Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Mega stelpur mála sig?

$
0
0

Kristín Sigurðardóttir skrifar:

Kristín Sigurðardóttir

Kristín Sigurðardóttir

Ég er svo heppin að eiga nokkrar frænkur sem fermdust þetta árið. Ég hef gaman fermingaveislum, þar hitti ég ættingja og vini og fæ gott að borða og svo þarf að velja fermingjagjafir, það finnst mér líka gaman. Áhugamál barna á fermingaaldri eru mismunandi rétt eins og alls almennings.

Ég keypti bók handa einni og kertastjaka handa annarri en svo var sú þriðja kannski svolítil pjattrófa og því spurðist ég fyrir í verslun hjá vinkonu minni hvað vinsælt væri hjá ungu dömunum þetta árið.

Auðvitað eru það skartgripirnir þeir eru alltaf vinsælir, en svo benti hún mér á bursta og penslasett fyrir kinnaliti, púður og aðrar snyrtivörur. Hún sagði að margar stelpur væru að safna þessum gripum. Ég spurði aðstandenda frænku minnar hvort svona sett gæti ekki passað og hún hélt nú það. Því miður væri stelpan löngu byrjuð að mála sig.

Mér líður alltaf illa þegar ég heyri sett út á að ungar stelpur sýni hold og máli sig, af því ég veit hver hugsunarhátturinn er. Karlmennirnir ungir sem aldnir hafa nefnilega algjörlega misskilið ástæðu þess að konur vilja líta vel út. Þeir halda þegar þeir sjá unga málaða stelpu, gellulega klædda, kannski í stuttu pilsi sé hún að gefa merki um að nú sé hún tilbúin til kynlífsathafna.

Ég veit af eigin reynslu að þegar ég vil vera fín í tauinu, mála mig og greiða smart, þá er það mest til að auka eigið sjálfstraust. Ég hef fyrir löngu skapað mér minn persónulega stíl sem hluta af eigin sjálfstæði.

Ungu stelpurnar eru að fikra sig áfram á leið til fullorðinsáranna, líkt og börn gera á hinum ýmsu þroskaskeiðum. Styðjum þær og styrkjum á réttan hátt og leyfum þeim að klæða sig og snyrta eins og þeim finnst eðlilegast og hafa löngun til.

Fræðum börnin okkar og ræðum við þau af skynsemi um þær hættur sem víða leynast en hvetjum þau jafnframt til að standa fast á rétti sínum til að ganga um götur og torg með þann farða í andliti og klæðnað sem þau kjósa sér hverju sinni.

Ungar stúlkur eiga að hafa fullan rétt til að mála sig og klæðast stuttum pilsum eða flegnum kjólum án þess að þeim stafi hætta af glæpsamlegu athæfi siðblindra einstaklinga eða fordæmingu okkar hinna.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283