Því ber að fagna að forsætisráðherra tjáði okkur á dögunum að utanríkisráðuneytið sé að hefja rannsókn á því hvort Ísland „hafi verið misnotað“ sem millilendingarstaður fyrir fangaflug bandarísku alríkisþjónustunnar á árunum 2001 til 2007. Það ber þó að varast að falla í sömu gryfju og í síðustu „rannsókn“ þar sem starfshópi úr röðum utanríkisráðuneytisins þótti of „kostnaðarsamt“ og „óraunhæft“ að reyna að komast að því hvort fangar hefðu raunverulega verið um borð í þeim fjölda flugvéla sem tengdar voru við fangaflug Bandaríkjamanna og millilentu aðallega í Keflavík. Rannsóknin skilaði því engum haldbærum niðurstöðum og yfirvöld tóku alfarið fyrir að rannsaka það eitthvað frekar.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi utanríkisráðherra, setti þessa fyrri skoðun af stað sumarið 2007 í kjölfar þess að Ísland var nefnt sem lendingarstaður fangafluga í skýrslu Evrópuráðsþings um þátttöku evrópskra ríkisstjórna í fangaflugi og leynifangelsum Bandaríkjamanna. Rannsóknin var þó ekki vandaðari en svo að skýrsla starfshópsins staðfesti einungis það að flugvélar sem gætu hafa verið að stunda fangaflutninga á vegum CIA hefðu farið um íslenska lofthelgi og millilent á íslenskum flugvöllum en höfundar hennar kváðust alls ekki geta sannreynt það. Þess má geta að rannsóknin er óbirt og ekki opin almenningi nema með formlegri beiðni um aðgang en lesa má ágætis samantekt um skýrsluna í fimmta kafla meistararitgerðar Valgerðar Guðmundsdóttur í lögfræði.
Skýrsla Evrópuráðsins um fangaflug kom fyrri rannsókn af stað, eða hvað?
Þegar Wikileaks birti skeyti frá bandarísku utanríkisþjónustunni („diplomatic cables“) kom í ljós að stuttu eftir að Ingibjörg Sólrún tilkynnti um fyrirhugaða rannsókn á meintu fangaflugi áttu starfsmenn bandarísku og íslensku utanríkisþjónustunnar samtal um fréttatilkynninguna. Þeim ber þó ekki saman um innihald samtalsins.
Í skeytinu segir að starfsmennirnir hafi sagt Bandaríkjamönnum að það væri alls ekki ætlunin að rannsaka málið af alvöru. Starfshópurinn og skoðun hans var sögð æfing í gagnsæi, ætluð til þess að friða stjórnarandstöðuna og friðarsinna innan Samfylkingarinnar. Þetta er haft eftir Finni Þór Birgissyni og Friðriki Jónssyni, sem áttu að hafa orðað það sem svo að rannsókninni væri ætlað að láta stjórnvöld virðast vera að gera eitthvað til þess að vængstýfa Steingrím J. Sigfússon, sem hafði gagnrýnt stjórnvöld harkalega fyrir aðgerðaleysi vegna fangafluganna.
Í samskiptum við Kvennablaðið sagðist Friðrik Jónsson ekkert skilja í því hvers vegna umrætt skeyti hafi ratað til Washington og kannast ekki við að hafa notað orðalagið í skeytinu. Friðrik tekur fram að skeytið sé líklega að vísa í óformlegan hádegisverðarfund þar sem nýútkomin fréttatilkynning utanríkisráðherra hafi borið á góma:
„Meint ummæli mín í því samhengi sem vitnað er til í bréfi sendiráðsins voru ekki önnur en þau að hugsanlega hefðu skjót viðbrögð ráðuneytisins í því að senda út fréttatilkynningu einnig þann innanlands pólitíska tilgang að koma í veg fyrir að ráðuneytið og nýr ráðherra yrðu sökuð um að draga lappirnar. Með því að senda fréttatilkynningu út strax um að málið yrði tekið til nánari skoðunar væri frumkvæði slíkrar athugunar hjá utanríkisráðuneytinu og utanríkisráðherra. Ekki tel ég að slíkar vangaveltur hafi í neinu dregið eða gert lítið úr væntanlegri nánari skoðun á málinu. Mig rekur ekki minni til að í þessu samtali hafi nokkuð verið sagt sem hafi gefið viðkomandi starfsmönnum tilefni til þeirra ályktana sem þú vísar til og raunar sérkennilegt að til slíks samtals sé vísað í greinargerð til ráðuneytisins í Washington.“
Síðar í umræddu skeyti stendur þó að ónafngreind kona, titluð mannréttindaráðgjafi ráðuneytisins, hafi einnig kallað fyrirhugaða skoðun æfingu í gagnsæi. Hún hafi bent starfsmönnum bandaríska sendiráðsins sérstaklega á orðalag fréttatilkynningar um fyrirhugaðan starfshóp þar sem í stóð að um „skoðun“ væri að ræða frekar en rannsókn og að eðli málsins samkvæmt hefði starfshópurinn enga áætlun hvað þá lagalegar heimildir til þess að standa að formlegri rannsókn.
