Eftirspurn eftir lífrænt ræktuðum vínum fer ört vaxandi um allan heim og þá er Ísland alls ekki undanskilið. Þegar vín eru lífræn þýðir það að þrúgurnar sem vínin eru unnin úr hafa farið í gegnum viðurkennt lífrænt ferli. Ekki má t.d. nota tilbúinn áburð, skordýraeitur eða önnur eiturefni til að vernda vínviðinn frá sníkjudýrum og alls ekki erfðabreyttar plöntur.
Eingöngu má nota náttúrulegar aðferðir til þess en þær eru fjölmargar og slíkar aðferðir stuðla að betri náttúru yfirhöfuð og betra umhverfi. Það vottunarkerfi sem notast er við er frá árinu 1991 og notað í öllum löndum ESB. Lífrænt ræktuð vín eru mun betri kostur fyrir þá sem gjarnir eru á að fá ofnæmi og yfirhöfuð eru þessi vín dýrari en önnur sambærileg vín enda ferlið mun dýrara.
Hér á landi eru til mörg ágæt lífræn vín og nú um mánaðamótin komu nokkur ný sem vert er að gefa gaum. Hér eru nokkur þeirra.
Cono Sur, vistvæna víngerðin frá Chile
Við höfum nokkrum sinnum áður fjallað um vín frá þessum flotta framleiðanda sem ekki einungis framleiðir sérdeilis góð vín heldur setur ávallt umhverfið í fyrsta sæti. Nú um mánaðamótin komu ný vín frá Con Sur sem eru lífræn og þau eru aldeilis ekki af verri endanum:
Cono Sur Organic Cabernet/Carmenere kr. 2.190
Carmenere þrúgan er ansi vinsæl í chile og þessar 2 þrúgur smella vel saman. Í nefi er það vel ávaxtaríkt með ilmi af plómum, berjum og hnetukeim. Í bragði má finna þægilega blöndu af svörtum og rauðum berjum sem vinna vel með mjúku tanníni. Súkkulaði með undirliggjandi ristuðum eikartónum fylgir manni svo ansi lengi. Þetta er ekkert smá vín enda var það í hópi topp 100 bestu vína í Wine Spectator á síðasta ári og fékk ekki minna en 91 í einkunn, sem er frábært miðað við ekki dýrara vín.
Cono Sur Organic Pinot Noir kr. 2.190
Pinot noir vínin frá Cono sur hafa slegið í gegn um allan heim og ekki síst hér á Íslandi. Hér er nýtt lífrænt Pinot noir vín frá þeim sem ætti að falla í ljúfan jarðveg hjá aðdáendum þessarar þrúgu. Í nefi er þetta fallega djúprauða vín afar flókið en þarna má finna angan af sætum villtu ávöxtum með smá ristuðum tóni. Það er ósætt í bragði með ferskri sýru og mildu tanníni. Þarna má líka finna kirsuber, hindber, kaffi og smá laufkrydd.
Cono Sur Organic Sauvignon Blanc kr. 2.190
Hin skemmtilega hvítvínsþrúga Sauvignon blanc fær aldeilis að njóta sín í þessu unga og ferska víni. Vínið er steinefnaríkt með ferskri sítruslykt. Í bragði má finna kryddaðan keim, smá hvít blóm og melónu. Það endist og endist og skilur eftir sig góða tilfinningu. Ef þetta er ekki flott sumarvín þá eru þau ekki til.
Pasqua, ítalski risinn
Við höfum áður fjallað um nokkur vín frá þessum flotta ítalska vínframleiðanda og nýverið komu nokkur ný lífrænt ræktuð vín frá þeim í Vínbúðirnar á sérlega hagstæðu verði.
Pasqua Nero d´Avolo Shiraz Organic kr. 1.990
Þetta vín er frá vesturhluta Sikileyjar þar sem Nero d´Avolo þrúgan er vinsælust og þarna er skemmtileg blanda af þeirri þrúgu og Shiraz þrúgunni. Útkoman er enda skemmtileg. Djúprauður litur og kraftmikilli lyktinni er fylgt eftir með mjúkum hindberjum, plómum, negul og smá kanil. Flott fyrir þá sem elska bragðmikil vín.
Pasqua Chardonnay-Grillo Organic kr. 1.990
Í þessu er blanda af 2 þrúgum. Annars vegar hinni vinsælu Chardonnay og hins vegar Grillo sem færri þekkja. Í þessu ferska víni má finna sítrus og greiptóna. Í bragði má finna þroskaðar ferskjur og hnetukeim. Fersk sýran hjálpar til við að bragðið endist vel í munni. Þarna ná hinir unaðslegu sólageislar Sikileyjar að skína í gegn.
Lífrænu kassavínin frá Pasqua
Pasqua Chardonnay Organic kr. 5.927
Við fjölluðum um þetta vín í síðustu grein okkar en þetta flotta hvítvín hefur fengið afar flottar viðtökur enda á mjög hagstæðu verði, sér í lagi þegar tekið er mið af því að hér er um lífrænt vín að ræða. Vínið er ljóssítrónugult með léttfyllingu. Það er þurrt með ferskri sýru og í bragði má finna epli, peru og sítrus.
Pasqua Cabernet Merlot Organic kr. 6.390
Þetta lífrænt ræktaða vín var að koma í Vínbúðirnar um síðustu mánaðamót og mun örugglega gera það gott eins og hvítvínið hér að ofan. Þessi þrúgublanda sem er vel þekkt í Bordeaux er verulega vel heppnuð og þó vínið sé ungt þá stendur það vel fyrir sínu. Þarna má finna kryddaða tóna og höfugan keim af kirsuberjum og hindberjum. Vínið er vel gert og endist vel. Hentar sérlga vel með öllum ítölskum mat.
Perrin Nature Cótes du Rhóne kr. 2.667
Perrin-fjölskyldan rekur rótgróið víngerðarhús í Rhone í Suður-Frakklandi, sem þekktast er fyrir Chateauneuf-vínið Beaucastel. Ódýrari vín þeirra Perrin-bræðra standa hins vegar einnig fyrir sínu. Hér er á ferðinni lífrænt ræktað vín sem var að koma í Vínbúðirnar. Og ekkert smá vín. Í nefi má finna maukuð kirsuber, krydd, lakkrís og smá rósmarín og blóðberg. Þetta er öflugt vín sem er afar ávaxaríkt og endirinn er sérlega ferskur.
Það er því nokkuð ljóst að það er fullt af nýjum og spennandi lífrænum kostum í Vínbúðunum í dag!
Við bendum ykkur á gjafaleik sem í gangi inn á sykur.is Þú þarft að vera vinur SYKUR á Facebook (þeas. líka við síðuna ef þú hefur ekki þegar gert það nú þegar). Sykur dregur út ÞRJÁ vinningshafa fyrir hádegi á föstudag – og tilkynnir útdráttinn á Facebook síðu SYKUR!