Kristjana Sveinsdóttir skrifaði eftirfarandi hugleiðingu á Facebooksíðu sína og bauð Kvennablaðinu að deila henni með lesendum sínum. Við kunnum henni bestu þakkir fyrir.
Ein af mínum stóru kvenmannsfyrirmyndum í lífinu er Maya Angelou, stórkostleg kona, verðlaunarithöfundur, leikkona, söngkona og sigurvegari í lífinu. Ég tengi sérstaklega við þessa konu vegna þess að okkur var báðum nauðgað á unglingsaldri og neituðum báðar að láta það hlekkja okkur við fortíðina í fjötrum skammar sem aldrei var okkar.
Ég þekki margar konur sem hafa barist á móti ofbeldi og staðið uppi sterkari en nokkru sinni fyrr, óhræddar við að segja sögu sína og hafa skilað skömminni þangað sem hún á heima.
Eins og hjá flestum þolendum ofbeldis og nauðgana hvarf sjálfsvirðingin mín eftir að verknaðurinn átti sér stað og það tók mig alltof mörg ár að ná í hana aftur. Ég er sannfærð um að ég hefði orðið heil miklu fyrr ef ég hefði þorað að segja frá ofbeldinu strax eftir að það gerðist og leitað til fagaðila eftir hjálp.
Undanfarna mánuði hafa íslenskar konur sýnt einstakt hugrekki í að gera einmitt þetta og sýna í verki að þær ætla ekki að samþykkja ofbeldi né að taka á sig ábyrgð gerenda ofbeldis. Þessar herferðir hafa verið kynbundnar sem mér finnst skiljanlegt þar sem ofbeldi gegn konum virðist vera algengara en ofbeldi gegn körlum. Hins vegar vona ég innilega að karlkynsþolendur ofbeldis fái einnig aukið hugrekki til að leita sér aðstoðar verði þeir fyrir ofbeldi.
Persónulega hreyfði nýliðið átak með prófílmyndunum mjög við mér og í fyrstu vildi ég alls ekki birta gula/appelsínugula prófílmynd af mér. Mér leið hreinlega illa við tilhugsunina. Ég hugsaði á ákveðnum tímapunkti hvort ég ætti kannski að hafa bara gula mynd en það kom heldur ekki til greina þar sem það er lykilatriði fyrir minn bata að vera heiðarleg við sjálfan mig og aðra. Það tók mig einhverja daga og eftir góð samtöl við nokkrar vel gefnar konur og töluverða umhugsun fann ég að mig langaði ekkert meir en einmitt að taka þátt í þessu átaki.
Tilfinningin var mögnuð þegar ég skipti um prófílmynd og ég fann að skömmin sem ég hef geymt með mér fram að þessu og unnið að í langan tíma að losna við fór í raun endanlega þennan dag.
Mig langar alls ekkert að deila með öllum hvernig ofbeldið var í smáatriðum. Til þess hef ég mitt trúnaðarfólk og fagfólk. Ég ber hins vegar mikla virðingu fyrir öllum þeim sem segja sögur sínar opinberlega og veit að það getur hjálpað mörgum.
Fyrir mér var þetta átak með prófílmyndirnar liður í því að segja við sjálfa mig og aðra: Hæ, ég er Kristjana þolandi ofbeldis en fyrst og fremst móðir, kennari, söngkona og ýmislegt fleira.
Það að ég er þolandi ofbeldis gerir mig ekki að ævilöngu fórnarlambi, veiklynda, minnimáttar, druslu eða ónýta á einhvern hátt. Þvert á móti er hægt að verða fullkomlega heill að nýju og tel ég mig vera nokkuð heilsteypta á flestum sviðum þrátt fyrir það sem ég hef gengið í gegnum.
Engin orð fá því lýst hversu þakklát ég er fyrir það að hafa ákveðið að nota dómgreindina, leita mér aðstoðar og gera allt sem ég þurfti til þess að verða heil á ný.
Sá frasi sem sumir nota um að nauðgun sé sálarmorð er algjört bull.
Það er hægt að ná sér að fullu á ný eftir ofbeldisreynslu með því að leita til réttra aðila. Ég vona að ég hafi sáð einhverjum fræjum með þessari hugleiðingu dagsins og hvet alla til að segja frá verði þeir fyrir ofbeldi og gefast aldrei nokkurn tímann upp, það er alltaf von.
Læt fylgja með myndband með Maya Angelou: And Still I Rise.