Árið 2007 kom út bók sem heitir Mistök voru gerð en þau eru ekki mín (e. Mistakes where made (but not by me)). Í grunninn skoðar bókin hvers vegna það er okkur svona erfitt að horfast í augu við eigin gjörðir. Reyndar er bókin aðeins ítarlegri en hægt er að skýra í stuttu máli. Raunar gæti bókin hafa verið skrifuð um viðbrögð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og hennar fólks við lekamálinu.
Þórey Vilhjálmsdóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður innanríkisráðherra, veitti Sunnudagsútgáfu Morgunblaðsins viðtal nýlega þar sem hún rekur sinn þátt í málinu. Hennar niðurstaða er sú að mistök hafi jú verið gerð en ekki af henni persónulega. „Ég held að ég hefði aldrei getað gert þetta neitt öðruvísi,“ sagði hún við blaðið. Þórey virðist semsagt hafa sannfært sjálfa sig um að hún hafi gert allt sem í hennar valdi stóð.
Flest teljum við okkur heiðarleg, dugleg, tiltölulega snjöll og hæf til að takast á við þau verkefni sem okkur mæta. Raunin er sú að við gerum mistök og við réttar aðstæður höldum við áfram að gera mistökin út í hið óendanlega. Lekamálið er fullkomið dæmi um nákvæmlega það. Í hvert sinn sem ráðherra og ráðgjöfum gafst færi á að breyta rétt í lekamálinu forhertust þau og endurtóku vitleysuna. Strax í upphafi hafði Þórey meiri upplýsingar en almenningur. Henni var því fullkomlega fært um að sjá og skilja alvarleika málsins. Sá skilningur hefði þó væntanlega kostað hana tímabundið vesen.
Með þær upplýsingar sem hún hafði gat hún valið að taka virkan þátt í að greina frá og sjá til þess að komist yrði til botns í málinu. Hún kaus hins vegar að taka virkan þátt í yfirhylmingu, svikum og lygum.
Morgunblaðið hefur eftir Þóreyju að „afar litlar upplýsingar hafi komið fram til að skýra málið og á þessum tíma sé enn allt á huldu um hvaðan minnisblaðið títtnefnda hafi komið og hvers vegna upplýsingarnar hafi ratað í fjölmiðla.“
Þetta er rangt. Þórey var ein örfárra aðila sem fékk skjalið sent á eigið tölvupóstfang klukkan 17.17 þann 19. nóvember árið 2013. Daginn áður en því var lekið til valinna fjölmiðla, Morgunblaðsins og Fréttablaðsins. Þrátt fyrir þetta ákvað hún að afneita lekanum opinberlega – oft og ítrekað.
Þórey gekk svo lengra og studdist við hvítþvottarannsókn Rekstrarfélags Stjórnarráðsins sem sönnun þess að skjalið væri ekki úr ráðuneytinu. Reykjavík vikublað fjallaði um rannsóknina í febrúar 2014. Þar sem fram kom að rannsóknin þjónaði þeim einum tilgangi að hvítþvo ráðuneytið. Þá þegar kom fram að starfsfólk ráðuneytisins fór fram á ítarlegri rannsókn. Þeim var svarað með þeim hætti að þetta væri nóg til að hvítþvo. Rannsóknin ítarlega fólst í því að leita að ‘Tony Omos’ í yfirskrift tölvupósthólfa. Ekki mátti leita í meginmáli. Rannsóknin sem Þórey vitnaði til fann engin merki um skjalið sem hún vissi vel að væri í hennar tölvupósti ásamt pósthólfi ráðherra og Gísla Freys.
Hér hefði Þórey getað sagt eitthvað en hún ákvað að vitna til rannsóknarinnar sem merki um vilja ráðuneytisins til að komast til botns í málinu. Hún hefði getað staðið í lappirnar og gagnrýnt skort á skynsemi og heiðarleika við rannsóknina. Það gerði hún ekki.
Þórey segist hafa „þráspurt Gísla Frey Valdórsson, fyrrverandi aðstðarmann sem dæmdur var fyrir lekann, hvort hann hafi lekið minnisblaðinu í lekamálinu. Hann hafi alltaf þverneitað“. Sjálf fullyrti hún þó í fjölmiðlum á sínum tíma að það væri „raunverulega búið að taka fyrir það að þessi gögn hafi farið, eða einhver gögn er varða þessa hælisleitendur hafi farið úr gögnum ráðuneytisins að minnisblaðinu hefði verið lekið úr innanríkisráðuneytinu.“ Í leyni grunaði Þóreyju Gísla um græsku, en opinberlega var Þórey handviss um að engu hefði verið lekið úr ráðuneytinu. DV væri hins vegar í augljósri herferð gegn henni og ráðherra.
