifröst. Þetta hefur ekki gengið þrautalaust fyrir sig og allra síst fyrir konu sem er í hjónabandi með manni sem heldur að ég sé framhjáhaldið hans, en að hans sögn hefur hann verið hamingjusamlega giftur Orkusölunni í sjö ár, en haldið við mig í ein 15 ár. Í ofanálag á ég tvo hressa pilta sem finna sig iðulega knúna til þess að spyrja mig um öll heimsins vandamál um leið og þeir sjá mig glugga í bók eða reyna að hlusta á fyrirlestra.
Þegar líða tók að prófum fór maður að reyna að gyrða sig í brók og gera gott skipulag fyrir prófatíðina. Í ímyndaða heiminum fer ég alla morgna vel til höfð á námssetrið, sit bein í baki með greindarsvip við skrifborð meðan ég fletti íbyggin doðröntum sem geyma öll helstu leyndarmál hag- og stjórnmálafræðinnar.
Þess á milli drekk ég kaffi með skemmtilegu fólki, hlæ að nýjustu bröndurunum og hneykslast á ríkisstjórninni og eys úr nýtilkomnum viskubrunni mínum í þeim efnum. Í þessum heimi er ég líka grönn, sjáið til.
Í raunheimum var þetta ekki svona.
Þetta byrjaði voða vel. Ég mætti með heimalagað kaffi og doðrantana og byrjaði að lesa. Eftir hálftíma fattaði ég að ég er algjör fáviti og allt námsefnið var jafn framandi og það var á haustmánuðum. Í stresskasti reif ég upp tölvuna og leitaði eins og brjálæðingur að fyrirlestrunum frá prófessorunum meðan ég reyndi að fletta í gegnum bækurnar samhliða. Það er vont að fatta að lesefnið eru mörg hundruð blaðsíður af efni og fyrirlestrarnir slaga í 20 klukkustundir og þú ætlaðir bara að vera settlegur í upprifjun í 7 klukkustundir.
Að auki þá er sumt af þessu á ensku og kommon, það er ekki nóg að státa af „góðri“ enskukunnáttu eftir að hafa hlustað á misgóðar hljóðbækur um stælta milljónamæringa og sætu konurnar þeirra. Þetta er EKKI það sama. Bara svona fyrir þá sem eru að velta því fyrir sér. Nei, það er ekki nóg.

Verðteygni, verðvíxlteygni, Giffen, Veblen, jafnvægispunktur, framboðslína, hliðruð framboðslína, kostnaðarfall, eftirspurnarfall, rekstrarhagfræðiprófafall…ÁFALL ….
Kaffibollarnir verða 20, sígaretturnar ábyggilega fleiri, hárið úfið og maskarinn úti á kinn þegar það er kominn tími til að sækja börnin. Eftir búðarferð, eltingarleik, feluleik, kjötbollur og baðferð sem endar með skúringum byrjar piltur nr. 1 að æla.
Eiginmaðurinn tilkynnir nánast áður en gusan er lent að Orkusalan gangi fyrir og meðan við þráttum um veikindadaga barna og tætum utan af rúminu færir pilturinn sig í næsta rúm og ælir í það. Áður en yfir lauk var hann búinn að ná þremur rúmum og pissa utan í mig. Ég var heima daginn eftir að reyna að læra með piltinn sem var hinn hressasti.
Ég ósofin enn þá með framandi efni í höndunum að reyna að lesa OG horfa á Hvolpasveit í sjónvarpinu sem mögulega er leiðinlegasta barnaefni sem framleitt hefur verið. Í ofanálag var ég að verða veik og enda daginn í fallegum faðmlögum við Gustavsberg og meðan ég tæmi innihald magans með óhljóðum standa piltarnir fyrir utan baðherbergisdyrnar og öskra að þeim sé mál.
Meira varð ekki um próflestur þann daginn.
