Kvennablaðið kynnir næstu daga nokkra listamenn og verk þeirra. Fyrst í röðinni er Linda Ólafsdóttir en hún hefur starfað sjálfstætt við myndlist og myndskreytingar frá árinu 2009 eftir að hún útskrifaðist með MFA gráðu í Illustration frá Academy of Art University í San Francisco.
Linda hefur tekið þátt í fjölda samsýninga og haldið einkasýningar í Reykjavík og San Francisco og hlotið ýmsar viðurkenningar og verðlaun fyrir myndskreytingar, bækur og málverk, má þar helst nefna tilnefningu til Astrid Lindgren Memorial Awards 2014 og Vorvinda viðurkenningu Ibby 2014.
Kvennablaðið spurði Lindu út í starf hennar og hvar hjarta hennar slær.
„Ástríðan er að myndskreyta barnabækur! Síðustu ár hef ég myndskreytt fjölda bóka fyrir íslenskar og erlendar útgáfur. Þar á meðal eru tvær bækur sem eru nýútkomnar, þær Mói Hrekkjusvín- misskilinn snillingur eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur (Forlagið) og Töfraflautan eftir Mozart, skrifuð af Eddu Austmann (Töfrahurðin).
Aðrar útgefnar bækur með myndum eftir mig eru m.a. Krummahöllin eftir Björn Daníelsson, Lestrarlandið, Mói Hrekkjusvín – kúreki í Arisóna, Thumbelina og Princess and the Pea gefin út af Sterling Publishing, USA.“
Kvennablaðið vil vekja athygli á eigulegu dagatali sem Linda hannaði og teiknaði fyrir árið 2015. Þemað eru fuglar og má finna fuglamynd í hverjum mánuði sem tengist árstíðinni á einhvern hátt. Dagatalið kemur í 12 örkum með silfraðri klemmu til upphengingar, en það er einnig prentað á nógu þykkan pappír til að standa í hillu eða á borði eitt og sér.
„Þegar mánuðirnir líða einn af öðrum þá er hægt að klippa myndina frá dögunum og nota hana fyrir kort, setja í ramma eða nota sem frisbí“ segir Linda.
Dagatalið er í stærð 14x23cm og er á 3500kr. stk., en á 3000kr ef keypt eru fleiri en eitt stk. Linda sendir frítt í des og jan og hægt er að panta með því að senda Lindu línu á: linda@lindaolafsdottir.com eða í message á Facebook.
„Einnig verð ég með fría sendingu í des á eftirprenti af Afmælismyndinni minni en hana málaði ég til að auðvelda dóttur minni biðina eftir afmælisdeginum sínum. Flestir kannast við það hversu erfitt það getur reynst smáfólkinu að bíða eftir stóra deginum.
Það er þá hægt að ferðast saman um tréð til að gera sér betur grein fyrir því hvernig mánuðunum líður og læra um árstíðinar um leið og maður bíður eftir afmælismánuðinum. Prentið kemur í A3 og er á 4000kr. stk.“
Hér má skoða verk Lindu Ólafsdóttur nánar:
Ljósmynd af Lindu er eftir Hara.