Þórey sú er mætir í viðtalið við Moggann er óheiðarleg. Hún virðist telja sig hafa lent í að hylma yfir og villa um fyrir almenningi og fjölmiðlum. Hún talar um svik Gísla gagnvart sér og hvað henni leið illa yfir fréttaflutningi DV, sérstaklega fréttum þar sem hún var ranglega sögð „starfsmaður B“. Ólíkt Þóreyju leiðréttu blaðamenn DV þá frétt strax, báðu hana afsökunar og sendu tilkynningu á fjölmiðla. Þórey heldur enn í bjagaða og villandi skýringar á hvers vegna lekamálið var í raun ekkert – misskilningur allt saman. Hún sé í raun fórnarlamb þess. Ítrekað hafa Jóhann Páll Jóhannsson og Jón Bjarki Magnússon, blaðamennirnir sem gerðu mistökin, beðist afsökunar. Þórey sér hins vegar ekki ástæðu til að minnast á sinn þátt í þessari vitleysu.
Þórey var nefnilega ekki bara áhorfandi í lekamálinu. Í stefnu Þóreyjar vegna mistaka DV kemur fram að blaðið hafi fyrst fengið vitneskju um þátt hennar í málinu 25. nóvember 2013. Þórey fékk þá tölvupóst frá blaðamanni DV þar sem fram kemur að blaðið hafi heimildir fyrir því að hún hafi tekið virkan þátt í lekanum. Frétt DV birtist 20. júní 2014. Þórey hafði því hálft ár til að svara fyrirspurnum blaðsins. Það kaus hún að gera ekki. Í dag sér hún ekki að hún hafi gert nokkur mistök eða hefði getað brugðist við með öðrum hætti. Taka verður fram að Þórey starfaði fyrir ráðherra. Hún tók virkan þátt í að refsa fjölmiðli fyrir gagnrýna umfjöllun um ráðherrann sem hún vann fyrir með því að neita mánuðum saman að tala við miðilinn. Þá notaði hún stöðu sína sem aðstoðarmaður ráðherra ítrekað til að ásaka DV um annarlega hvatir. Aðstöðu hennar vegna er alvarlegt að hún hafi ákveðið að halda upplýsingum frá almenningi til þess að hylma yfir glæpinn.
Furðurlegasta réttlæting Þóreyjar er þó sú að hennar hugur hafi fyrst og fremst verið hjá Evelyn Glory Joseph, sem sögð var mansalsfórnarlamb í ófrægingarherferðinni gegn Tony Omos. Það er merkilegt í ljósi þess að engin ummerki eru um að Þórey hafi lyft svo mikið sem litla fingri til að greiða fyrir það að Evelyn fengi sanngjörn og réttlát viðbrögð vegna málsins.
„Ég hef alltaf haft sterka réttlætiskennd,“ segir Þórey í viðtalinu. Þar liggur væntanlega vandi Þóreyjar. Hún er sannfærð um að hún sé heiðarleg og góð manneskja. Lekamálið er hins vegar sönnun þess að svo er ekki alltaf. Þegar á reynir þá er Þórey meðvirkur þátttakandi í einhverri ógeðfelldustu tegund valdníðslu sem við þekkjum. Rógsherferð gegn hælisleitanda. Samfélagshópur sem stendur veikt fyrir og býr við svo takmörkuð réttindi að þau eru á heiðarleika og fagmennsku ráðuneytisins, stjórnmálamanna og réttargæslufólks komin.
Þórey sveik almenning og barðist með kjafti og klóm fyrir launatékkanum og stöðu en ekki fyrir réttlæti. Hún barðist af hörku fyrir pólitískri framtíð vinkonu sinnar. Hún hafði ekki burði til að standa undir þeirri ábyrgð sem henni var ætlað. Þess í stað ákvað hún að fórna því sem næst öllum prinsippum frjálslynds lýðræðis.
Hvernig getur sú Þórey sem alltaf hefur haft „sterka réttlætiskennd“ horfst í augu við þann veruleika? Heiðarlegt fólk gerir ekki svona. Þýðir það ekki að hún er óheiðarleg?
Jú, eða kannski nei … vegna þess að mistök voru víst gerð en ekki af Þóreyju.