Kristrún Heimisdóttir kom rannsókn starfshópsins til varnar
Þess ber að geta að þegar umrætt skeyti komst í hámæli sagði Kristrún Heimisdóttir, aðstoðarmaður þáverandi utanríkisráðherra, í viðtali við Pressuna að Friðrik hafi skáldað í eyrun á Bandaríkjamönnum til þess að róa þá:
„Fólk hafði vanið sig á að stilla sig inn á ímynduð pólitísk markmið ráðherra sem voru oft algjör misskilningur sem þurfti að vinda ofan af. Við réðum bug á þessu með almennri upplýsingagjöf til allra, ekki bara þeirra sem sátu hæst á kvistum. Það traust skilaði sér í liðsheild sem til dæmis lak ekki – eftir því sem ég best veit!“
Þá sagði hún starfshópinn alls ekki tengjast gagnrýni Steingríms J. Sigfússonar:
„Aðgerðir utanríkisráðuneytisins hófust í júní 2007 en Steingrímur J. Sigfússon lagði sína fyrirspurn um fangaflugið fram fimm mánuðum síðar eða í nóvember 2007. Aðgerðir ráðuneytisins höfðu því ekkert með málflutning Steingríms að gera.“
Þó kemur fram í sama skeyti að skýrsla í fréttaumfjöllun um skýrslu Evrópuráðsþingsins hafi Steingrímur J. Sigfússon kallað eftir rannsókn á þætti Íslands í fangafluginu sem og hlutverki NATO í þeim efnum. Þá krafðist Steingrímur ítrekað rannsóknar á meintum fangaflugum þegar þau komust fyrst í umræðuna árið 2005. Steingrímur hafði því lagt inn nokkrar fyrirspurnir á þingi um málið löngu áður en skýrsla Evrópuráðsins kom út og gerði sig líklegan til þess að gera mikið veður út af skýrslunni ef ekkert yrði að gert.
Í lok viðtalsins við Pressuna sagði Kristrún svo að þó að staðfest hafi verið að grunsamlegar vélar hafi lent á Íslandi þá:
„ [Yrði] aldrei hægt að staðfesta með óyggjandi hætti að fangaflug hafi lent hér nema með samvinnu Bandaríkjamanna – eða auðvitað að upp komist með leka eða öðru.“
Skeytin segja aðra sögu
Auðvitað er það rétt hjá Kristrúnu að slíkar upplýsingar gætu einungis fengist með samvinnu Bandaríkjamanna. Á móti kemur að utanríkisráðuneytið virðist ekki einu sinni hafa haft fyrir því að spyrja Bandaríkjamenn hvort svo hefði verið. Í umræddu skeyti kemur fram að engar formlegar fyrirspurnir hafi borist bandaríska sendiráðinu frá því 2005 þegar fangaflugin komust fyrst í hámæli. Þar stendur einnig að Geir H. Haarde hafi ítrekað sagt svör Condolezza Rice, þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjamanna, fullnægjandi í þeim efnum.
Annað skeyti var síðan sent til Washington í október 2007 þegar niðurstaða starfshópsins kom út og þar er hvergi minnst á að formleg fyrirspurn hafi borist bandaríska sendiráðinu á Íslandi varðandi fangaflug. Þar kemur einnig fram að Ingibjörg Sólrún hafi sagt það ómögulegt að sannreyna hvort fangar hafi í raun verið í flugvélunum sem bendlaðar hafa verið við fangaflug Bandaríkjamanna en að ætlunin sé að leita í grunsamlegum flugvélum framvegis. Höfundur skeytisins ályktar að Ingibjörg hafi þannig róað samflokksmenn sína og stjórnarandstöðuna varðandi mögulega samsekt Íslendinga á pyntingaflugum Bandaríkjamanna en einnig tekist að tryggja að samband Íslands og Bandaríkjanna „eyðileggist ekki“.
