Framsóknarflokkurinn hlaut afgerandi stuðning í síðustu kosningum og með sigrinum tryggði það Sigmundi Davíð forystu í ríkisstjórn. Þar má hiklaust fullyrða að skuldaleiðréttingin og loforð um afnám verðtryggingar hafi vegið þyngst.
Eygló Harðardóttir tók sér starfstitilinn „húsnæðisráðherra“ og kallaði til víðtæks samráðs um mótun húsnæðisstefnu á árinu 2013. Gögn sem komu fram í vinnu samráðsnefndar um húsnæðisstefnu voru gerð aðgengileg á vef velferðarráðuneytisins meðan á vinnu nefndarinnar stóð. Slíkt var óvenjulega jákvæð opnun að mati margra sem tóku þátt í samráðshópunum.
Skýrsla verkefnisstjórnar var síðan kynnt 6.maí 2014, en því miður hvarf sú kynning dálítið vegna sveitarstjórnarkosninganna sem þá voru á næsta leyti.
Líta má á að tillögur verkefnisstjórnarinnar hafi viðurkennt að öfgafull séreignarstefna með verðtryggingu og vaxtaokri hefði beðið skipbrot og þörf væri á gerbreyttri stefnu.
Gerð var tillaga um að stórefla almennan leigumarkað og styrkja starfsramma húsnæðissamvinnufélaga. Íbúðarekstur „án hagnaðarkröfu“ mundi fá forgang um fjármögnun og ætti kost á ívilnandi stuðningi sveitarfélaga og velvildarfjárfesta.
Nú eru komin fram frumvörp um breytingu á gildandi lögum um húsnæðissamvinnufélög (nr.66/2003) þskj. 1171-697, og hins vegar um breytingu á húsaleigulögum (nr.36/1994) þskj 1170-696.
Með vísan til þeirra fyrirheita sem fólust í samstarfi um mótun húsnæðisstefnu eru það mikil vonbrigði að sjá að sáralítið tillit virðist vera tekið til fyrirliggjandi tillagna „verkefnisstjórnar ráðherrans“
Ekkert í fyrirliggjandi tillögum er líklegt til að ná þeim markmiðum að hér verði til varanlegur valkostur hagkvæms leigu- og búseturéttarmarkaðar í líkingu við það sem best hefur gefist í öðrum löndum EES-svæðisins.
Ekkert sem stuðlar að lækkun byggingarkostnaðar eða auðveldar hagkvæma fjármögnun leigu- og búseturéttaríbúða fyrir ungt fólk og meðaltekjuhópana eða þann hóp sem þarf og kýs að vera hreyfanlegur á húsnæðismarkaðinum.
Allir skilja að hagkvæmur leigumarkaður er forsenda þess að ungt fólk geti lagt fyrir til eigin kaupa íbúðarhúsnæðis.
Með vísan til reynslu nágrannaþjóða er auðvelt að rökstyðja að búseturéttarmarkaður án hagnaðarkröfu er áhugaverður kostur fyrir fólk á öllum aldri og hagstætt milliskref fyrir þá sem hafa áform um að kaupa eða byggja eigin íbúð síðar.
Enn og aftur bendir margt til þess að svokallaðir fjárfestar og frekir hagsmunaaðilar hafi náð eyrum ráðherranna Mjög áberandi er að við breytingartillögur er hugað meira að hagsmunum húseigenda og „markaðsaðila“ – (og „tímabundinna harkara á leigumarkaði“) en minna að hagsmunum neytenda/leigjenda.
Í frumvörpum ráðherra er ekki gert ráð fyrir að einstaklingar geti sjálfir haft frumkvæði að því að stofna samvinnufélag um byggingu og rekstur leiguíbúða. Það verður einnig að átelja að ekki sé gert ráð fyrir því að leiguíbúðir séu skráðar og rekstur þeirra gerður eftirlitsskyldur með svipuðum hætti og tíðkast í Svíþjóð og Þýskalandi til að mynda.