Pilturinn fer á leikskólann daginn eftir og ég á námssetrið. Eftir hálftíma fatta ég að ég hef gleymt aðalbókinni. Fer og sæki hana. Á leiðinni til baka fæ ég símtal frá heilsugæslunni, ég á að vera mætt í röntgen. Mæti þangað. Fer út á námssetur og byrja að lesa Íslenska stjórnkerfið. Sofna. Ég sofna ALLTAF yfir þessari bók. Er vakin af öðrum nema sem stingur upp á að ég komi mér upp verðlaunakerfi, t.d. límmiðabók, það muni hjálpa mér við að halda mér vakandi. Sláandi góð hugmynd. Fer aftur í tölvuna.

Starfsfólk Austurbrúar (námsetrinu) náði þessari mynd af mér á dögunum þar sem ég þóttist vera að lesa Íslenska stjórnkerfið.
Eftir smástund fatta ég að öll skjölin í tölvunni minni eru horfin. Hringi í sérfræðing sem segir mér að endurræsa hana. Geri það. Hún byrjar að uppfæra sig. Það tók tvo tíma. Fatta allt í einu að ég hef ekki borðað í átta tíma. Pakka niður og fer og sæki mér samloku í hraðbúðinni sem er á síðasta séns.
Heima er allt á hvolfi og ég er búin að vera heima í smástund þegar piltur nr. 2 byrjar að æla og það rúgbrauði og síld. DAUÐI OG DJÖFULL.
„Það eru mikilvægar tilraunir á morgun hjá Orkusölunni“ tilkynnir eiginmaðurinn og örlögin eru ráðin.
Daginn eftir er ég heima með barn sem segir mér á 10 mín. fresti að það sé glatað að vera heima, ekkert að gera og ég sé leiðinleg. Hressandi. Upp úr hádegi er ég búin að setja í þrjár þvottavélar, skúra forstofuna, kemba kettinum, púsla og endurraða í fataskápnum mínum.
Fröken frestunarárátta er mætt í sinni alverstu mynd. BING! Tölvupóstur. Lánasjóður íslenskra námsmanna sendir mér línu þess efnis að ég verði að skila inn endanlegri tekjuáætlun annars verði ekkert námslán borgað út. Ég bilast úr stressi … HA … HVERNIG GERIR MAÐUR ÞAÐ AFTUR? Jú, heimabankinn. HVAR ER AUÐKENNISLYKILLINN? Eftir hálftíma leit finn ég hann. Kemst inn á „mínar síður“ og finn allt þetta dót.
Nei, ég verð að fara inn á skattinn og finna skattskýrsluna. HVERNIG GERI ÉG ÞAÐ? Ó, það þarf auðkenni. HVAR ER ÞAÐ? Róta í klukkutíma í blaðaskúffunni þegar ég man að það er hægt að nálgast hann í heimabankanum. DÖH. Þegar ég er búin að því kemst ég að því að ég er með mun hærri tekjur en ég má hafa. BUGUN. Og í ofanálag kann ég ekkert, veit ekkert, skil ekkert og þetta er BÚIÐ.
Síðustu dagana drakk ég bara kaffi, át snakk og nammi og var hætt að setja á mig maskara. Götóttar teygjubrækur, neonlitaðir sokkar og hressilegar sjö stressbólur prýddu smettið á mér. Útlitslega séð var ég á botninum.
Ég er búin í prófum. Nötrandi og skjálfandi með skeifu á andlitinu staulast ég út úr því síðasta. Martraðir taka við þar sem ég sé lokaeinkunnir á borð við kvarðarótina af 3, sem er sláandi lítið, kennarar að æpa á mig og segja mér að það verði aldrei neitt úr mér og ég eigi bara að halda mig við heimilisstörf og frímerkjasleikingar í lokuðu rými.
Ég hefði aldrei getað þetta nema fyrir elsku tengdamóður mína sem sótti börnin í tíma og ótíma, mömmu og syssu sem pössuðu og gáfu mér að éta. Starfsmenn Austurbrúar sem glöddu mig reglulega með kaffisamverum og svo tengdafjölskylda bróður míns sem bjargar mér reglulega fyrir horn.
Og ekki má gleyma fallegu og góðu vinum mínum í náminu sem tóku við bugunarskilaboðum og grenjusímtölum. Takk öll, þið eruð æði og GLEÐILEG JÓL, ALLIR NEMAR LANDSINS.