Í febrúar 2008 var sent enn eitt skeyti þar sem fram kom að Ingibjörg Sólrún hafi lýst því eindregið yfir að engar frekari rannsóknir muni fara fram á fangaflugunum að svo stöddu. Höfundur skeytisins ályktar síðan að þessi staðhæfing gefi sterklega í skyn að Ingibjörg telji sig nokkuð örugglega geta forðast að rannsaka þátt forvera hennar í mögulegu fangaflugi. Skeytið víkur engu orði að formlegum fyrirspurnum frá íslenskum yfirvöldum varðandi málið og í öðrum skeytum um Ísland þar sem til dæmis er að finna frásagnir af nokkrum fundum Ingibjargar Sólrúnar og Geirs H. Haarde með háttsettum bandarískum embættismönnum, er ekki vikið einu orði að fangaflugi, svo ekki hefur það legið þungt á forystu ríkisstjórnarinnar.
Ómögulegt eða óreynt?
Það verður auðvitað að segjast að það gæti vel verið að Ingibjörg Sólrún eða starfsmenn utanríkisráðuneytisins hafi lagt inn formlega fyrirspurn um málið, eða óformlega ef því er að skipta, en þess er hvergi getið í diplómatískum skeytum Bandaríkjamanna um Ísland. Einnig minnist skýrsla starfshópsins ekki á að slíkt hafi verið gert og því allar líkur á því að þau hafi látið það eiga sig. Að mati höfundar var „skoðun“ starfshópsins því yfirborðskennd og ekki ætluð til þess að sannreyna hvort fangaflug hafi raunverulega farið í gegnum íslenska lofthelgi og ef svo væri, hver bar ábyrgð á því. Það sést best á því að skoða niðurstöður starfshópsins sjálfs.
Auðvitað er það svo að það er ekki alfarið að marka diplómatísk skeyti frá sendiráði Bandaríkjanna í Reykjavík og þeirra túlkun á því sem ákveðnir embættismenn innan íslensku utanríkisþjónustunnar áttu að hafa sagt. Þá er heldur alls ekki ljóst hvort umræddir starfsmenn hafi sagt bandarískum kollegum sínum sannleikann frekar en það sem þeir héldu að þeir vildu heyra, eins og Kristrún kom inn á í viðtali sínu við Pressuna. Nú eða þá hvort utanríkisþjónustan bandaríska hafi einfaldlega ákveðið að skreyta sannleikann svona rækilega í skeytaskrifum sínum til herranna í Washington. Eftir stendur að rannsóknin var samt sem áður handónýt, leitaðist (að öllum líkindum) ekki eftir svari frá Bandaríkjamönnum og lagði sig ekki fram við að skoða hverjir innan íslenskrar stjórnsýslu hefðu getað átt þátt í millilendingum fangafluga hérlendis. Það er erfitt að segja til um hvort rannsóknin hafi vísvitandi verið yfirborðskennd og ófullnægjandi til þess að þagga niður í Steingrími og friðardúfum innan Samfylkingarinnar eða hvort að um týpískt íslenskt getuleysi hafi hreinlega verið um að ræða. Eitt er víst en það er að mögulegur þáttur Íslendinga í pyntingaherferð Bandaríkjamanna var alls ekki tekinn nógu alvarlega hérlendis.
Hvað ber að gera nú?
Nú þegar Bandaríkjamenn hafa sjálfir viðurkennt pyntingaherferð sína opinberlega gefst ráðamönnum á Íslandi gullið tækifæri til að komast endanlega til botns í því hvernig þessum málum var háttað. Opinber útgáfa skýrslunnar sem útlistar hryllinginn sem framinn var í nafni stríðsins gegn hryðjuverkum gefur ekki upplýsingar um þátttöku einstakra ríkisstjórna í stríðsglæpum þeirra vestra en þær má væntanlega finna í óritskoðaðri útgáfu hennar. Forsætis- og utanríkisráðherra væri því í lófa lagið að óska eftir að fá aðgang að þeim hluta skýrslunnar er snýr að Íslandi. Þá ber að hafa í huga að Utanríkisráðuneytið rannsakar almennt ekki glæpi og hefur ekki sömu heimildir og lögregla og ákæruvaldið til rannsóknar mögulegs refsiverðs athæfis. Því væri ekki úr vegi að sjá til þess að starfshópur nýrrar rannsóknar hafi slíkar heimildir í þetta sinn. Það væri flott að reyna allavega í þetta skiptið.
Íslenskir ráðamenn mættu líka styðja þingsályktunartillögu Pírata um að fordæma pyntingaherferð Bandaríkjamanna. Þá mætti ríkissaksóknari alveg skoða hvort ekki væri ráðlegt að gefa út ákæru fyrir stríðsglæpi á hendur þeim Dick Cheney og George W. Bush og fleirum sem báru ábyrgð á pyntingastefnu Bandaríkjamanna, eins og okkur ber í raun skylda til samkvæmt alþjóðasáttmálum um bann við pyntingum, stríðsglæpum og glæpum gegn mannkyni. Svona til þess að taka þá stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni sem Bandaríkjamenn hafa framið alvarlega einu sinni.