Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Tími refsistefnunnar er liðinn

$
0
0

Afstaða – félag fanga og annarra áhugamanna um fangavist og betrun – fagnaði tíu ára afmæli þann 23. janúar. Afstaða var stofnað á Litla-Hrauni af föngum 23. janúar 2005 og var skipuð stjórn til 2 ára. Á sama tíma stóðu fangar og aðstandendur þeirra fyrir stofnun Aðgátar – félags aðstandenda fanga en það félag starfaði í nokkur ár áður en það sameinaðist Afstöðu.

Félagið hefur unnið öflugt starf síðastliðinn áratug í réttindagæslu fanga, þá sérstaklega með því að beita sér fyrir fleiri betrunar-, starfs- og námsúrræðum fyrir fanga á Íslandi. Mannréttindi fanga hafa lengi verið fótum troðin á Íslandi og umræðu um betri aðbúnað og réttindagæslu fanga hefur oft verið mætt með sinnuleysi eða jafnvel hneykslun almennings sem og stjórnvalda sem álíta fanga hafa minna tilkall til þeirra heldur en almennra borgara.

Ísland er eftirbátur nágrannaþjóða í betrunarúrræðum fyrir afbrotamenn og endurkomutíðni í fangelsi hérlendis er há miðað við hinar Norðurlandaþjóðirnar. Kvennablaðið fer yfir sögu Afstöðu, baráttumál félagsins og þá galla sem félagið telur vera á fangelsismálastefnu hérlendis.

Afstaða gegn Sólveigu Pétursdóttur og frumvarpi Björns Bjarnasonar

Starf Afstöðu í hagsmunagæslu fanga var í raun framhald á því starfi sem trúnaðarráð fanga hafði unnið að árin á undan. Með fyrstu verkum félagsins var herferð félagsmanna og aðstandenda þeirra að lýsa óánægju með störf Sólveigar Pétursdóttur, fyrrverandi dómsmálaráðherra, með því að strika yfir nafn hennar á prófkjöri Sjálfstæðisflokksins. Þannig voru allir aðstandendur fanga hvattir til þess að skrá sig í Sjálfstæðisflokkinn, taka þátt í prófkjörinu og strika yfir nafn Sólveigar. Ástæðuna segir Afstaða hafa verið algert sinnuleysi fyrrverandi ráðherrans í garð fanga, en hennar eina afrek í þeim málaflokki mun hafa verið að kaupa hlaupabretti fyrir fanga á Litla-Hrauni. Herferðin skilaði þeim árangri að Sólveig Pétursdóttir fluttist niður um sæti á lista vegna fjölda yfirstrikana.

Næsta verk Afstöðu var síðan að beita sér gegn frumvarpi nýskipaðs dómsmálaráðherra, Björns Bjarnasonar, um fullnustu refsinga en það hafði hann sett saman án samráðs við fanga. Afstöðu tókst að fá fund með allsherjarnefnd Alþingis og að loknum löngum fundi varð þverpólitísk samstaða fyrir því að fyrirhugað frumvarp færi ekki í gegn óbreytt. Fundur Aðgátar með allsherjarnefnd er sagður stór þáttur í því að frumvarpið sætti mikilvægum breytingum áður en það varð að lögum. Á sama tíma var föngum gefið það vilyrði af þingmönnum að næst þegar breyta ætti löggjöf er þá varðaði yrði haft samráð við Afstöðu og viðhorf betrunar frekar en refsingar yrðu höfð til hliðsjónar. Hingað til hefur fáu verið breytt í löggjöfinni og Afstaða segir unnið eftir sama refsikerfinu og alltaf hefur verið til siðs hérlendis sem sé algjörlega á skjön við betrunarstefnuna sem iðkuð er á Norðurlöndunum.