Ekki er gerð tilraun til að auðvelda samstarf einstaklinga, sveitarfélaga og velvildarfjárfesta um stofnun og rekstur húsnæðissamvinnufélaga eða sjálfseignarfélaga – einkum fyrir landsbyggðina – þar sem unnt væri að lækka byggingarkostnað og lágmarka persónulega áhættu einstaklinga sem leggðu að mörkum eigið fé til íbúðabygginga.
Á sama hátt vekur það furðu að lagt sé til að húsnæðissamvinnufélög verði skylduð til að „markaðsvæða“ viðskipti með búseturétti þannig að félagsmenn í húsnæðissamvinnufélögum njóti ekki jafnræðis um aðgang að íbúðum óháð getu þeirra til að bjóða yfirverð í búseturétt.
Lækkun vaxta – afnám verðtryggingar – ódýrari íbúðir
Ekki eru enn komin fram frumvörp um Íbúðalánakerfi (Lög um húsnæðismál nr. 44/1998). Löngu er tímabært að loka Íbúðalánasjóði – enda hefur starfsemi hans nýliðin missiri einkennst af fráleitum slysagangi sem ekki sér fyrir endann á með brotthvarfi forstjórans.
Miðlun íbúðaskuldabréfa í sérstökum lánafyrirtækjum almennings – sem ekki væru rekin í hagnaðarskyni – er sannarlega skref þar sem taka mætti fyrirmyndir frá Danmörku líkt og ASÍ hefur verið að benda á, þótt líklega sé ekki annað í Danska kerfinu sem ástæða sé til að taka upp akkúrat núna. Slík sértryggð skuldabréf með hóflegum veðhlutföllum ættu að bera raunsæja vaxtakröfu og enga verðtryggingu – með þeim skilmálum þó að lántakandi ætti alltaf kost á endurfjármöngun á hverjum tíma ef betri kjör byðust á markaði.
Eflaust er ástæða til að skoða hvort ekki sé rökrétt að beita byggðastyrkjum eða sérstökum lánum Byggðastofnunar til að örva íbúðabyggingar í almannafélögum – þar sem vinnu er að hafa eða þróunartækifæri á landsbyggðinni.
Samhliða afnámi verðtryggingar lána til einstaklinga þarf að verða til margfalt stærri leigu- og búseturéttarmarkaður í húsnæðissamvinnufélögum og íbúðafélögum almennings. Til að fjármagna slík félög þarf að beita íhlutandi skilyrðum af hálfu ríkisins og jafnframt að opna skilvirka farvegi fyrir sveitarfélögin til að leggja að mörkum ívilnanir í formi lóð- og gatnagerðargjalda stofnstyrkja og víkjandi þróunarlána.
Einnig þarf að setja heilbrigðan ramma utan um samstarf opinberra aðila, einstaklinga og fyrirtækja sem velvildarfjárfesta.
Jafnhliða er mikilvægt að endurskoða ákvæði byggingarreglugerðar um lágmarksstærðir og gerð íbúða – með það að markmiði að auðvelda byggingu ódýrari íbúða í leigu- og búseturéttarfélögum sem rekin eru án hagnaðarkröfu – þar sem þjónustuð sameign tæki yfir tilteknar fúnksjónir – líkt og nú gildir eingöngu um stúdentaíbúðir og íbúðir fyrir aldraða (sbr. t.d. breytingar á sænskum reglum).
Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra hefur sýnt því áhuga að endurskoða gildandi byggingarrgelugerð – líkt og Svíar gerðu á síðasta ári – þannig að unnt verði að byggja ódýarri íbúðir í fjölbýli eða þjónustuðum kjörnum á vegum íbúðafélaga almennings.
Með vísan til gríðarlega mikillar og ósjálfbærrar uppsöfnunar fjármuna í lífeyrissjóðakerfinu – og braskhegðunar sjóðanna – er augljóst að þörf er fyrir að draga úr þeim óstöðugleika sem of mikil umsvif sjóðanna valda. Þess vegna er tímabært að stíga skref til að skattleggja ávöxtun lífeyrissjóðanna – með kannski 40% einskiptis-skatti sem síðar leiddi af sér skattfrjálsa útgreiðslu lífeyris til þeirra sem eru eldri en 67 ára.
