Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Flott sumarleg hvítvín á viðráðanlegu verði

$
0
0

Nú er sumarið komið á Íslandi og ekki orð um það meir. Sumarið er sá tími þegar hvítvínin taka völdin með sínum svalandi léttleika. Það er fátt skemmtilegra heldur en að dreypa á góðu hvítvíni í góðra vina hópi.

images

En það verður þá að vera frambærilegt hvítvín og hér á eftir ætlum við að fjalla um nokkur hvítvín sem einungis eru frambærileg heldur líka á góðu verði.

Þýsku hvítvínin frá Deinhard

Nokkur vín frá hinu þekkta vínfyrirtæki Deinhard hafa fengist í Vínbúðunum undanfarin ár og gengið vel. Sem betur fer þarf ekki að vera samansem merki á milli lélegra hvítvína og Þýskalands en Íslendingar muna enn eftir hræðulegu liebfrauenmilch-hvítvíninu sem fengust hér á árum áður. Deinhard-vínfyrirtækið rekur sögu sína alla leið til ársins 1794 og hafa því haft nægan tíma til að þróa víngerð sína enda hefur árangurinn ekki látið standa á sér. Í dag eru til ágæt þýsk hvítvín og hér eru tvö dæmi um það.

deinhard green label

Deinhard Green Label riesling kr. 1.729
Þessi fallega græna flaska inniheldur flott riesling-hvítvín frá hinum fallega bæ Bernkastel við Mosel. Vínið er ekki of sætt, fölgult, ávaxtaríkt með léttri fyllingu og góðri sýru. Þarna má finna græn epli og steinefni. Flottur og frískandi sumar-rieslingur.

Deinhard moscato

Deinhard Riesling Moscato 1794 kr. 1.778
Þarna er á ferðinni óvenjuleg en skemmtileg blanda af 2 þrúgum, annars vegar riesling og hins vegar moscato. Nafnið á þessu víni er 1794 sem vitnar í árið sem fyrirtækið byrjaði starfsemi. Vínið er því seiðandi ávaxaríkt sem kemur frá moscato-þrúgunni og riesling-þrúgan gerir vínið afar steinefnaríkt og ferskt. Vínið er ljóssítrónugult, hálfsætt með léttri fyllingu. Í bragði má finna epli, aprikósu og smá sítrus.

Cono Sur frá Chile

Vín frá þessari margverðlaunuðu víngerð eru alltaf öruggur kostur þegar leitað er að góðum gæðum miðað við verð. Hér eru tvö afar vel gerð hvítvín frá þessum framleiðanda sem eru undir 2.000 krónum:

cono sur chardonnay

Cono Sur Chardonnay kr. 1.876
Það verður bara að segjast eins og er að þetta vín kemur sífellt á óvart fyrir gæðin. Það er búið að fá feikna góða dóma hjá íslenskum vínskríbentum eins og Þorra Hrings og Steingrími Sigurgeirs. Þetta vín er afar ferskt, ljóssítrónugult með meðalfyllingu. Þurrt með góðri sýru. Suðrænir ávextir í bragði svo og sítrus og blóm. Það verður varla sumarlegra …

cono sur gew

Cono Sur Gewurztraminer kr. 1.927
Steingrímur Sigurgeirs skrifaði nýlega um þetta frábæra vín á vinotek.is og ekki úr vegi að láta hann um lýsinguna: „Það er ekki algengt að sjá Gewurztraminer frá Chile, jafnvel ekki utan Evrópu. Vínhúsið Cono Sur hefur hins vegar ekki alltaf farið troðnar slóðir og var m.a. fyrsta vínhús Chile til að hefja ræktun á þrúgunni Viognier.

