Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Jólanammi að hætti Nönnu Rögnvaldardóttur

$
0
0

Ég svaf af einhverrri ástæðu illa í nótt, vaknaði þreytt og með hausverk í morgun, fór að hugsa um hvort ég ætti að treysta mér í vinnuna og mundi þá eftir höggbornum sem er búinn að vera að hamast á klöppinni fyrir utan síðasta mánuðinn (það hefur sína ókosti að byggja hús sitt á bjargi) og er beitt af tvöfaldri hörku þessa dagana til að reyna að ljúka verkinu. Það er nógu erfitt að þola hann þegar maður er fullfrískur. Svo ég var heima í dag.

Hausverkurinn var horfinn um hádegi og eftir það var ég bara þreytt og syfjuð. En ekkert að mér í maganum, sko. Svo ég ákvað að nýta tímann í eins og eina tilraun.Var fyrst að hugsa um að gera eitthvað hollt en svo mundi ég að ég var nú með tiltölulega holla uppskrift í gær og það gengur ekki svona dag eftir dag.

Svo ég ákvað að gera nammi. Jólin að nálgast og það allt.

Þetta nammi getur reyndar litið grunsamlega hollustusamlega út, með ofurberjum og hvaðeina, en það er blekking. Þetta er ekkert hollt. Bara gott.

namm1

Það sem ég notaði: 225 g dökkt súkkulaði, 200 ml niðursoðin mjólk, 300 g sykur, 100 g sykurpúðar (ég átti bara gamla, hálfharða og marglita en það gerði ekkert til í þessu tilviki), 100 g pekanhnetur (mega vera valhnetur en pekanhnetur eru betri), 1 poki (80 g) berjablanda (gojiber, múltuber, bláber og ég man ekki hvað fleira) og 1 tsk vanilluessens.

namm2

Ég setti niðursoðnu mjólkina og sykurinn í víðan pott, hitaði rólega að suðu og hrærði þar til sykurinn var nokkurn veginn uppleystur.

namm3

Ég lét blönduna sjóða í 6-7 mínútur, hafði auga á henni og fylgdist með að ekki syði upp úr og hún færi ekki að brenna (getur gerst ef hitinn er of hár).

namm4

Á meðan grófsaxaði ég súkkulaðið og hneturnar og tók svona þriðjung af súkkulaði, hnetum og berjablöndu frá.

namm5

Tók líka ferkantað form og klæddi það að innan með bökunarpappír.

namm6

Þegar mér fannst sykurblandan nógu mikið soðin slökkti ég undir pottinum og sturtaði sykurpúðum, súkkulaði, hnetum og berjum út í og bætti við vanilluessens.

namm7

Svo hrærði ég vel í þessu, þar til súkkulaðið var allt bráðið og samlagað og sykurpúðarnir byrjaðir að bráðna. Það má líka nota litla sykurpúða sem bráðna þá trúlega alveg saman við blönduna. Það er gott líka en ég vildi hafa svolítið eftir af þeim í konfektinu

namm8

Þá hellti ég (eða skóf – þetta er orðið of þykkt til að hægt sé að tala um að hella því) blöndunni í formið og jafnaði yfirborðið eins og ég gat með sleikju. Dreifði svo því sem ég hafði tekið frá af súkkulaði, hnetum og berjum jafnt yfir og þrýsti því aðeins niður með flötum lófa – blandan er orðin það köld að það er engin hætta á að brenna sig en samt nógu heit til að bræða súkkulaðibitana sem stráð er yfir.

namm9

Svo setti ég þetta í kæli í 2-3 klst. en tók konfektið þá úr forminu, setti það á bretti og skar það í ferninga.

namm10

Og svo er bara að smakka. Ekki verra að fá sér örlitla púrtvínslögg með. Svona upp á heilsuna.

namm11

Jújú, þetta var frekar gott.

namm12

Svo er bara að setja þetta í dós með bökunarpappír á milli laga. Best að geyma konfektið í ísskáp.

En það verður nú ekki löng geymsla.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283