Einnig ætti að leggja tímabundinn „skyldusparnað“ á sjóðsöfnun lífeyrisgjalda næstu ca 10 ára – og nýta þá fjármuni til að endurlána íbúðafélögum almennings án hagnaðarkröfu – og þá með hóflegri verðtryggingu en án vaxta.
Með slíku kerfi mætti auðveldlega fjármagna byggingu allt að 2000 íbúða á ári næstu 5-8 ár – af hagkvæmri gerð en með bestu gæðum. Samhliða gæti sveitarfélög byggt nokkurn fjölda af „neyðaríbúðum“ fyrir tímabundana búsetu heimilislausra – stóraukið íbúðabyggingar fyrir eldri borgara og stúdenta – með lágmarkskostnaði í sérnotahluta hverrar einingar.
Framsóknarflokkurinn er í lykilstöðu
Hvað sem líður afstöðu okkar allra til stjórnmála þá er tæpast ágreiningur um að til skemmri tíma sé hin „öfgafulla séreignarstefna íbúðarhúsnæðis“ hrunin. Amk. 30-50% almennings þarf að eiga kost á hagkvæmu leigu- og búseturéttarhúsnæði lengri tíma að sinni ævi.
Kostnaðarlækkandi aðgerðir; með ódýrari gerð íbúða og hagkvæmara byggingarmarkaði og með lækkuðum fjármagnskostnaði mun bæta bæði stöðu leigjenda og kaupenda.
Með stækkandi almennum leigumarkaði og verulegum umsvifum húsnæðissamvinnufélaga verður minni hætta á verðbólum og neytendur innleysa meiri ávinning til sín af byggingum og hagkvæmum rekstri íbúðanna.
Með vísan til þess sem að framan greinir er lögð áhersla á að það á ekki verða viðvarandi pólitískur ágreiningur um breytingar á þessu kerfi. Framsóknarflokkurinn er í lykilstöðu – og það er í verkahring ráðherra hans og þingflokks að koma með nothæf frumvörp til Alþingis.
Fyrirliggjandi frumvörp um húsnæðissamvinnufélög og um húsaleigulög eru að sönnu verulega gölluð – en ættu þó að duga til þess að velferðarnefnd Alþingis geti gert á þeim þær breytingar sem þarf til að þau komi að verulegu gagni.
Mikilvægt er einnig að taka lög um byggingarsamvinnufélög (nr. 153/1998) til endurmats – í þessu samhengi – og virkja þau að nýju þannig að þeir sem vilja stofna lokað samvinnufélag til bygginga og reka það sem „sparnaðarfélag“ – geti nýtt sér það form með ábyrgum hætti.
Við sem störfum á húsnæðismarkaði og vinnum fyrir almannafélög erum skuldbundin til að leggja að mörkum í þá vinnu sem Alþingi og stjórnvöld leiða – eftir getu og óháð því hvar við höfum skipað okkur pólitískt í sveitir.
Á sama hátt er meira en tímabært að launþegahreyfingin í heild sinni leggi að mörkum með jákvæðum og uppbyggjandi hætti til varanlegra umbóta á húsnæðismarkaðinum – en hætti að æpa á „hærri bætur“ og fleiri sérmerktar íbúðir fyrir „fátækt fólk“ – sem mundu þá einungis leiða til þess að gamalkunnu vaxtaokri verði viðhaldið og aukið á aðgreiningu fólks eftir efnahag.
Bættar aðstæður og ódýrari íbúðir fyrir alla – fyrir kaupendur eigin íbúða – fyrir kaupendur búseturéttar – fyrir leigjendur, stúdenta og aldraða. Þetta verður frekast gert með innleiðingu viðmiðana sem best hafa gefist í nágrannalöndum.
Í einu kerfi sveigjanlegra byggingarreglna, regúleraðs leigu- og búseturéttarmarkaðar þar sem sveitarfélögum ber að veita ívilnandi kjör fyrir almannafélög og þar sem ríkisvaldið setur strangan ramma um af-hagnaðarvæðingu íbúðalánamarkaðarins.
Þetta er ekkert smáverkefni en ÞVÍ MÁ ALLS EKKI KLÚÐRA einu sinni enn.
Plís!