Fyrir nokkru fjallaði ég á kaldhæðinn hátt um kjánaskap ofuráherslu á eitt ákveðið fag. Hvernig það væri fáránlegt að skikka alla til að móta sinn akademíska feril eftir því sem ég hef gaman af og get lært. Þeir sem kannast við mig geta auðveldlega giskað á að hvaða fagi biturleikinn beindist. Þó ég hafi verið með mitt einkahatur í huga þá var þetta þó hugsað þannig að allir ættu að geta séð sína erfiðleika og kannski farið að skilja annarra.
Þegar nemendum líkar illa við fag eru fyrstu viðbrögð oft að pæla í nytsemi fagsins. „Ég á aldrei eftir að nota þetta“ og „þetta er gagnslaust“ er sérstaklega skemmtilegt fyrir kennara að heyra og þeir eru yfirleitt með föst og klisjukennd svör tilbúin til að slá umræðuefnið út af dagskrá. Svo hér er tillaga; ég hætti að vera með kaldhæðna niðurrifsgagnrýni og menntakerfið hættir að reyna að réttlæta eitthvað bara til að breytast ekki.
Ef nemendur vilja læra eitthvað gagnlegt þá skulum við kenna þeim eitthvað gagnlegt.
En tökum fyrst smá niðurrifsgagnrýni á t.d. dönsku. Það er mín skoðun að danska sé eitthvert ljótasta tungumál Evrópu. Einnig er það vísindaleg staðreynd. En burtséð frá mínum fagurfræðilegu pælingum um tungumál þá hefur dönskukennsla ýmislegt til að réttlæta tilvist sína. Yfirleitt kemur upp sú röksemdafærsla að margir Íslendingar fari í nám og vinnu til Danmerkur. Svo tilgangur í námi er m.a. að opna gáttir í atvinnulífinu? Allt í lagi. Þá legg ég til að ökukennsla verði fastaáfangi í framhaldsskólum.
Ég hef ekki farið í mörg starfsviðtöl á ævinni, en um helmingur þeirra hefur byrjað og endað á einni setningu: „Ertu með bílpróf?“ Hugsaðu aftur til allra þeirra starfa sem þú hefur íhugað eða haft. Hversu hátt hlutfall þeirra þarfnaðist bílprófs, og hversu mörg þeirra kröfðust góðrar dönskukunnáttu? Einhvern veginn held ég að fleiri starfsviðtöl gengju betur ef ég væri með bílpróf frekar en 15 einingar í sálfræði.
Pældu í öllum þeim tíma sem þú sóaðir gónandi út í loftið í ensku eða stærðfræði eða líffræði eða hvað svo sem þú aldrei fílaðir. Hvað ef sá tími hefði ekki farið í að krassa sama hakakrossinn aftur og aftur heldur í að æfa þig á bíl. Þessi áfangi, BÍL103 eða hvað svo sem það myndi heita, er ekki eitthvað sem mig langar til að gera, enda myndi ég falla önn eftir önn í þessu fagi. Ég er að hugsa um alla aðra og hvernig hægt er að nýta kerfið til að bæta aðstæður og getu fólks. Sjálfur myndi ég líklegast skrópa í þessum tímum eins og sundi þegar Rósa frænka er í heimsókn.
Bílprófið gæti enn verið aldurstengt og allt þannig, eina sem breyttist væri að menntakerfið myndi opinberlega styðja fólk í því. Opinbert menntakerfi er til þess gert að sporna við stéttaskiptingu, og eitt sem aftrar mörgu fólki í að ná þessum góðu réttindum er einmitt stéttaskipting. Ekki að það sé ekki hægt að vera án bílprófs. Það er vel hægt og margir virka vel þannig. Eini vankanturinn á bílprófsleysi er að enginn kvenmaður mun nokkurn tímann líta við þér.
Og nei, kostnaðarhliðin er ekki eitthvað sem ég er búinn að hugsa um. Ég er hugsjónahippinn og þið eruð fólkið sem náði STÆ103. Mínum hluta verksins er meira en lokið.
Annar hlutur sem skólar gætu tekið meiri þátt í er almenn lífskunnátta. Ekki innhverfir hæfileikar, það er pistill út af fyrir sig, heldur hæfni í samfélaginu. Af hverju veit ég flest allt sem vita má um rýrisskiptingu en þarf samt að hringja í mömmu til að skila skattaskýrslunni (og af hverju veit hún meira en ég um rýrisskiptingu en tvístígur sjálf þegar hún reynir að leiðbeina mér við skattaskýrsluna?)?
