Mig langar til að bjóða ykkur með mér í ferðalag. Bara örstutt. Aftur til bernskujólanna minna. Þau einkenndust mjög af klístruðum fingrum. Leyfið mér að útskýra. Ég ólst upp við það að laufabrauðið væri borðað með sírópi. Öllum stundum. Því voru litlir fingur oft mjög svo klístraðir.
Aðfangadagur rann upp, með kátínu og tillhlökkun. Barnatíminn í sjónvarpinu var alger hátíð og ég man enn svo sterkt kitlandi gleðina í brjóstinu þegar maturinn var borinn á borð. Rjúpan angaði af jólum, kartöflurnar í sparisykurgallanum, rauðrófusalatið skemmti bragðlaukunum, sósan, rifsberjasultan og toppurinn var svo að fá sér góða laufabrauðsköku með hæfilega miklu sírópi. Og það var ákveðin list.
Kakan mátti ekki vera með of mörgum götum, því þá lak sírópið niður. Ég reyndi því ætíð að finna kökurnar sem ég sjálf skar, þar var ekki mikið um skrautútskurð, því sírópið átti sinn sess. Svo var bara að koma þessu upp í sig með rjúpnabitunum og fá sér svo aðeins meira. Enn hefur mér þó ekki tekist að fullkomna þá iðju að láta ekkert síróp leka niður, enda eru klístraðir fingur hluti af upplifuninni.
Ég man enn þá hvað ég var hissa þegar ég uppgötvaði að það borðuðu alls ekki allir síróp á laufabrauð. Í raun mikill minnihluti fólks. Ég bara skildi þetta alls ekki. Enn kemur mér á óvart að fólk kannist ekkert við þetta. Eins fáránlega gott og þetta er.
Eftir að ég eltist fór ég að grennslast fyrir um þennan sérstaka sið. Ég komst að því að hann er kominn frá æskuheimili móðurömmu minnar, sem var heimili fósturforeldra hennar á Kópaskeri. Hve langt aftur þessi siður nær veit ég ekki. Veit það eitt að góður er hann.
Síðan átti ég móðurafa sem var mikill sælkeri og hann hefur örugglega gert sitt í því að viðhalda þessu. Þessi hefð hefur síðan fylgt þeirra afkomendum þó ekki séu allir jafn hrifnir af þessu og ég. En hvorki rjúpan né hangikjötið bragðast eins vel og þegar sírópskleprað laufabrauðið fylgir með upp í munn.
Núna á mínu heimili er ætíð sírópsdós við hlið laufabrauðsins. Krakkarnir mínir eru svona mishrifnir af þessu og borða þetta svo sem ekki í því mæli sem ég geri. Enda er ég í góðri æfingu. En athugið, það er sko ekki sama hvaða síróp. Það er bara ljónasírópið sem kemur til greina. Þið vitið, þetta í grænu áldósinni. Reyndar hef ég aðeins svikið þessa hefð og keypt þetta síróp í svona flösku sem hægt er að kreista, það dregur aðeins úr subbuskapnum.
En bara það að finna lyktina af sírópi fer með mig aftur til æskunnar, og ég tala nú ekki um þegar fingurnir klístrast aðeins og hárið jafnvel festist í sírópsleifunum í andlitinu. Þá eru sko komin jól!
Læt þessum óði til sírópsins lokið. Skora á ykkur að prófa. Byrjið bara rólega, ekki setja of mikið af sírópi strax, þá kæfir það laufabrauðið og veldur töluverðum sykurhrolli. En ég fyrirgef ykkur alveg ef þið treystið ykkur ekki í þessa upplifun.
Hún er kannski meira bara fyrir atvinnumenn … þá sem ólust upp með sykurklístraða fingur.
Gleðileg jól!