Afturför í kjölfar afsagnar Valtýs Sigurðssonar

Að sögn félagsmanna í Afstöðu fór að halla undan fæti í fangamálum við afsögn Valtýs Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Fangelsismálastofnunar. Valtýr hafði beitt sér ötullega að því að bæta fangelsiskerfið á Íslandi eins og unnt var innan ramma laganna og tók á mörgum erfiðum málum, meðal annars eineltismálum meðal fanga og fangavarða. Arftaki Valtýs og núverandi forstjóri Fanglesismálastofnunar, Páll Winkel, hefur sætt gagnrýni félagsmanna Afstöðu fyrir skort á upplýsingagjöf til löggjafans og stjórnvalda um framþróun fangelsismála á Norðurlöndum sem hefur í síauknum mæli sniðið afplánun refsinga í átt að betrunarvist. Skortur sé á betrunarúrræðum fyrir fanga, lítið er um starfsmöguleika, námsúrræði séu í ólestri og samvinna fangelsisyfirvalda við fanga og Afstöðu séu í algjöru lágmarki.

Umboðsmaður Alþingis er með mál Afstöðu til skoðunar

Þá er þess skemmst að minnast að Afstaða leitaði til Umboðsmanns Alþingis vegna langra tafa á málsafgreiðslu á fyrirspurnum og kvörtunum fanga innan Fangelsismálastofnunar sem og innanríkisráðuneytisins. Umboðsmanni þótti það sérstaklega vítavert að sumum fyrirspurnum og kvörtunum fanga hafði ekki verið svarað af hálfu yfirvalda í allt að ár þegar Umboðsmaður tók málið til formlegrar skoðunar þann 24. nóvember síðastliðinn.

Meðal umkvörtunarefna fanga til stjórnvalda voru að lítið hefur verið gert í því að semja og gera þjónustusamninga við framhaldsskóla fyrir öll fangelsi á landinu. Tannviðgerðir fanga hafa ekki verið endurskoðaðar og skortur er á sálfræðingum til þess að sinna sálgæslu fanga. Atvinnumál fanga eru sögð sitja á hakanum og starfsnám í fangelsum hefur ekki verið eflt í stjórnartíð Páls Winkels. Dagpeningar, þóknanir og fæðisfé fanga hefur ekki verið endurskoðað í átta ár þó svo að lög segi fyrir um að svo skuli gert árlega. Þá var það einnig efni kvartana að Páll Winkel neitaði því lengi staðfastlega að funda með Afstöðu um málefni fanga.

Ísland er eftirbátur annarra Norðurlandaþjóða í fangamálum

Staðan nú er að endurkomutíðni fanga á Íslandi er hátt í 50% sem er með því hæsta sem þekkist á Norðurlöndunum og Afstaða vill meina að með byggingu nýs öryggisfangelsis á Hólmsheiði sé verið að festa þessa þróun í sessi. Kostnaður á byggingu nýs fangelsis er talinn hlaupa á rúmum tveimur milljörðum króna og því ljóst að lítið verður um fjárveitingar í opin fangelsi eða önnur úrræði í anda betrunarstefnunnar á komandi árum.

Það hefur lengi verið ljóst að staða fangelsismála á Íslandi er óásættanleg en nefndir á vegum Sameinuðu þjóðanna og Evrópuráðs hafa gagnrýnt aðbúnað fanga og stefnu í refsimálum í skýrslum þeirra um eftirfylgni mannréttinda á Íslandi. Einnig virðist stefna íslenskra stjórnvalda í fangelsismálum halda fast í refsistefnu fyrri aldar þegar hún veitir milljörðum í byggingu nýs öryggisfangelsis á Hólmsheiði og neitar á sama tíma að veita nægu fjármagni í félagsleg úrræði, sálgæslu og stuðning við fanga til þess að þeir verði síður líklegir til þess að snúa aftur í fangelsi að afplánun lokinni.

Refsistefna versus betrunarstefna

Í raun má nálgast tilgang fangavistar og afplánun refsinga almennt frá tveimur pólum: refsistefnu og betrunarstefnu. Refsistefnuna má rekja aftur í aldir en hún grundvallast á því að samfélagið verði að refsa þeim einstaklingum sem brjóta gildandi lög. Tilgangur refsingarinnar er margþættur en fyrst og fremst er hann hefnd samfélagsins gegn hinum brotlega. Einnig er fælnismáttur refsinga talinn til; að hinum brotlega lærist að fremja ekki brot aftur ellegar sæta aftur frelsissviptingu. Refsing hins brotlega er síðan ætluð samfélaginu öllu víti til varnaðar um að brotlegum verði refsað.

