Það er nú svo að flestar viljum við líta vel út dagsdaglega, upplifa góða andlega líðan og vinna vel að þeim verkefnum sem hver dagur réttir okkur. Við viljum standa okkur ofurvel hvað sem tautar og raular!
Þeim konum hefur fjölgað sem eiga erfitt með að halda út hvern dag vegna margs konar kvilla sem að þeim steðja … síþreyta, vefjagigt, svefnleysi, yfirþyngd, vöðvaþreyta, fótapirringur, þunglyndi … listinn er ótæmandi.
Sjálf hef ég upplifað flest af listanum og veit að það þarf áræðni, hvatningu og vilja til þess að ná settu marki. Það er vont að festast í sjálfsvorkunn og vanvirkni og sannarlega til þess vinnandi að játa vanmátt sinn og hrópa á aðstoð til lausnar. Í dag stefni ég ótrauð að því að ná ÖLLUM þeim markmiðum sem ég hef sett mér þótt mótbyr falli í fang mitt annað slagið eins og þitt!
Margar leiðir eru færar og vil ég hvetja þig, kona góð, til þess að finna þá leið sem þú telur henta þér ef einhver af áðurtöldum kvillum eru þér samferða í dag.
Vigtin hefur áhrif á okkur allar. Við erum ýmist syngjandi af gleði þann dag sem hún er okkur hliðholl en daprar ef hún er það ekki og upplifum þá gjarnan LJÓTUNA og FITUNA … þannig tökum við oftar en ekki til orða.
Vigtin segir okkur hvað við erum þungar er við stígum á hana en hún segir okkur ekkert um samsetningu þyngdar. Vigtin segir okkur ekki hvort við höfum tapað fitu, bætt á okkur vöðvaþyngd eða um daglegan vatnsbúskap líkamans.
Flestar okkar velja að hreyfa kroppinn og huga að góðu mataræði til þess að líta betur út, upplifa okkur fínar í þeim fötum sem við kjósum að klæðast, líða betur andlega og fleira. Við tengjum ákveðna þyngd við útlit, ekki satt?
Ég þekki konur og þær ansi margar sem hafa einfaldlega þyngst en farið niður um allt að þrjár fatastærðir er þær hefja þjálfun markvisst og huga að mataræðinu. Hvernig konur eru það eiginlega?
Þegar vöðvamassi eykst örvast grunnbrennslan og fitan minnkar en vöðvar stækka sem gerir það að verkum að ummál verður minna, svo einfalt er það.
Margir fylgikvillar fylgja með í pakkanum ef umframþyngd er mikil og einn þeirra er þunglyndi, eins og áður sagði, sem mjög oft og örugglega er alltof oft ‘LEYST’ með lyfjum sem jú hjálpa til með eitt og veikja annað.
Margar konur eru mótfallnar lyfjum og velja þá gjarnan leiðina „hugga sig“ með rauðvínsglasi hvert kvöld til að slaka á spennunni sem of oft endar með vanda sem fellur vel að gardínum ef svo má að orði komast en sólin skín aðeins inn um glugga þar sem dregið er frá.
Meðalvegurinn er vandrataður og skyndilausnir verða sífellt vinsælli og framboð töfralausna s.s. heilsudrykkja eru í hverju horni og gæðin misjöfn eins og gengur en … mín skoðun er að best sé að hlusta á líkmama sinn og borða hinn gamla góða „mömmumat“ … en fá sér bara EINU SINNI Á DISKINN!
Nauðsynlegt er að gefa sér 20 mínútur 3–4 sinnum í viku í að stunda einhverja tegund líkamsþjálfunar sem er áhugaverð, hvetjandi og skemmtileg, huga vandlega að næringu, til að bæta heilsu og líðan. Listinn er langur yfir kosti þjálfunar og eftir því sem fleiri rannsóknir eru gerðar, lengist hann.
Setjum okkur raunhæf markmið, finnum okkur skemmtilega þjálfunarleið og gerum líkamsþjálfun, ræktun sálar og holla næringu að daglegum venjum!
Leggjum MEGRUN til hliðar og leggjum af stað strax í dag til betri lífsgæða.
Töfrasprotinn virkar ekki … þessi sem við stelpurnar óskum okkur … vinnum vel og sigurinn birtist!
Við erum ágætar.