Nú fer að styttast í næstu kjarasamninga og nú þegar eru farin að koma skilaboð frá hinum ýmsu aðilum um hve hættulegt það er að fara í miklar beinar launahækkanir almenningi til handa. Þetta eru sömu viðvaranir og hafa verið í kringum alla kjarasamninga síðustu mörgu skipti. Of háar launahækkanir setja þjóðfélagið á hliðina og stofna hagkerfinu í bráðahættu. Betra sé að fara í þjóðarsátt um einhverjar skitnar prósentur hinum almenna launamanna til handa svo ekki verði ragnarök á Íslandi.
Aftur og aftur höfum við látið okkur hafa það án þess að berjast mikið fyrir hækkunum eða kjarabótum á annan máta og sitjum nú uppi með að láglaunastefna síðustu áratuga er að bíta okkur allverulega í óæðri endann.
Það er staðreynd að á Íslandi eru fjölmargir sem vinna fulla vinnu, sem ná ekki að láta enda hanga saman frá mánuði til mánaðar. Þessari staðreynd er bara ekki hægt að líta fram hjá lengur því ef við gerum það mun fátækt á Íslandi aukast enn meir og hún er alveg orðin nógu mikil nú þegar.Það er alltaf verið að tala um prósentu hækkanir og þarna verðum við, almenningur, að fara að setja fótinn niður og tala í krónum.
Ef miðað er við neysluviðmið velferðaráðuneytisins er gert ráð fyrir að einstaklingur með enga fjölskyldu og búandi á höfuðborgarsvæðinu sé að nota 234.564,- á mánuði. Þessi tala inniheldur allan kostnað fyrir utan húsnæði. Ef miðað er við að viðkomandi búi í leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu má áætla 150.000,- í húsaleigu á mánuði. Þetta gera 384.564,- á mánuði fyrir eina manneskju eftir skatt.
Þessi tala miðar ekki við að fólk sé að lifa einhverju lúxuslífi heldur sómasamlegu mannsæmandi lífi í íslensku þjóðfélagi og eigi í sig og á, geti farið í bíó einstaka sinnum og keypt fatnað þegar með þarf. Sem sagt þurfi ekki að velta hverri einustu krónum fimmtán sinnum og geta samt ekki látið hlutina ganga upp.
Fjárhagsleg staða fjölmargra á Íslandi býður ekki upp á annað en að farið verði í kjarabaráttu sem miðar að þessu. Að fólk geti lifað sómasamlega og mannsæmandi af dagvinnulaunum sínum.
Við getum alveg gert 100% ráð fyrir því að þeir sem sitja hinum megin við borðið í komandi kjarasamningum eru alls ekki á því að fara í svona hækkanir og það er mikilvægt að hafa það hreinu áður en lagt er af stað í samningagerð. Það er mikilvægt að hugsa um það hvernig er hægt að ná fram kjarabótum í gegnum kerfið svo að við sem eigum að halda samfélaginu uppi getum farið að lifa sómasamlega.
Nokkrar slíkar útfærslur gætu til dæmis verið að skattleysismörk verði sett við 250.000, skerðingamörk barnabóta verði endurskoðuð og lækkuð svo um munar, vaxtabætur verði hækkaðar, meðlag hækkað og samfara því fái meðlagsgreiðendur aukin persónuaflátt vegna meðlagsgreiðslna, húsaleigubætur verði hækkaðar og skerðinamörk lækkuð, sértækar húsaleigubætur verði ennþá til staðar en geti verið hærri en nú er vegna sérstakra aðstæðna, vsk á matvæli og það sem telst til nauðsynja s.s bleyjur, fatnaður og skór verði lækkaður mikið eða afnumin með öllu og launatengd gjöld atvinnurekenda verði lækkuð.
Auðvitað er hægt að segja að þarna sé verið að seilast ansi langt en það sem stendur eftir er að almenningur á Íslandi hefur ekki efni á enn einni þjóðarsáttinni og ef mönnum er alvara um að rétta af áratuga láglaunastefnu þá hlýtur samvinna að vera málið, líka með aðkomu ríkisins.