Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Unnusta afbrotamanns segir frá heimsókn í fangelsi

$
0
0

Unnusta afbrotamanns getur þurft að venjast því að maðurinn hennar gæti endað í fangelsi, en minn heittelskaði hefur því miður verið þar tæplega helming þess tíma sem við höfum verið saman.

Það þarf í raun ekkert að vera hræðilegt, en það hefur talsverð áhrif á samlíf fjölskyldunnar.

Heimsóknir eru oftast í boði 1-2 í viku, 2 klukkustundir í senn. Teljast heimsóknir og þar með samvistir fjölskyldna „fríðindi“, sem hægt er að veita og svipta eftir behag af „yfirvaldi“ staðarins.

Fyrst í stað þarf fangelsið að samþykja heimsóknargestinn, sem á að taka um 2 vikur, í mínu tilviki tók það aðeins lengri tíma, eða rúman mánuð, en það gæti hafa tengst meintum rannsóknarhagsmunum á öðru máli eða bara hægri skriffinnsku. Þegar þessi frásögn átti sér stað höfðum við lítið sem ekkert hist án eftirlits síðustu 2 mánuði. Svo það voru nokkrar væntingar og tilhlökkun til þessarar heimsóknar.

En það er annað sem maður þarf að hafa í huga þegar maður heimsækir einhvern í fangelsi og það er möguleikinn á líkamsleit. Vissulega hefur maður val um að labba út, en eftir svona langan tíma, myndir þú ekki láta aðeins meira yfir þig ganga en venjulega til að komast til maka þíns?

Þegar ég kom í heimsókn árið 2009 á tilsettum tíma, var mér tilkynnt að þeir vildu láta fíkniefnaleitarhund tékka á mér. Mér er gert að setjast á stól og svo er komið með hundinn, labrador, og eftir að honum var sigað á mig var mér tjáð að hann „merkti mig“ en hundurinn þefaði jú örlítið meira af mér en fangavörðunum, en sem áhugamaður um þjálfun hunda og hesta sá ég engin „merki“ frá í raun áhugalausum hundinum.

Ég var því látin fara úr öllu með kvenkyns fangaverði og hundurinn látinn vaða í fötin mín, en ekkert fannst í fötunum. Ég var þá látin glenna mig nakin og beygja mig fram og ekkert fannst á mér eða sjáanlega í mér heldur.

Þetta virtist samt ekki vera nóg heldur ásakar fangavörðurinn mig beint um að vera með eitthvað innvortis og segir mér að afhenda það bara, sem ég gat nú ekki gert þar sem ég var alsaklaus. Þá var tekinn annar hringur á sömu hringavitleysuna, hundurinn, lögreglumaðurinn sem hélt í hann og fangaverðir að róta í fötunum mínum og ég látin fara í hlutlaus föt og fullyrt að hundurinn „merkti“.

Outfittið í messi, lyktaði af blautum hundi

Ég spurði þá hvort þeir vildu ekki bara fara með mig upp á spítala í röntgen, en það var ekki tekið vel í það. Ég hafði verið kurteis framan af en var vissulega orðin alveg fjúkandi reið, hamraði á sakleysi mínu og svo því að ég væri ekki í neyslu, þetta væru ofsóknir og spurði hvað í andskotanum ég þyrfti að gera til að fá að hitta manninn minn?

Þá bauðst mér að míga í glas til að sanna að ég væri ekki í neyslu, sem ég gerði og mældist að sjálfsögðu, þeim til mikillar undrunar, ekki neitt í þvaginu. Eftir að hundinum var sigað einu sinni enn á mig, var mér svo hleypt í restina af heimsókninni en þessi leit hafði tekið um þrjú korter allt í allt, sem vissulega dróst af heimsóknartímanum.

Meðan á þessu stóð var maðurinn minn allan tímann inn á heimsóknarherbergi og heyrði allt sem gekk á, en leitin var látin fara fram á mjög hljóðbærum gangi milli klósettsins og herbergisins. Að mínu mati var þetta allt í raun gróft andlegt ofbeldi á hann að upplifa að þetta yrði konan hans að ganga í gegnum, bara fyrir það eitt að vilja hitta hann. Því ef þeir hefðu virkilega trúað því að ég væri með fíkniefni innvortis þá hefðu þeir aldrei hleypt mér inn í heimsóknina eftir á og það án eftirlits.

Heimsóknin var að sjálfsögðu ekki söm eftir þessa meðferð, outfittið í messi, enda vaðið yfir það af hundi. Ekki miskilja mig, ég hef ekkert á móti hundum, en ég hleypi þeim ekki í fataskápinn minn. Auk þess hafði rignt þann daginn og fötin mín önguðu nú af „blauthundalykt“.

Í þetta skipti lagði ég fram kvörtun yfir meðferðinni, sendi email á Fangelsismálastofnun, umboðsmann Alþingis og yfirmann fangelsisins, í raun alls staðar annars staðar en þar sem ég í raun hefði átt að kvarta, þ.e. hinum megin í byggingunni, hjá eigendum hundsins, lögreglunni.

Mér var ekki bent á neinar kæruleiðir en lýsir emailið þó algjörlega því hversu ung og óreynd ég var, tók það sérstaklega fram að ég vissi í raun ekki hvert ég ætti að snúa mér og giskaði á að meint athygli hundsins gæti tengst nýloknum blæðingum eða hvolpalykt.

Screenshot 2015-06-26 00.22.46

 

En eftir emailið kom þó bæði staðfesting umboðsmanns um að þetta væri ekki ásættanlegt þótt þetta væri utan hans verkahrings og sem betur fer var rætt við fangaverðina um það að gæta meðalhófs, sem þeir gerðu framvegis. Einnig kom fram að fangavörðunum kæmi það ekkert við og mættu yfirhöfuð ekki athuga hvaða efni væru í þvagi heimsóknargesta.

En þarna finnst mér skýr meðvirknin í mér á þessum tíma, að þurfa ætíð að vera út úr kurteis og hætta að kippa sér upp við misbeitingu valdsins. Þurfa að leika mig sátta við leitirnar, heilsa og kveðja því annars sé ég að fela eitthvað, þvinguð inn í leikrit þar sem samskiptin verða svipuð og milli geranda og þolanda í langtíma misnotkunarmálum.

Næst þegar ég var beðin um líkamsleit í fangelsinu þá sagðist ég ekki láta bjóða mér þetta lengur, enda ekki eins mikið á „þörfinni“ og þegar umrædd heimsókn átti sér stað. En þá var manninum mínum sigri hrósandi tjáð það eftir á, að ég hefði ekki neitað nema ég hefði eitthvað að fela.

Það tók í raun sinn tíma að átta sig á að þau mörk sem mér fannst ætíð vaðið yfir, væru ekki mörk minnar eigin einhverfu, heldur væri eflaust verið að ganga yfir mörk þess hversu langt og oft megi ganga á rétt aðstandanda á forsendum „rökstudds gruns“?


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283