Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Grasið þarf ekki að vera grænna hinum megin

$
0
0

Grastegundirnar í garðinum er líklega sá plöntuhópur sem fær hvað minnsta athygli frá garðræktendum. Margir standa í þeirri trú að gras vaxi af sjálfu sér og þurfi litla sem enga umhirðu en þannig er það ekki. Til að fá fallega grasflöt þarf að sinna henni af alúð. Flestar grastegundir eru ljóselskar og þrífast illa í skugga. Helstu kostir grassins er að það þolir nokkurt traðk, er mjúkt undir fæti og endurnýjar sig sjálft. Gras hefur góða lykt og fallegan lit en grasgræna næst illa úr fötum.

Hér á landi eru aðallega tvær grastegundir notaðar í grasflatir, vallarsveifgras (Poa pratensis) og túnvingull (Festuca rubra). Þriðja tegundin, vallarrýgresi (Lolium perenne), eða enskt rýgresi eins og það er stundum kallað, fylgir stundum með við sáningu. Í fræblöndum er þessum tegundum yfirleitt blandað saman í hlutfallinu 50% vallarsveifgras, 40% túnvingull og 10% vallarrýgresi.

Eigi flötin að þola ágang þarf hlutfall vallarsveifgrass að vera hærra, en fyrir skuggsæla staði á að vera meira af túnvingli. Þeir sem eru latir við að kantskera ættu að nota meira af túnvingli þar sem hann skríður minna. Vallarrýgresi er notað í garðflatir með öðrum grastegundum. Það er fljótt til og þekur vel og því gott til að ná þekju á fyrsta sumri. Hlutfall þess má þó ekki vera mikið, það er viðkvæmt og deyr yfirleitt á fyrsta eða öðrum vetri og skilur eftir sár hafi verið notað of mikið af því.

Undirbúningur
Til að fá góða grasflöt þarf að gæta vel að öllum undirbúningi. Hreinsa þarf lóðina vel, fjarlægja rætur, steina, torfhnausa og hreinsa allt rusl. Ef það vantar mold verður að útvega hana og blanda með ósöltum fremur fínkorna sandi. Síðan þarf að grófjafna svæðið og hafa vatnshalla frá húsi. Ef garðurinn er blautur þarf að setja í hann drenlögn.

Þegar búið er að grófjafna skal tæta 20 til 30 sentímetra niður í jarðveginn og hreinsa lóðina aftur. Því næst skal bæta við 2 til 3 rúmmetrum af ósöltum sandi, gjarna blönduðum skeljasandi, á hverja 100 fermetra, og lífrænum áburði eða þörungamjöli í jarðveginn og tæta enn einu sinni. Ef blanda á tilbúnum áburði í moldina á að nota 6 til 8 kíló á hverja 100 fermetra.

Að lokum skal jafna lóðina í rétta hæð og þjappa hana lítillega með valtara. Áður en sáð er eða þökur lagðar er gott að fara lauslega yfir flötina með grófri hrífu til að losa um efsta lagið og bæta viðloðun fræsins og þakanna við jarðveginn.

Sáning
Hægt er sá bæði vor og haust en ráðlegast er að gera það að vori. Haustsáningu á að framkvæma mánuði fyrir fyrsta frost. Jarðvegurinn þarf að vera hæfilega rakur þegar sáð er og nota skal eitt kíló af fræi á hverja 100 fermetra. Fyrsta árið eftir sáningu verður að gæta þess að umgangur um lóðina sé í lágmarki en það tekur þrjú ár fyrir sáninguna að ná fullum þroska.

