Margrét Kjartansdóttir skrifar frá Indlandi:
Það er ekki hægt að heimsækja Indland án þess að verða fyrir miklum og sterkum áhrifum af þúsunda alda gömlu sögunni, íburðarmiklum trúarmusterunum, hefðunum, litadýrðinni, lyktinni, gleðinni og fólkinu, áhrifin af landi og þjóð eru gædd einstökum töfrum sem eiga engan sinn líka.
Ég fór fyrst til Indlands árið 1994, síðan hef ég farið ótal ferðir til þessa menningarsamfélags sem er endalaust gefandi, fræðandi, andlega nærandi og skemmtilegt. Indverjar eru friðsælt og fallegt fólk, þeir eru glaðlegir í viðmóti, segja aldrei nei og Guð er þeim jafn raunverulegur og náinn og synir þeirra og dætur. Það getur verið frústrerandi að skilja þankagang þeirra en það er ekki til umræðu hér og nú.
Því hefur hagað þannig til í lífi mínu síðustu misserin að ég hef dvalið vetrarlangt í fjallahéraði í Rajasthan. Ég bý við nokkuð góð skilyrði á indverska vísu, er með ágætis herbergi með baði, en ég þarf ekki annað en að gægjast út fyrir hliðið á heimilinu sem ég bý á til að komast í samband við hið sanna indverska sveitalíf. Hér er flest eins og það hefur verið síðustu aldirnar, konurnar klæðast litskrúðugu sari, þær bera birgðir sínar á höfðinu, jafnvel með barn í fangi og alltaf halda þær jafnvægi og eru fallegar og tígulegar í fasi.
Þær eru mjög snyrtilegar á þeirra eigin hátt, flestar búa þær á moldargólfum og við sólarupprás byrja þær á að sækja eldivið, síðan er sópað vel og taktfast í kringum moldarkofann svo að rykið þyrlast upp. Þær elda matinn utandyra og sömuleiðis þvo þær matarílátin fyrir framan kofann, þvottinn fara þær með niður að læk, en svo koma þurrkar og þá er enginn lækur og þvotturinn verður að bíða.
Ég nýt þess að rölta um þessi þorp, börnin eru mörg og þau eru sátt og glöð, yngsta barnið situr oftast á handlegg móðurinnar og næstyngsta barnið hangir í pilsfaldinum. Þegar pilsfaldinum sleppir byrja stúlkurnar að hjálpa til við heimilisstörf en drengirnir sparka bolta eða elta heimatilbúinn flugdreka. Aldrei sé ég rellandi börn eða vanstillt, þau eru brosmild og það örlar á dálítilli feimni við þessa skrítnu konu sem þau eru þó farin að kannast við og sum þeirra þekkja mig betur og kalla mig Antie (frænku).
Í einum af þessum göngutúrum mínum rakst ég á listamann sem var að mála myndir og götuskilti, hann talaði smávegis í ensku svo ég tók hann tali og þá fór hann að segja mér frá því að fyrir rúmu einu ári hefði hann verið að missa sjónina. Hann fór til læknis sem tjáði honum að hann væri með ólæknandi augnsjúkdóm.
Listamaðurinn var að vonum mjög ósáttur með þessa niðurstöðu og ákvað að gera smá tilraun, hann mundi eftir því að afi hans átti ráð við sjóndepru og fór að grúska í gömlum fræðum og komst að því að það var hægt að bæta sjón með kúahlandi. Hann sýndi mér fjóra glæra plastkassa, alla fulla af hlandi sem hann var að eima undir sólinni.
Í þeim fyrsta var hlandið brúnt á lit en þegar var búið að eima það fjórum sinnum var það orðið alveg glært. Gæði hlandsins eru best ef það er sótt undir kúna í fullu tungli og ef kýrin er ung, þ.e. hefur ekki eignast kálf. Þetta er mikilvægt að hafa í huga.
