Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Ef skóli væri heilbrigðisstofnun

$
0
0

Ímyndum okkur framhaldsskóla sem er rekinn eins og heilbrigðiskerfið.

Í prjónaáfanga leitar nemandi til kennarans. Nemandinn er að prjóna klassískt skyldustykki, þvottapoka með garðaprjóni, og eitthvað er skrítið í görðunum á miðju stykkinu, auk þess hefur lykkjunum fækkað á dularfullan hátt eftir því sem prjóni vatt fram.

Kennarinn hefur að eigin mati alltof marga nemendur og er á lúsarlaunum. Hann sér ekki villuna í fljótu bragði og bendir nemandanum á að leita til áfangastjórans til að fá greiningu á stykkinu. Af því kennarinn veit að nemandinn hefur ýmsar greiningar, t.d. ADHD og lesblindugreiningu, segir hann nemandanum að panta tíma hjá námsráðgjafa einnig, því vel geti verið að erfiðleikar í prjóni tengist þessum sérgreiningum.

Nemandinn pantar tíma hjá áfangastjóra og þarf að bíða eftir lausum tíma í þrjár vikur. Í millitíðinni kemst hann að hjá námsráðgjafa, sýnir honum misheppnaða þvottapokann og ber skilaboð kennarans. Námsráðgjafinn telur að mistök í prjóni gætu verið út af stressi, sem gæti hangið saman við ADHD greininguna, jafnvel lesblinduna líka því nemandi gæti hafa mislesið fyrirmælin um hve margar lykkjur ætti að fitja upp. Svo námsráðgjafinn ráðleggur nemandanum að stunda jóga, fara út að ganga á hverjum degi og taka lýsi, því lýsi hafi einmitt góð áhrif á hvers lags krankleika. Af því þetta er góður námsráðgjafi ráðleggur hann nemandanum jafnframt að reyna að hugsa jákvætt, þá gangi allt léttara.

Þegar nemandinn kemst loksins að hjá áfangastjóranum má áfangastjórinn ekki vera að því að kíkja á prjónlesið, heldur vísar nemandanum beint í rannsókn hjá skrifstofumanni. Skrifstofumaðurinn á að fara vandlega yfir prjónlesið og skrá allar villur og athugasemdir inn í þar til gert Excel-skjal. Nemandanum er úthlutað nýjum tíma hjá áfangastjóranum eftir tvær vikur, þá ættu niðurstöður að liggja fyrir.

Eftir tvær vikur mætir nemandinn aftur til áfangastjórans. (Í millitíðinni hefur nemandinn tekið lýsi á hverjum degi, arkað fimm kílómetra dag hvern, stautað sig fram úr sjálfshjálparbók til jákvæðrar hugsunar, farið með æðruleysisbænina sex sinnum á dag en er auðvitað jafn stopp í prjóninu og fyrr því kennarinn neitar að sinna honum á þeim forsendum að nemandinn sé nú í höndum sérfræðinga.)

Áfangastjórinn skoðar Excelskjalið lauslega á tölvuskjá en les það ekki í gegn enda vita allir að ef áfangastjórinn læsi öll gögn gerði hann ekkert annað og gæti þá ekki veitt viðtöl. Hann rekur augun í að skrifstofumaður hefur greint prjónlesið of fast prjónað og ráðleggur því nemandanum að reyna að liðka fingurna, best væri að leita til íþróttakennarans sem gæti kennt honum liðkandi fingraæfingar. Af því áfangastjórinn er vænsta skinn ráðleggur hann jafnframt nemandanum að taka lýsi, hætta að reykja og hugsa jákvætt, nefnir að D-vítamín geti gert kraftaverk.

Nú er tvennt sem gæti gerst næst:

A. Nemandinn fer til ömmu sinnar, þaulvanrar prjónakonu. Hún sér strax að nemandinn prjónaði óvart brugðna lykkju á sex stöðum og prjónaði saman lykkjur á þremur stöðum; rekur upp viðeigandi lykkjur niður stykkið, lagfærir villurnar, lætur nemandann lagfæra hluta þeirra og útskýrir hvað hafi gerst. Nemandinn mætir glaður með sinn hálfprjónaða þvottapoka í prjónakennslustund og segir kennaranum frá. Kennarinn trompast því amman er ekki með háskólapróf í kennslufræðum heldur eins og hver annar kuklari í þeim efnum. Kennarinn skrifar því harðorðan leiðara í Skólavörðuna um “kennslukuklið” sem er að verða stigvaxandi vandamál í samfélaginu í dag og vekur leiðarinn mikla athygli.

B. Kennarinn lætur afskipti ömmunnar afskiptalaus enda æðrulaus með afbrigðum. Hins vegar fjölgar stöðugt í áfanganum því þrátt fyrir að senda nemendur út og suður til fá greiningar sérfræðinga og hærra settra á vandanum (ýmsum villum) batnar ekkert og einungis örfáir nemendur útskrifast. Hinir hanga áfram inni og sífellt er nýjum nemendum bætt við. Kennarinn sér að starfsumhverfið er að verða óþolandi og ekki batna launin þótt álagið aukist! Hann ákveður að hætta að starfa í þessu ömurlega íslenska kerfi, sækir um vinnu í hannyrðaskóla í Skals á Jótlandi og lýsir því í nokkrum blaðaviðtölum hvernig hann neyðist til að rífa fjölskylduna upp með rótum og flytja til útlanda svo sérfræðiþekking hans verði metin til mannsæmandi launa og vinnuaðstæður verði þolanlegar.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283