Svo virðist sem einu myndatökurnar sem leyfðar eru af lögreglunni eru þær sem sérstaklega á að birta á Instagram síðu hennar. Undir öðrum kringumstæðum, ef einhver vogar sér að smella af mynd eða taka upp lögreglumann, þá bregðast þeir við eins og rokkstjörnur, æsast upp, setja hendina fyrir linsuna.
Halldóri Bragasyni tónlistarmanni varð það á að taka upp myndband af rútubifreið. Auðvitað er það alvarlegt. Sem betur fer var vaskur laganna vörður á staðnum sem gat stöðvað hann við athæfið. En svo virðist sem að lögreglumaðurinn sjálfur hafi orðið fyrir þarna grófri ljósmyndun við skyldustörf. Ég auðvitað vona að lögreglumaðurinn nái sér og hafi ekki hlotið skaða af en það var nú kannski óþarfi að sýna Halldóri ógnandi framkomu og reyna að hrifsa af honum símann. Það er full langt gengið ef lögreglan er farinn að stela símum.
Ég skil heldur ekki alveg röksemdarfærslu bak við viðbrögðin. Af hverju má ekki mynda lögreglu? Hvað er það sem fer svona í taugarnar á lögreglunni?
Er það léleg sjálfsmynd? Á hún í erfiðleikum með hárið á sér og vill því engar myndatökur? Finnst henni vandræðalegt að aðrir lögreglumenn eru í nákvæmlega sama dressi eða eru mistök þeirra við skyldustörf svo algeng að þeir óttast að myndatakan hafi afleiðingar?
Það var nú flenniflott myndbandið af lögreglumanninum að ráðast á dauðadrukknu konuna niðri í bæ um árið. Hann var dæmdur fyrir það þrátt fyrir að forsvarsmenn lögreglunnar sögðu að allt á þessu myndbandi væri nú eðlilegt og norskt.
Það er nefnilega fullkomlega í lagi og eðlilegt að lögreglan sé mynduð við störf sín. Þeir lögreglumenn sem telja sig ekki geta unnið við þær aðstæður ættu að finna sér auðveldari vinnu hið snarasta. Um leið og þeir sem hafa það að atvinnu að vernda okkur og hjálpa komast upp með að banna að verk þeirra séu skrásett eða tekin upp þá hafa þeir sagt sig frá hlutverki sínu og tekið upp eitthvað annað hlutverk sem aðeins getur orðið til að gera okkur minna örugg og varnarlausari.
Ef þú sérð þig knúinn til að beita einhverjum viðurkenndum norskum ljósmyndunarviðbrögðum þegar tekin er mynd af þér þá ertu bara óreglumaður sem ég treysti ekki til að vernda einn eða neinn nema sjálfan þig.
Nú en ef aðeins má mynda lögregluþjón ef notaður er svaka fínn filter og nett hashtag á Instagram þá getum við alveg orðið við því svo sem.