Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Skjalfest falslýðræði

$
0
0

Það er óneitanlega að bera í bakkafullan lækinn að benda á þetta – en mér finnst bara svo sláandi merkilegt, það sem Ásta Helgadóttir bendir á í grein sinni um ESB-mál á Stundinni.

Í svari við spurningunni „Má búast við þjóðaratkvæðagreiðslu?“ á vef utanríkisráðuneytisins segir:

„Ríkisstjórnin hefur engin áform uppi um að efna til þjóðartkvæðis um viðræður við Evrópusambandið, þar sem slíkt væri atkvæðagreiðsla um mál sem hún er mótfallin.“

Leyfum þessu aðeins að meltast

Bjarni Benediktsson hefur sagt á þessu kjörtímabili (sem eins og við vitum er lágmarksforsenda þess að ummælin gætu skipt einhverju máli) að klára þurfi vinnu við að setja sérstakt ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur í stjórnarskrá.

Sigmundur Davíð lagði áherslu á það í samtali við mig stuttu fyrir síðustu kosningar – og án efa víðar (þó ég finni það ekki í fljótu bragði) – að mikilvægustu breytingarnar sem þyrfti að gera á stjórnarskrá Íslands væri að setja inn ákvæði um auðlindir í þjóðareigu og um þjóðaratkvæðagreiðslur. Svo ekki sé minnst á vel þekkt kosningaloforð Framsóknarflokksins þess efnis fyrir kosningarnar 2009, sem flokkurinn hefur síðan gert allt til að koma í veg fyrir að nái fram að ganga.

Þessi fyrirheit eru vissulega jákvæð út af fyrir sig – en hvers konar þjóðaratkvæðagreiðslur eiga þessir menn eiginlega við? Gera þeir sér einhverja grein fyrir því hvernig þjóðaratkvæðagreiðslur ganga fyrir sig?

Af því, sko, þjóðaratkvæðagreiðslur snúast um að leyfa kjósendum að ákveða mál. Óháð stefnu valdhafa.

Ekki að þjóna sem stimpill fyrir skoðanir og stefnu þeirra, til að veita þeim aukið lögmæti í pólitískum átökum.

Þetta er alveg átakanlega alvarlegur misskilningur, en til að gæta sanngirni þá hefur hans gætt meðal fleiri stjórnmálaleiðtoga undanfarin misseri – þ.e. að krafan um þjóðaratkvæði er bara sett fram þegar leiðtogar eru fullvissir um að niðurstaðan verði þeim að skapi og/eða að krafan sjálf skapi hindranir í vegi stefnu sem þeim líkar ekki.

En að sjá þennan skilning þinglýstan svona skýrt á opinberu vefsvæði ráðuneytis er óneitanlega magnað.

„… þar sem slíkt væri atkvæðagreiðsla um mál sem hún er mótfallin“… SÓ?!

Í sem einföldustu máli: Ef þjóðaratkvæðagreiðslur eru bara haldnar þegar ljóst er fyrirfram að niðurstaðan verði í samræmi við fyrirliggjandi stefnu stjórnvalda, þá hafa þær ekkert vægi. Ekki neitt. Þá eru þær sýndarmennska og falslýðræði, stimpill fyrir ákvarðanir ríkisstjórnarinnar. Ekki vettvangur lýðræðislegrar ákvarðanatöku almennra borgara eða viðurkenning á valdi þeirra.

Og þetta er skjalfestur skilningur okkar valdhafa á lýðræðinu.

Það er fyrir þá, ekki okkur.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283