Þetta er afbragðsgóður Gewurztraminer gerður úr þrúgum ræktuðum í héraðinu Bio Bio, sem er með syðstu vínhéruðum Chile og þar sem þetta er suðurhvelið verður loftslagið svalara eftir því sem sunnar dregur. Þykk, arómatísk angan, suðrænir ávextir, sætur greipávöxtur, lime og blóm, rósablöð. Þurrt, nokkuð þykkt, með þéttri, ferskri og þægilegri sýru. Reynið t.d. með austurlenskum réttum, indverskum, taílenskum. 1.927 krónur. Frábær kaup. “

Ítölsku hvítvínin frá Pasqua

Í svona umfjöllun verðum við að koma ítölskum hvítvínum að og hér eru 2 flott og frísk frá Pasqua:

pasqua chard

Pasqua Chardonnay kr. 1.679
Þetta vín fékk frábæra dóma hjá Þorra Hrings um daginn eða 3,5 stjörnur af 5 sem hlýtur að teljast afar gott á þessu verði. Hér kemur lýsingin frá Þorra: „Þessi Chardonnay er ættaður frá Púglíu og er ljós-strágylltur að lit með óeikaða og blómlega angan af sætum sítrus, melónu, ferskju, mandarínu og peru. Þetta er meðalopin og býsna frískleg angan, en ekki er hún sérstæð.
Í munni er það með meðalfyllingu, góða sýru og fremur einfalt bragð sem mætti gjarnan endast lengur því ekki er það slæmt meðan það varir. Þarna er sítrus, pera, ferskja, melóna og greipaldin. Ungt, einfalt og vel gert hvítvín en alveg útilokað að greina hvaðan úr veröldinni það kemur. Hafið með hversdagslegum fiskréttum, ljósu fuglakjöti, salötum, skelfiski og léttu pasta.
Verð kr. 1.679.- Mjög góð kaup. “

pasqua PG

Pasqua Pinot Grigio kr. 1.774
Pinot grigio-þrúgan hefur slegið í gegn út um allan heim og þetta flotta hvítvín er dæmigert fyrir hana. Ljós sítrónugulur litur, blómlegt í nefi og afar ferskt á tungunni. Ávaxtaríkt í bragði og þarna má finna perur og epli og jafnvel stjörnuávöxt. Flott með alls kyns léttum foréttum og fiski og frábært bara eitt sér.

Kassavínin eru flott í ferðalagið

Að endingu ætlum við að fjalla um 2 flott kassavín annars vegar frá Ítalíu og hins vegar frá Spáni. Það getur verið afar þægilegt að hafa slíkar „beljur“ með í farangrinum.

6006

Pasqua Chardonnay Organic kr. 5.927

Þetta flotta hvítvín hefur fengið afar flottar viðtökur enda á mjög hagstæðu verði, sér í lagi þegar tekið er mið af því að hér er um lífrænt vín að ræða. Vínið er ljóssítrónugult með léttfyllingu. Það er þurrt með ferskri sýru og í bragði má finna epli, peru og sítrus.

vina albali verdejo

Vina Albali Verdejo kr. 5.918

Rauðu kassavínin frá Vina Albali hafa algerlega slegið í gegn og hér er svo hvítvínið frá þeim sem gefur hinum rauðu ekkert eftir. Þorri Hrings skrifaði um vínið um daginn og gaf því 3,5 stjörnur. Hér kemur hans lýsing:

„Ég hef áður skrifað um Verdejo frá Albali í flösku (2012 ***) en ég er ekki frá því að þessi kassi sé bara betri. A.m.k. er hann yngri og það er sannarlega kostur þegar um er að ræða einföld og ódýr vín. Það hefur tæplega meðaldjúpan strágulan lit með grænum tónum og tæplega meðalopna angan af peru, ferskjujógúrt, anans og grænum grösum. Þetta er einfaldur en frísklegur ilmur þótt hann teljist seint vera óvenjulegur. Í munni er það með tæpa meðalfyllingu, þurrt og sýruríkt með ágætt jafnvægi og stutt en frísklegt bragð. Þarna eru sítróna, ferskjujógúrt, stikilsber, pera og estragon. Ég hefði giskað á Torrontés frekar en Verdejo í blindsmakki, ef einhverjir vita hvers konar vín það er. Auðvitað mætti það vera þéttara og efnismeira, en miðað við þriggja lítra box er það innan alvarlegra athugasemda. Hafið með fiski, ljósu pasta og salötum. Verð kr. 5.918.- (ca 1.478.- pr. flaska) Mjög góð kaup.“

Utan á kassanum stendur „deliciously fruity“ og það er kannski besta lýsingin á þessu frábæra sumarvíni því það er unaðslega ávaxtaríkt!


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283