Sé sáð að vori er nauðsynlegt að vökva lóðina reglulega í þurrviðrum. Varast ber að slá grasið of snöggt til að byrja með. Gott að halda því í 8 til 10 sentímetra hæð. Þegar flötin hefur náð sér að fullu má slá hana í 4 til 5 sentímetra hæð. Sé slegið sneggra skal vökva á eftir.
Auk hefðbundinnar skrúðgarðablöndu af fræi eru á markaði svokallaðar golfvallablöndur. Golfvallablandan hentar ekki fyrir heimilisgarða og vinnan við viðhalda grasfletinum er mjög mikil.

nosy-neighbour-peeping-over-fence1

Þökur
Þeir sem vilja gras strax og helst í gær ættu frekar að þekja en sá. Undirbúningur fyrir þökur er sá sami og fyrir sáningu. Leggja má þökur frá því snemma að vori og fram á haust. Gott er að leggja eina beina röð af þökum umhverfis flötina sem á að tyrfa. Eftir það eru þökurnar lagðar eins og múrsteinar, hálf í hálft, og götum lokað með bútum í lokin. Gætið þess að þjappa þökunum ekki of þétt saman því þá myndast holrúm undir þeim og fletir sem ekki ná að skjóta rótum. Ef skera þarf boga í flötina er gott að leggja slöngu, helst með vatni í, til að móta bogann og nota slönguna sem skapalón til að skera eftir. Að þökulögn lokinni þarf að valta flötina og vökva.

Þegar þökur eru keyptar verður að skoða þær vandlega við afhendingu og gæta þess að ekki leynist í þeim illgresi, eins og snarrótarpuntur, skriðsóley, mosi eða gróf fóðurgrös.

Viðhald

Um það leyti sem grasið tekur við sér á vorin er gott að raka yfir flötina með laufhrífu og fjarlægja mosa, lauf og annað rusl sem hindrar loftstreymi í sverðinum. Bera skal alhliða garðáburð á snemma að vori, 3 til 4 kíló af tilbúnum áburði duga á 100 fermetra. Mánuði síðar skal bera á sama magn og í kringum verslunarmannahelgina helmingi minni skammt. Einnig er gott að bæta kalki eða ósöltum skeljasandi í lóðina á nokkurra ára fresti til að hækka sýrustigið og halda niðri mosa.

Reglulegur sláttur er hluti af viðhaldi en ekki má slá of snöggt því blaðmassinn verður að vera nógur til að sjá rótunum fyrir næringu. Best er að slá oft og reglulega og það verður að raka slægjuna burt því annars rotnar hún í sverðinum og heftir vöxt. Sé nauðsynlegt að vökva flötina skal vökva lítið í einu snemma á morgnana eða seinni hluta dags, en ekki í sterku sólskini.Ef grasið er orðið mjög þétt er hætta á að ræturnar fái ekki nóg súrefni og að flötin verði kyrkingsleg. Við þannig aðstæður er nauðsynlegt að gata svörðinn með gaffli með reglulegu millibili og raka ósöltum sandi ofan í holurnar.

Mosinn í grasflötinni

Mosi er fallegur þar sem hann vex á trjástofnum, grjóti og gömlum steinveggjum en flestir garðeigendur líta á mosann sem vandamál ef mikið er af honum í grasflötinni. Mosi vex þar sem saman fer súr jarðvegur, raki og skuggi og hann heldur áfram að vaxa niður í 4°C.

Því miður er ekkert töfraráð til gegn mosa. Sé skuggi af háum trjám verður að grisja til að hleypa sólarljósi niður í flötina. Þar sem raki er mikill í jarðvegi verður að ræsa flötina eða hækka hana upp til að vinna á mosanum. Einnig er gott að raka mosann úr flötinni með hrífu og jafnvel gata flötina og setja sand í holurnar. Gott er að dreifa ríkulega af kalki eða ósöltum skeljasandi yfir grasflötina á nokkurra ára fresti til að hækka pH gildið í jarðveginum.

Garðyrkjunámskeið og ráðgjöf í garðinum

Býð ráðgjöf í heimagörðum á Reykjavíkursvæðinu. Rölt um garðinn og rætt um hvað má betur gera eða annað sem garðeigendur vilja fá upplýsingar um á sambandi við garðinn. Einnig námskeið um garðyrkjur fyrir félagasamtök, minni eða stærri hópa. Efnið getur verið sáning, kryddjurtarækt, saga grasnytja og grasnytjar, sumarblóm, trjáklippingar, ávaxtatré, matjurtir eða sveppatínsla svo dæmi séu nefnd.

Nánari upplýsingar hjá vilmundur.hansen@gmail.com eða í síma 8611013.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283