Í bústað uppi í sveit, vel varðar frá íslenska slyddurokinu, fórum við þrjár vinkonur að ræða málin. Dætur okkar allra, samtals sjö yndisleg eintök af manneskjum, voru sofnaðar og við dasaðar eftir erilsaman dag.
Ég hóf samræðurnar á alvarlegum nótum. Þær eru sjö, stelpurnar okkar. Hver af þeim verður fyrir kynferðislegu áreiti, misnotkun eða nauðgun?
Rannsóknir sýna að ein af hverjum fjórum verði fyrir slíku ofbeldi á lífsleiðinni, svo allavega tvær þeirra, jafnvel fleiri, svaraði önnur vinkvenna minna. Fyrir nú utan allar aðrar konur sem við þekkjum og hafa lent í einhverju svona.
Miðað við að okkur þrem hefur öllum verið nauðgað, ein verið misnotuð af fjölskyldumeðlim og tvær orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað eru líkurnar á að dætur okkar verði fyrir svona ógeði miklar bætti hin við. Allt of miklar.
Og hvað eigum við að gera í því sagði ég? Ég fékk engin svör. Ég fann heldur engin hjá sjálfri mér. Ég gat ekki hætt að huxa um þetta næstu daga. Loksins fann ég svarið. Ég ákvað að segja frá. Það er eina vopn okkar gegn mönnum sem brjóta á okkur kynferðislega. Að fela ekkert. Að sitja ekki með skömmina í eigin skauti. Að halda ekki hlífiskildi yfir þeim.
Sem ungri var mér nauðgað af strák sem ég bauð heim. Ég sagði nei og fraus. Ég sagði engum frá og sat uppi með hræðilega vanlíðan, sektarkennd, skömm og lága sjálfsvirðingu í mörg ár. Mörg ár! Fyrir tæpum tveimur árum var ég áreitt kynferðislega af tveimur yfirmönnum mínum inni í litlu lokuðu rými. Ég dó innan í mér. Hörmungarlíðanin helltist yfir mig aftur.
Ég var hvött til að segja frá. Ég ákvað að vera sterk í þetta sinn. Sagði frá og færði þannig skömmina af mér. Þeir voru reknir. Bara ekki strax.
Ég var látin mæta öðrum þeirra í vinnu þremur dögum seinna. Í dag er hann kominn aftur til starfa. Af því að ég kærði ekki. Alein gegn þeim. Skömmin aftur komin, hún sat á mér og braut mig niður. Langt niður.
Þar til ég bað um hjálp. Öskraði á hjálp.
Ef þú ert ein af þessum fjórum bið ég þig að gera hið sama. Það bjargaði lífi mínu.
Þú veist aldrei hvað verður til þess að þú brotnar og gefst upp. En þolendur kynferðisofbeldis dúndra á vegginn einn daginn. Og það er miklu erfiðara að komast upp þaðan.
Segðu frá, talaðu upphátt, ekki skammast þín, þú gerðir ekkert. Leitaðu þér hjálpar strax!
Og fyrst og fremst, tökum höndum saman, konur OG karlar og segjum þeim að HÆTTA! HÆTTIÐ að beita okkur líkamlegu og sálarlegu ofbeldi!
Ég hef sannarlega ekki alltaf verið fullkomin mamma. Stundum finnst mér hreinlega allir í heiminum vera betur til þess fallnir að vera foreldrar en ég. En ég geri mitt besta með aðstoð dásamlegra foreldra og það eina sem ég vil í raun gefa dætrum mínum, fyrir utan ást og öryggi, er að vera sterk fyrirmynd. Og það geri ég svona.
Með því að segja frá, leita mér hjálpar og hætta að skammast mín fyrir ofbeldisgjörðir annarra. Með einmitt því varð ég betri mamma. Þannig sýni ég dætrum mínum að sterk geti ég risið upp frá myrkri. Að ábyrgðin er ekki mín, skömmin er ekki mín heldur þeirra sem á mér brutu.
Og ég ætla að verðlauna sjálfri mér fyrir að standa með sjálfri mér og fara í draumferð mína til Hong Kong að heimsækja kæra vinkonu. Þannig sýni ég líka dásamlegu dætrum mínum að þrátt fyrir allskonar skelli í lífinu getur maður alltaf látið drauma sína rætast. Með ákveðni og ást að vopni. Föðmum lífið. Fögnum góðum fyrirmyndum. Stöndum saman. Sterkar konur.