Stundum ef ég er spurður segist ég ætla að vakna þegar ég er búinn að sofa. Það þýddi reyndar ekki að svara þannig þegar þessi hugljúfa kveðja sem fyrirsögnin er glumdi yfir lúkarinn um borð í síðutogaranum Þormóði Goða.
Ég var svo að labba fjallið með hundinum núna um daginn og viti menn! Fjallið þrumaði á mig þessari gamalkunnu kveðju. Ég varð auðvitað steinhissa. Fjallið er vant að vera svo kurteist. Og þegar ég gekk á fjallið með svör þá spurði fjallið einfaldlega hvort ég væri ekki búinn að sofa.
Ég hef eiginlega ekki getað hugsað um annað síðan. Þetta er þannig spurning að við henni verður að finnast viðunandi svar. Eitt hintið sem fjallið gaf mér var að kannski væri svefninn sviðskiptur svona eins og stjórnsýslan í Ráðhúsinu. Kannski væri ég sofandi á flestum ef ekki öllum sviðum. „Kannski,“ sagði fjallið, „ertu bara vakandi rétt að hluta til. Það er nefnilega alveg hægt að flakka eins og álfur út úr hól steinsofandi í gegnum þetta líf. Taka því sem að höndum ber alveg eins og í draumheimum, vera bara áhorfandi en ekki virkur þáttakandi.“
Þetta var auðvitað köld gusa en af því að fjallið hefur ekki klikkað hingað til þá fór ég í naflaskoðun og auðvitað blasir það við að ég stefni alveg jafn sofandi í átt fram yfir brúnina og hinir sauðirnir. Það er nefnilega þannig að ef manni finnst eitthvað þarfnast lagfæringa en gerir samt ekkert í því þá er maður bara að snúa sér upp i horn og halda áfram að kúra.
Ég er staddur í miðjum samfélagslegum svefnsal og það eru skilti um allt sem segja: „Gangið hljóðlega um og vekið ekki náungann að óþörfu!“
Meðan við sofum þá leyfum við einhverjum að reka samfélag sem er svo aulalegt að það er ekki annað hægt en að sofa bara. Og hef ég þá lesturinn:
Við leyfum vanhæfum borgaryfirvöldum að semja um akstur fatlaðra og varnarlausra samborgara við svokallaða einkaaðila sem eru augljóslega ekki hæfari í verkið en Hells Angels. Það hefði örugglega komið í ljós með smá frumathugun. Þetta er nefnilega ekki verkefni sem hægt er að fela hverjum sem er. Jafnvel ekki þó einhver „hver einkaaðili sem er“ vilji gera þetta fyrir eitthvað örlítið minni pening. Óhæfi borgarstjórnar felst í því að láta krónur og aura ráða ferð. Óhæfi borgarstjórnar felst í því að vera steinsofandi.
Vanhæfi stjórnar Strætó felst í því að kúra með borgarstjórn í huggulegri velborgaðri innivinnu án ábyrgðar. Vanhæfi stjórnkerfisins í heild felst í því að þar axlar aldrei neinn ábyrgð.
Á meðan við sofum okkar aulasvefni þá fikta vanhæfir peningamenn við skuldirnar okkar. Þeir eru svo flinkir í snákaolíusölu að þeim tekst að lána okkur 18 milljónir og láta okkur borga 11 milljónir til baka en skulda samt sem áður 29 milljónir. Aularnir við. Höldum að þetta sé náttúrulögmál og þorum ekki í launabaráttu af því við raunverulega trúum því að það skili engu nema verðbólgu, sem er auðvitað bara alveg jafn tilbúið og óþarft hugtak eins og „hagvöxtur“.
Í svefnrofunum í morgunsárið þegar við með einstakri lævísi náum að „snúsa“ aðeins áfram heyrum við hjalið í fjármálaráðherranum um að það sé ekki hægt að fara með ferðatösku fulla af seðlum að kaupa gögn um glæpi gegn þjóðinni. Og af því að við viljum bara ekki trúa því að það sé hugsanlega vegna þess að hann þekkir allan glæpahópinn, er með hann í teboðum á tyllidögum og getur ekki hugsað sér að rugga þeim báti, þá bara rennum við okkur inn í einhvern örlítið þægilegri draum.
Til dæmis drauminn um að góðærið sé komið aftur og að ekkert sé sjálfsagðara en að kaupa nýjan bíl handa Sigmundi og helst líka fyrir dvergana sjö.
Af því að koddinn er svo mjúkur og það er svo ljúft að láta undan letinni þá teljum við okkur endilega trú um það að einhverjir aðrir séu hæfari til að reka þjóðfélagið. Þar sé best að vera með vel efnaða lögfræðinga, viðskiptafræðinga, stjórnmálafræðinga og útsmogna bissnismenn, þó hreinlega ekkert, alls ekkert þegar betur er að gáð, bendi til að þeir geri betur en ræstitæknir ofan úr Breiðholti eða einstæð móðir í Njarðvík. Við vitum nefnilega alveg hvað okkur er fyrir bestu. Hvert og eitt einasta. Ef við nennum.
Ef við stöldrum við og hugsum rólega þá sjáum við til dæmis að það stafar engin ógn af útlendingum. Þeim stafar mun meiri ógn af okkur. Það gat Hanna Birna sýnt með bravör. Við erum hluti af hinu vestræna velferðarþjóðfélagi sem er að mestu byggt á rányrkju gagnvart þriðja heiminum. Við losum okkur ekki undan því karma með því að segja lok lok og læs.
Við verðum, eins og framsóknarmennirnir segja svo oft með Ólaf Aðalönd í bakröddum, „að standa í lappirnar“ í því máli.
Taka örlögum okkar af karlmennsku og byrja að haga okkur eins og kærleikur sé raunverulega hugtak sem við skiljum. Bjóða breytingar velkomnar því þær hafa, þegar betur er að gáð, alltaf verið til batnaðar. Ímyndið ykkur bara ef framsóknarmennskan hefði fengið að ráða 1906 þegar bændur lögðust alfarið gegn fyrsta sæsímastrengnum.
Ég gæti haldið áfram að telja lengi enn. Ég ferðast mikið um á hálendinu og gisti í fjallaskálum og það er alltaf einhver óþolandi morgunhani í hópnum sem er kominn á ról fyrir allar aldir syngjandi og trallandi og á endanum neyðir ilmandi kaffið mann úr pokanum til að tralla honum til samlætis.
Þetta er auðvitað maðurinn sem bjargar ferðinni.
Nú ætla ég að hrista af mér svefnslenið og gerast þessi maður. Ég ætla mér að glaðvakna gagnvart því að það smíðar enginn mína gæfu nema ég. Ég ætla á endastöðinni að geta sagt: „Ég gerði það sem ég gat.“ Áður en Kvennablaðið gusast út á alnetið verð ég búinn að skrá mér lénið VAKNA.IS og byrjaður að safna liði í blandaðan kór manna og kvenna sem saman munu kyrja margradda möntruna óþolandi:
„Ræs mellur það er að koma skip!“
Og leggi nú hver kverúlantinn sinn skilning í það.