Hlandið setur hann svo í augun á sér og með þessu hefur hann öðlast það góða sjón að hann málar gleraugnalaus. Hann sagðist vera með 50 manns í áskrift að hlandinu, (núna 51) og vegna þess að ég er með gleraugu á nefinu var engin undankomuleið svo ég sperrti upp augun og hann lét einn dropa falla í hvort auga.
Þegar ég kvaddi listamanninn var ég með kúahland í litlu glasi í vasanum. Mér fannst þetta mjög skemmtilegt og ég hef verið að dunda við að setja pissið í augun á mér áður en ég baða mig fyrir svefninn. Mig logsvíður undan því í nokkrar sekúndur og hlandlyktin er svakaleg, en einhverra hluta vegna hef ég haldið þessu áfram og var svo sem ekkert að pæla neitt sérstaklega í hvort þetta gerði mér gott eður ei, fannst ég þó alltaf frekar skýr eftir hverja sprænu.
Ég kaupi mér alltaf sjóngler hér á Indlandi, ég fæ þau fyrir 12 þúsund íslenskar krónur sem kosta 140 þúsund krónur eða meira í gleraugnabúð á Íslandi, nákvæmlega sömu gæði. Ég er búin að vera með resept í veskinu mínu síðan ég kom hingað sl. haust og í síðustu viku dreif ég mig í gleraugnabúð til að panta glerin, umgjarðir kom ég með að heiman.
Gleraugnabúðin er staðsett og rekin í samráði við aungspítala Brahma Kumaris World Spiritual University og karlinn í gleraugnabúðinni vildi endilega að ég léti mæla sjónina aftur, nýja mælingin sýndi að ég þarf veikari gleraugu heldur en nýja reseptið hljóðar upp á, holy cow!!
Indverjar hafa alla tíð borið mikla virðingu fyrir kúm. Þær hafa haldið í þeim lífinu í gegnum aldirnar og þær gefa svo sannarlega meira en þær taka, ekki bara mjólkurafurðir heldur er hlandið úr þeim notað til lækninga við hinum ýmsu kvillum í ayurvediskum fræðum. Upplýsingar um lækningamátt kúahlands má lesa á www.cowurine.com.
Indverjar hafa notast við ayurvedisk læknisfræði í 5000 ár, en hún byggist á því að fyrirbyggja sjúkdóma. Farsæll ayurvediskur læknir hittir afar sjaldan veikt fólk, hans aðalstarf er að kenna ungu fólki að þekkja og hugsa um líkama sinn á þann hátt að það sé heisluhraust út lífið.
Hinn þekkti fyrirlesari og rithöfundur Deepak Chopra er menntaður læknir á vestræna vísu en jafnframt útlærður ayurvediskur læknir. Hann hefur sérhæft sig í að sameina vesturlenska og austurlenska læknisfræði sem hann byggir á ayurvediskum fræðum. Hann hefur skrifað margar metsölubækur sem hafa verið gefnar út í Bandaríkjunum og víðar.
Fullkomið heilbrigði kom út árið 1994 í íslenskri þýðingu Ara Halldórssonar. Að slátra stórgripum til manneldis á þessum slóðum er bæði ósæmandi og óskiljanlegt enda talsvert meira hagræði í því að rækta grænmeti til manneldis heldur en að rækta gripafóður. Það þarf töluvert mikið ræktarland til að framleiða eina steik á vestrænan matardisk, sama landsvæði með grænmetisræktun getur brauðfætt hundruð manna.
Þegar ég kemst í netsamband kíki ég á íslenskar fréttir, mér sýnist að það sé að verða læknislaust á Íslandi, hvernig væri nú að taka heilsuna meira í eigin hendur? Ég vona að einhver af þeim fjölmörgu sem stunda óhefðbundnar lækningar á Íslandi gefi kúahlandinu gaum, það hlýtur að koma eðalhland undan íslenskum kúm sem lifa í hreinu lofti allt sumarið, eru á beit úti í íslenskum haga og drekka vatn úr hreinum og tærum fjallalækjum.