Aldrei þessu vant hef ég skipt mér frekar lítið af vinsælasta umræðuefni síðustu viku, enda var ég og er ánægður með brjóstabyltinguna svokölluðu og fannst ég hafa litlu markverðu við að bæta.
Margt misgott hefur hins vegar fylgt henni, og nú er svo komið að kollegar mínir á Kvennablaðinu eru komin í einkennilega ritdeilu við femíniska vefritið Knúzið.
Fyrst: Vel gert
Fyrsta hugsun mín var að #freethenipple átakið væri töff og pönkuð ögrun gegn tepruskap, blygðunarkennd og félagslegri íhaldssemi – sem hefur verið mjög ríkjandi í vestrænu samfélagi, samhliða klámvæðingu. Karlar og konur eiga að ráða hvað þau gera við líkama sína og yfirlætisleg fordæming á því er alltof algeng.
Sem slík frjálslyndisbylting er hún awesome. Enn merkilegri er samt varnarárásin sem felst í herferðinni og ég skildi ekki strax; gegn hefndar/hrelliklámi, drusluskömmun og því óöryggi og minnimáttarkennd sem félagslegur heilagleiki líkamans veldur hjá fólki.
Út frá markaðslegu sjónarmiði veldur þetta gríðaraukna framboð af brjóstamyndum virðislækkun á þeim sem pervertar og hrellar hafa í fórum sínum, og slá þannig vopnin gegn fórnarlömbunum úr höndum þeirra. Út frá sjónarmiði félagslegrar mótunar gerir þetta brjóst og geirvörtur augljóslega að minna feimnismáli, eitthvað sem við kippum okkur síður upp við að sjá (pun intended) og skömmumst okkar um leið síður fyrir að sýna.
Svo líklega eru bæði geirvörturnar (ljótasta orðið í íslenskri tungu) og eigendur þeirra frjálsari fyrir vikið – og við hin vonandi frjálslyndari og umburðarlyndari.
Réttrúnaður á afturlöppum
Þegar svona skyndileg bylgja skekur samfélagið er viðbúið að sumt misfarist og einhverjir fari fram úr sér. Hugsun okkar fellur hins vegar illa við þann veruleika; sálfræðilega hneigjumst við til þess að túlka nýjar upplýsingar út frá fyrirliggjandi hugmyndum og viljum frekar að öll rök vísi í eina átt heldur en að sætta okkur við að sum gild rök stangist á við afstöðu okkar, þ.e. við forðumst að þurfa að vega kosti og galla.
Okkur hættir líka til að gagnálykta ómeðvitað út frá þessari tilhneigingu okkar; þ.e. við gerum ráð fyrir því að þeir sem setja fram efasemdir, gagnrýni og mótpunkta séu alfarið ósammála eða á móti okkar afstöðu. Þetta er nátengt tvíhyggju, liðahugsun og einföldunum/stimplum sem eru hugrænt þægilegri ferli en hitt, þó þau séu samfélagslega og röklega skaðleg.
Þessi tilhneiging margfaldast síðan gjarnan með hugmyndafræði og félagsmótun; sem orðar þá hugsun berlega að andóf gegn línunni sé í sjálfu sér skaðleg og sviksamleg (þetta er þekktast úr trúarbrögðum og kommúnisma), bendla gagnrýni við óvininn (stéttsvikara, heiðingja, kapítalisma, feðraveldið) og gera það að samþykktri röksemdafærslu að einhver sé „að gera lítið úr málstaðnum“ – og rök viðkomandi séu þar með ógild. Þá er auðvelt að setja viðkomandi í óvinalið og/eða afskrifa málflutning vegna þess frá hverjum hann kemur.
Það var þannig svolítið undarlegt að sjá hversu harkalega útreið Biggi nokkur lögga hlaut þegar hann setti fram sínar (misgildu) áhyggjur af framtakinu; hann var klámbrenglaður, gamaldags fáviti – en þegar aðrir, m.a. kynjafræðingur, settu fram efnislega svipaðar efasemdir, fengu þau mildari móttökur.
Í því samhengi fannst mér líka áhugavert að minnast þess þegar Eva Hauksdóttir birti brjóstamynd af sér í sama tilgangi á síðu sinni fyrir nokkrum árum síðan – viðbrögðin voru helst þau að hún væri athyglissjúk, að þóknast feðraveldinu og „skreyta mál sitt með nekt.“ Það vantar eitthvað samræmi í þessa umræðu.
Óvinsælar áhyggjur
Margt gott hefur verið skrifað til stuðnings brjóstabyltingunni, fyrri grein Hildar Guðbjörnsdóttur á Knúzinu er það að mörgu leyti en sú seinni alls ekki. Sú er uppfull af þeim rökvillum sem ég nefni hér að ofan; þar sem Steinunn Ólína er gerð að óvininum fyrir að setja fram afmarkaðar athugasemdir, sögð sýna dónaskap, gera lítið úr konum, reyna að hafa vit fyrir þeim, vilja að þær skammist sín og hreinlega miðla feðraveldinu í öllu sínu… tja, veldi. Rökstuðningur fyrir þessum sleggjudómum með vísun í sjálfa greinina eru hins vegar afar takmarkaðar, enda í litlu samhengi við hana.
