Samkvæmt fréttum Bændablaðsins flutti Mjólkursamsalan inn tæplega átta tonn af osti árið 2009 og notaði til bræðsluostagerðar. Hvergi var neytendum greint frá þessu og má ætla að því hafi visvítandi verið haldið leyndu, enda gerum við ráð fyrir því að framleiðsluvörur Mjólkursamsölunnar séu íslenskar afurðir.
Nú er annað komið á daginn og hefur formaður Bændasamtakanna, Sindri Sigurgeirsson, sett fram þær óskir að upprunamerkingar séu gerðar að reglu hér á landi og er það vel.
Við neytendur eigum heimtingu á að vita hvað er í þeim vörum sem við neytum daglega og mál til komið að neytendur láti til sín taka. Neytendur geta nefnilega með sameiginlegu átaki haft áhrif á vöruframleiðslu og vöruverð og það er til mikills að vinna. Við eigum ekki að láta bjóða okkur að fyrirtæki komist upp með að auka framlegð sína á okkar kostnað.
Í fréttatilkynningu sem Mjólkursamsalan sendi frá sér, eftir að formaður Bændasamtakanna lýsti óskum sínum og áhyggjum í viðtali við Ríkisútvarpið, segir:
Mjólkursamsalan styður hugmyndir formanns Bændasamtakanna, sem fram komu í Ríkisútvarpinu í morgun, um að setja þurfi skýrar reglur um upprunamerkingar matvæla hér á landi. Slíkar reglur hafa ekki verið til. Mjólkursamsalan leggur áherslu á að vinna eingöngu úr innlendri mjólk. Hinsvegar þegar um er að ræða samsett matvæli eru notuð stoðefni, bragðefni og íblöndunarefni sem óhjákvæmilegt er að flytja inn til matvælavinnslu. Og nýjar reglur um uppruna þurfa að taka mið af slíkum aðstæðum.
Við spyrjum: hvaða stoðefni eru notuð, hvaða bragðefni, og hvað er í þessum íblöndunarefnum? Því verður MS að svara. Í fréttatilkynningu MS segir ennfremur:
Það er meginstefna Mjólkursamsölunnar að upplýsa neytendur um framleiðsluhætti og öll frávik. Á undanförnum fimm árum hefur Mjólkursamsalan í tvígang notað innflutt mjólkurhráefni. Annars vegar árið 2013 þegar félagið notaði um 80 tonn af erlendu smjöri sem hlutahráefni í nokkrar tegundir vinnsluvara. Það eru um 0,06% af heildarmjólkurhráefni þess árs og áður en það var flutt inn var gerð grein fyrir því í fréttum til hvaða vöruflokka hráefnið yrði nýtt í samræmi við stefnu félagsins um upplýsingar. Ástæða þessa innflutnings var fordæmalaus aukning í neyslu fituríkari matvæla og samdráttur í mjólkurframleiðslu í landinu.
Við gerum athugasemd við þetta orðaval, þ.e. orðið meginstefna. Á það ekki að vera skilyrðislaus krafa til fyrirtækja að þau upplýsi neytendur á gagnsæjan hátt? Væri ekki eðlilegra að MS gerði það að ófrávíkjanlegri reglu, en ekki bara „meginstefnu“, að upplýsa neytendur um framleiðsluhætti og öll frávik?
Mjólkursamsalan hefur lýst sig reiðubúna til samræðna og samstarfs um mótun skýrra og hagkvæmra reglna um upprunamerkingar og tekur undir hvatningu um að sú vinna hefjist sem fyrst. Er þetta fyrir tilstuðlan formanns Bændasamtakanna. Nú ríður á að að neytendur fylgist grannt með þessu máli og hafi vökult auga með starfsháttum Mjólkursamsölunnar.
Kvennablaðið bendir barnafólki, sem kaupir mikið af vörum frá Mjólkursamsölunni, á að kynna sér vel og vandlega merkingar á vörum eins og skyri og jógúrt. Teitur Atlason skoðaði þessar vörumerkingar ofan í kjölinn í pistli sínum hjá DV fyrir nokkru og þar kom ýmislegt í ljós sem þarfnast nánari skoðunnar.
Teitur athugaði sérstaklega aðferðir MS sem markaðssetur mikið af sínum vörum eins og um sælgæti sé að ræða. Hér er linkur á pistil hans, Tímasprengja í jógúrtdósinni?
Sykurmagnið í þeim mjólkurvörum, sem daglega eru á borðum langflestra barnafjölskyldna, tekur engu tali. Hvers vegna þarf þetta að vera svona? Getum við foreldrar ekki gert þá kröfu að eiga kost á mjólkurvörum sem innihalda minni sykur og sem eru ekki sættar með erfðabreyttri maissterkju eða öðrum sætuefnum?
Engar vísindalegar sannanir eru fyrir því að sykur hafi áhrif á geðslag barna, þótt margir foreldrar hafi reynslu af öðru, en sykur er fitandi og óþarfi að ala upp sætabrauðsdrengi og stúlkur að óþörfu þegar offita er vaxandi heilbrigðisvandamál, hér eins og annarsstaðar. Hvers vegna er svona erfitt að kaupa sykurlausar mjólkurvörur á Íslandi?
Hvers vegna eru þær vörur sem MS framleiðir, margar hverjar, jafn sætar og gosdrykkir og þar af leiðandi engu skárri kostur?