Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Góðvond og vondgóð frétt

$
0
0

Til eru bæði góðar fréttir og vondar fréttir, en af því að lífið er fremur flókið fyrirbæri eru einnig til fréttir sem eru í senn bæði góðar og vondar.

Dæmi um góðvonda eða vondgóða frétt er til dæmis að í gær hringdi í mig starfsmaður úr viðskiptabanka mínum, ófreskjunni Arionbanka, og sagði að bankinn hefði orðið var við ákveðna óánægju mína vegna framgöngu bankans í viðskiptum okkar – sem eru ójafn leikur milli skuldugs einstaklings og lánastofnanar sem mælir sitt fjárhagslega bolmagn í hundruðum eða þúsundum milljarða.

Starfsmaðurinn var afskaplega sléttmáll, geðslegur og kurteis og sagði mér að bankann langaði til að gera eitthvað fyrir mig, svo sem eins og að losa mig undan því að borga um 11 hundruð krónur á mánuði í tilkynninga- og greiðslugjald fyrir að gera bankanum það ónæði að fá að borga af tveimur húsnæðislánum sem við hjónin erum – illu heilli – með í bankanum.

Það er hægðarleikur að losna við þessi gjöld, sagði bankamaðurinn. Til þess þarf aðeins að setja þau í svonefnda beingreiðslu og hún felst í því að ég heimili bankanum að fara inn á bankareikning minn án frekara samráðs við mig og sækja það sem bankanum reiknast til að sé passleg afborgun um hver mánaðamót. Fyrir daga rafrænna viðskipta hefði þessi greiðslumáti falist í því að heimila bankanum að senda starfsmann um hver mánaðamót til að gá í veskið mitt og sækja þangað þær upphæðir sem bankinn teldi mig skulda sér.

Þessa greiðviknu og auðveldu sparnaðarleið afþakkaði ég og sagði að það væri mín sérviska að svo lengi sem mér endist andlegt þrek til að vera sjálfum mér ráðandi hyggst ég ekki afhenda öðrum aðilum frjálsan aðgang að buddunni minni og heimild til sjálfskömmtunar. Kostaboð af þessu tagi um sparnað á stórum fjárhæðum hef ég áður fengið frá öðrum stórum fyrirtækjum, tam. tryggingafélögum því að þetta er frábær viðskiptamáti fyrir innheimtuaðilann sem hefur sjálfdæmi um að innheimta, og þarf aldrei að tilkynna um óvæntar verðhækkanir, þegar viðskiptavinurinn hefur afsalað sér að hluta til fjárhagslegu forræði sínu.

Svona fór þetta nú. Ég afþakkaði kostaboð bankans og borga innþá siðlaust og ástæðulaust gjald fyrir að í fyrsta lagi fá að borga hverja afborgun og í annan stað fyrir að fá að vita hvað reiknivélar bankans telja að hún eigi að vera há hverju sinni.

Þannig að þetta er frétt sem er bæði góð og vond. Það er gott að bankann skuli stöku sinnum langa til að vera gott fyrirtæki. En það er vont að reglur sem bankinn hefur sjálfur sett sér skuli koma í veg fyrir að hann geti verið jafngóður og hann langar til að vera og neyðist því til að halda áfram að vera vondur.

Hið góða sem bankann langar til að gera getur hann ekki gert. Það er vont og sorglegt, bæði fyrir bankann, viðskiptavini hans, fólkið sem starfar í bankanum og þjóðfélagið okkar í heild.

(Ljósmyndina sem fylgir fann ég á netinu og birti hana lesendum til gleði en án þess að vonast eftir ábata).


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283