Franz páfi kom á óvart um helgina við sérstaka barnaskírn í Sixtínsku kapellunni. Hann bauð mæðrum að gefa börnum sínum brjóst ef ástæða væri til og lét fylgja að þær skyldu ekkert láta athöfnina hafa áhrif á nauðsyn þess að leyfa svöngum börnum að drekka.
„Ágætu mæður, ef börnin eru svöng, leyfið þeim að nærast, án þess að hugsa ykkur um,“ sagði hann brosandi. „Börnin ganga hér fyrir öllu og eru mikilvægasta fólkið hér.“
Páfinn notaði þó ekki orðalagið, að gefa brjóst eða brjóstagjöf við þetta tækifæri en það gerði hann hinsvegar í viðtali við La Stampa þar sem hann rifjaði upp að hann hefði sagt konu sem var með grátandi barn í fanginu, að gefa því bara að drekka. „Hún var feimin við það,“ sagði páfi, „Hún vildi ekki gefa brjóst á almannfæri og alls ekki í viðurvist páfa.
Franz sem er 77 ára gamall hefur vakið athygli fyrir að vera nútímalegur og alþýðlegur og það er vissulega ánægjuefni að hann skuli nú á opinberum vettvangi vera orðin talsmaður brjóstagjafa á almannafæri og jafnvel undir hinu mikilfenglega hvolfþaki Michelangelo í kapellunni frægu.
Myndin er skjáskot af fréttavef AP