Skólarnir okkar eru fylltir með ljótum andarungum: Börnum sem eru fædd til annars en ætlast er til af þeim. Börnin fá ekki að njóta hæfileika sinna, nema ef ske kynni að þessir hæfileikar liggi einmitt á þeim sviðum sem eru í námsskránni og á því stigi sem ákveðið hefur verið að passi fyrir börn á þeirra aldri.
Sköpunargleðin, leikurinn og orkan sem einkennir æskuna er barin niður. Börnin fá ekki að njóta skilyrðislausrar viðurkenningu. Þau fá nákvæma einkunn um það hversu góð þau eru, hversu klár og flink. Þau sem fá lágar einkunnir fá þau ómeðvituðu skilaboð að þau séu ekki góð.
Við dópum börnin okkar. Á hverjum degi gefum við þeim rítalín, þunglyndislyf, svefnlyf og önnur lyf til að halda orku þeirra, áhyggjum og kvíða niðri. Þau sem geta ekki setið kyrr og þola ekki lengur þá raunverulegu kúgun sem þau finna fyrir á hverjum degi eru sögð óþæg, þau eru tekin fyrir og send til skólastjórans.
Fjöldamörg börn hafa verið niðurlægð með því að fjarlægja þau frá vinum sínum og láta þau sitja eftir um bekk. Börnin okkar læra ekki lýðræðisleg vinnubrögð í skólanum; þau eiga að hlýða en ekki taka þátt í mótun skipulags skólans. Þau læra ekki samvinnu við aðra, heldur að keppa við skólafélaga sína í keppnisíþróttum, um einkunnir og velvild annarra. Þau læra að sumir stjórna, aðrir eru bara að vinna hérna. Þetta eru framtíðarskrýmsli Milgrams. Þau læra ekki að taka ábyrgð á gjörðum sínum í þessu umhverfi.
Ekkert okkar er eins. Hæfileikar okkar liggja á ólíkum sviðum, við höfum ekki öll áhuga á sömu hlutum. Sumir hafa mikla líkamlega hæfileika, sumir hafa góða reiknigetu, sumir hafa sérlega góða félagslega hæfni. Hið sama gildir um börn. En þau fá sjaldan að rækta raunveruleg áhugamál sín í friði í skólunum.
Við getum hæglega drekkt náttúrulegri forvitni barna með hinum handónýtu, hundleiðinlegu æfingum sem neyða meðalmennskuna upp á þau. Það er ekkert pláss fyrir fjölbreytileg svör: Þau verða að læra að svör við spurningum eru einungis rétt eða röng. Þau sem læra þetta best, þau sem læra best að hlýða og ekki mótmæla gengur best. Hinir falla úr lestinni.
Þetta samkeppnisumhverfi skólanna elur upp níðinga og einelti. Börn sjá að hægt er að beita ofbeldi, andlegu eða líkamlegu, til að stjórna. Þau sem eru öðruvísi, þ.e. passa hvað síst við meðalmennskuna sem höfð er til skýjanna í þessum geymslustað fyrir börn, verða sérstaklega fyrir þessu. Skólinn er staður þar sem sumir hafa völd og aðrir ekki. Þau sem eru beitt ofbeldi munu beita aðra ofbeldi. Þar sem þau geta ekki hnekkt ofurvaldi kennaranna munu þau beita því gegn þeim sem þau telja veikari fyrir en þau sjálf.
Vanlíðan sumra barna á Íslandi í skólunum er svo mikil að þau íhuga sjálfsmorð til að binda endi á hana. Sum láta verða af því. En ekkert breytist.
Hræðsla, íhaldssemi, fordómar og hugmyndasneyð þeirra sem fara með stjórn skólanna hafa haldið forminu eins frá því að almenna skólakerfið kom fyrst fram. Í þeirra huga er engin önnur leið möguleg en sú að njörva börnin niður, kenna þeim að hlýða yfirvaldi, gefa öllum sömu lélegu námskránna, láta þau vinna heimaverkefni svo þau eyði örugglega ekki frítímanum sínum í að rækta eigin áhugamál, og refsa þeim sem passa ekki nákvæmlega í þá hugmynd um hvað börn eiga að læra og hvað fullorðnir eiga að vera í framtíðinni.
Í þeirra huga væru allar breytingar, sérstaklega róttækar breytingar stórhættulegar. Börnin myndu aldrei læra að lesa, skrifa og reikna ef við beittum ekki þessum mörg hundruð ára gömlu aðferðum. Engin önnur leið er möguleg.
Þetta er auðvitað rangt. Það eru til ótal aðrar aðferðir við að hjálpa börnunum okkar að afla þeirrar þekkingar sem þau þurfa fyrir lífið. Finnar áttuðu sig t.d. á þessu fyrir löngu og breyttu skólakerfinu sínu. Skólar þeirra senda nú frá sér mestu þekkingarþjóð heimsins. Það væri einfalt að einfaldlega herma nákvæmlega eftir þeim. Við vitum hver árangurinn yrði.
Við gætum líka leitað til ótal annara tegunda menntunar fyrir börn sem hafa betri árangur en kerfið okkar. Hægt er að nálgast upplýsingar um þessi kerfi á ótal vegu. Dæmin og kerfin eru þarna úti.
Hindrunin er hinsvegar íþyngjandi og skelfileg íhaldssemi þeirra sem nú ráða. Þetta er fólk sem afskrifar allt sem það skilur ekki með setningum eins og „þetta gengur aldrei“, „þetta verður aldrei hægt“, „hvaða bull er þetta“ og „ég nenni ekki svona rugli“. Þau eru óhæf til að þróa samfélagið á sama hraða og tæknin þróast og þau þurfa að fara burt.
Ekki fyrr geta börnin okkar farið að blómstra.