Þar kemur líka fram sú undarlega hugmynd óhóflegrar mótunarhyggju að með því að draga skömmina af brjóstamyndum sé hægt að koma í veg fyrir kynferðisofbeldi. Hún horfir þar ekki bara fram hjá ólíku upplagi einstaklinga, árásargirni og árekstrum sem alltaf verða óhjákvæmilegir í einhverjum mæli, heldur fram hjá því sem ég hélt að væri nokkuð almennt viðurkennt í dag – að kynferðisofbeldi byggir ekki á kynörvun heldur á valdbeitingu og niðurlægingu.
Þar og víðar er brugðist ókvæða við þeirri „hugmynd“ að brjóst séu kynfæri, þótt ég hafi sennilega aldrei heyrt þá hugmynd fyrr en fólk fór að hafna henni í þessari herferð – né reyndar þá hugmynd að kynfæri séu það eina kynferðislega í fari fólks. Geirvörtur hafa vissulega lífeðlisfræðilega tengingu við kynörvun og örva sama svæði í heilanum og kynfæri, brjóst kvenna verða til á kynþroskaskeiði vegna kvenhormónaframleiðslu og geirvörtur þeirra hafa jafnan sterkari tengingu (82% kvenna og 52% karla í einni rannsókn) við kynörvun.
Í ljósi þessa þykir mér alveg eðlilegt að ýmsir vilji halda því til haga að líklega muni geirvörtur alltaf hafa kynferðislega vísun og þá sérstaklega brjóst kvenna, að margir muni líta þessar myndir kynferðislega og nýta í þeim tilgangi. Þau sem bentu á þetta fengu hins vegar aldeilis skammir fyrir, þrátt fyrir að síðar hafi þetta verið viðurkennt með því mótsvari að þau sem birtu myndirnar gerðu sér grein fyrir þessu og væri sama. Sem er gott og vel, en af hverju mátti þá ekki halda því til haga?
Er alveg öruggt að allir hafi verið fullkomlega meðvitaðir um þetta, þegar sumir virtust halda því fram að brjóst hættu að vera kynferðisleg í kjölfar þessa? Ef allir gerðu sér svona vel grein fyrir þessu, hvers vegna voru svona margir þá svona hissa þegar einhverjir fóru að leita að brjóstamyndum, deila þeim á deildu.net og gefa einkunnir? Vissulega sorgleg viðbrögð – en hefðu átt að vera fyllilega viðbúin ef ábendingar um þessa staðreynd hefðu ekki verið kaffærðar í drullu til að byrja með.
Í því samhengi finnst mér líka eðlilegt að Steinunn og fleiri hafi áhyggjur af því að stelpur niður í 13 ára aldur séu að birta svona myndir af sér, þegar ljóst er að þær getur skort þroska, meðvitund um afleiðingarnar og verið undir miklum félagslegum þrýstingi. Því þrátt fyrir að réttilega sé sagt að öllum sé fullfrjálst að birta eða birta ekki myndir af sér, þá er ólíklegt að það séu skilaboðin sem allar ungu stelpurnar fá úr sínum hópum (ekki frekar en það nægir að einhver segi að barbie-dúkkur séu óeðlilega vaxnar, til að þær hætti að fá óeðlileg skilaboð um líkamsviðmið).
Þó vissulega sé snúið að draga mörk um aldur og þroska í þessu samhengi og rangt að gera lítið úr stelpum sem kjósa að birta myndir af sér, þá hlýtur að vera í lagi að tala um þetta án þess að verða þar með æðsti holdgervingur kúgunar og feðraveldis. Eða hvað?
Frelsum umræðuna
Brjóstabyltingin er frábær, femínisk frjálslyndisbylting sem vonandi mun draga úr ógninni af hrelliklámi, auka frelsi stelpna og kvenna til að (af)klæða sig að vild eins og karlmenn og umburðarlyndi fólks gagnvart fjölbreyttum líkömum og meinalausu atferli annarra. Hún mun mjög ólíklega aftengja brjóst eða geirvörtur frá kynþokka eða afmá kynferðisofbeldi úr samfélaginu, en hún gæti sannarlega breytt þessum hlutum til batnaðar.
Við þurfum heldur ekkert að afneita þessum athugasemdum til að halda okkur við að hlutar mannslíkamans geta verið kynferðislegir fyrir sumum en ekki öðrum og eftir samhengi – og að það er okkar allra mál hvernig við klæðum og berum okkur, algjörlega óháð því hvað öðrum gæti þótt kynferðislegt. Að halda því til haga og vara við að börn taki slíkar ákvarðanir er eðlilegur hluti af upplýstri umræðu um þessa hluti.
Frelsum brjóstin, geirvörturnar, píkurnar og typpin ef okkur svo sýnist. Vald okkar yfir öllum hlutum líkama okkar, og tilhneigingu okkar til að dæma hvernig aðrir nota það vald sitt. Frelsum síðan umræðuna frá því að rök séu metin eftir því hvaðan þau koma og hvað þau styðja, huga okkar frá blygðun og frá tvíhyggju og réttrúnaði, sem gera vini að óvinum.