Fullt af orku og tíma fer í að undirbúa mig fyrir að skipuleggja nám og vinnu en engar leiðbeiningar fást um hvernig ég komist í vinnu. Hvergi erum við undirbúin fyrir samskipti í viðtölum eða við yfirmenn eða samstarfsfólk. Af hverju mátti ég vera stoltur af því að hafa lesið Hringadróttinssögu á tveimur tungumálum þegar ég var ellefu ára, en veit svo ekkert hvað ég er að horfa á níu árum síðar þegar mér er réttur ráðningarsamningur? Íslenska ríkið stóð sig vel í að fylla mig af þekkingu um Laxness og Jónas frá Hriflu en aldrei var mér sýnt hvernig sækja ætti um atvinnu. Eða heilbrigðisþjónustu eða neitt. Frekar á að leyfa fólki að tvístíga og ráfa í veikri von um að gera sig ekki að fífli.
Það er samt, til að bæta færni fólks í menningu og samskiptum, hægt að færa út kvíarnar í kannski íslensku og ensku og þess háttar fögum. Mín tillaga er að bæta við poppmenningarfræði. Nútímamenningarsaga. Vissuð þið að til er fólk sem botnar ekkert í setningunni „No – I am your father.“? Það er í alvörunni til fólk sem hefur ekki séð Star Wars! STAR WARS!
Fólk sem ekkert þekkir til Stjörnustríðs glatar stórum bút úr menningu okkar. Það er blint þegar kemur að húmor og tilvitnunum í bókum og myndum og almennu tali. Menningarrisar á borð við Stjörnustríð eru jafnvel kannski fyrirferðarmeiri heldur en málshættir, sem þó eru kenndir og rýnt í í kennslustundum. Það eru hópar í þessu samfélagi sem tengjast og tjá sig einungis með tilvitnunum í álíka fyrirbæri. Gætirðu fyrirgefið börnunum þínum að þekkja ekki til Bítlanna eða Robert Johnson?
Já, eins og ég sé þetta fyrir mér er þetta heldur miðað við það sem minn innri (og ytri) nörd fílar. En hvað er að því? Ljóð og bækur sem kenndar eru í tungumálafögunum, hvað er það annað en afmarkað áhugasvið yfirstéttarnördanna fyrir hundrað árum?
Myndasögur eru goðafræði okkar tíma, popptónlistin klassík og Hollywood-bálkarnir epíkin. Þetta er alveg jafn mikilvægt að þekkja og fyrsta spíttbátinn okkar, hann Stjána.

„Já krakkar, Stanley var ágætis fley. En það voru Nautilus og Enterprise NCC-1701 líka eins og sést í kafla…“
Stærðfræði gæti verið hagnýtari, náttúrufræði kennt að skilja vísindi í stað þess að tyggja ofan í fólk staðreyndir, samfélagsfræði/saga farið í að skilja betur nágrannann í fortíð jafnt sem nútíð… allir þessir draumórar eilífðarstúdentsins.
Greinaröðin um Subway-skólann er nefnd í höfuðið á orðum Jóns Gnarr:
„Þú getur sagt: Ég ætla að fá bræðing mínus gúrkur plús ólivur. Það er enginn sem segir við þig: „En gúrkur eru svo hollar“. Ég þarf ekki að útskýra fyrir neinum af hverju ég vil ekki gúrkur, mér finnst þær einfaldlega vondar. Mér finnast gúrkur vondar og ég vil ekki borða þær. Á Subway þá hef ég þann rétt að ég get fengið Subway án þess að þurfa að borða gúrkur. Þannig vil ég sjá skólakerfið.“
Þannig vil ég líka sjá það. Skólakerfi fyrir fólkið en ekki skólakerfi hannað af háskólaprófessorum fyrir háskólaprófessora.
Og skólakerfið þarf ekki bara að undirbúa fólk fyrir að halda áfram í skóla. Það þarf líka að læra að sleppa nemendum. Hugsið um alla þá sem eru sleipir í stærðfræði en mega ekki fara neitt því þeir féllu í íslensku. Alla læknana sem við erum að missa af vegna dönsku. T.d. veit ég fullt um Shakespeare og rómantísku skáldin en má ekki læra sem enskukennari því ég get ekki diffrað hallamál af π.
Í kerfi sem leitast við að spara þykir ódýrast að halda fólki sem lengst eftir og snuða um atvinnu og nám.