Þessi stefna hefur átt undir högg að sækja á undanförnum áratugum þar sem henni hefur ekki tekist að ná aðalmarkmiði sínu: að fækka afbrotum. Með því einfaldlega að skoða endurkomutíðni í fangelsi (sem eins og áður sagði er mjög há hérlendis) má sjá að fangelsisvist ein og sér skilar ekki af sér færri afbrotum né heldur fælir hún fanga frá því að fremja brot aftur. Í raun má segja að fangelsisvist án betrunar sé líkleg til þess að skila brotamanninum aftur inn á braut afbrota.

Stjórnvöld á Norðurlöndum hafa verið í fararbroddi fyrir betrunarstefnunni sem andsvar við refsistefnunni. Betrunarstefnan gerir ráð fyrir því að afbrot séu fyrst og fremst afleiðing félagslegra vandamála og sálfræðilegra erfiðleika brotamanna. Frelsissvipting brotamanna í lokuðum fangelsum er álitið aðeins eitt af fjölmörgum úrræðum til þess að taka á afbrotum og vinna gegn því að dæmdir brotamenn brjóti aftur af sér. Betrunarstefnan sér fyrir sér fjölda annarra úrræða til þess að taka á afbrotum, eins og samfélagsþjónustu, rafrænni vöktun sem og opinna fangelsa í stað frelsissviptingar.

Betrunarstefnan gengur út á að brotamaður bæti sig, sjálfum sér og samfélaginu í heild til góða. Það vill því miður oft vera þannig að brotamenn eru ómenntaðir, með takmarkað félagslegt bakland og kunna jafnvel ekki að sjá fyrir sér öðruvísi en með afbrotum. Viðhorfið er því að veita dæmdum brotamönnum stuðning og tækifæri til þess að bæta möguleika sína á því að sjá sér farborða með löglegum hætti að afplánun lokinni. Þar er aukin menntun og starfsúrræði álitin lykilatriði í bland við sálgæslu, læknisaðstoð og félagsráðgjöf. Einnig er það talið mikilvægt að ríkið sjái fyrir stuðningi að afplánun lokinni til þess að aðstæður eins og heimilisleysi og/eða skortur á fjármunum verði þess ekki valdandi að viðkomandi fari beint út í afbrot aftur.

Staðan hér og nú

Nýlega kom það á daginn að stór hluti fanga á Litla-Hrauni væri í raun ólæs sem hlýtur að varpa ljósi á skort á menntunarúrræðum og stuðningi við betrun fanga. Undirrituð hefur bent á það að það hljóti að vera ótrúlega erfitt fyrir ólæsa fanga sem lokið hafa afplánun að leita sér að atvinnu og lifa eðlilegu lífi án aðstoðar. Íslensk fangelsismálastefna virðist enn byggjast á hinni fornkveðnu refsistefnu og lítið hafa þróast í samræmi við Norðurlöndin sem vinna gagngert að betrun brotamanna fremur en refsingu þeirra.

Starf Afstöðu síðastliðin tíu ár hefur verið lykilþáttur í þeim hægu en mikilvægu breytingum í átt að betri stefnu í fangelsismálum á Íslandi. Þó hafa heyrst háværar raddir um að ekki eigi að taka mark á starfi félagsins vegna þeirra manna sem þar eru í stjórn. Afstaða beitir sér fyrir réttindagæslu fanga og samanstendur af föngum og því ekki að undra að þar á meðal séu afbrotamenn sem mörgum finnst hafa fyrirgert rétti sínum til þess að ætlast til eins eða neins af samfélaginu vegna gjörða sinna. Mannréttindi eru þó ekki þess eðlis að þau falli úr gildi við refsidóm. Þvert á móti eru yfirvöldum gerðar mjög strangar kröfur í mannréttindagæslu fanga þar sem þeir eru í umsjá ríkisins og því viðkvæmur hópur hvers réttinda ber að gæta í hvívetna. Mannréttindabrot gegn föngum og skortur á viðeigandi úrræðum fyrir þá til menntunar og lífseflingar almennt eru einnig til þess fallin að ýta undir frekari afbrot fremur en að vinna gagngert í þeim vandamálum sem urðu til afbrotanna.

Tími refsistefnunnar er liðinn og höfundur óskar Afstöðu velfarnaðar á tíunda aldursári sínu í að koma þeim skilaboðum á framfæri þeim sjálfum og samfélaginu öllu til góða.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283