Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Ókeypis í Hafnarfirði: STÓRKOSTLEG UPPLIFUN!

$
0
0

Ég hef komið í bæði Tívolí í Kaupmannahöfn og Disneyland í Los Angeles sem eru frægustu skemmtistaðir fjölskyldna sem mannsandinn hefur fundið upp ennþá en mér finnst hvorugur þessara staða þótt góðir séu standast samanburð við þá miklu upplifun sem fylgir því að koma í IKEA við Kauptún númer 4, hérna í Hafnarfirði.

Þangað lá leiðin í morgun þvi að frú Sólveigu vantaði 2 ljósaperur og 1 lak og auk þess sessur á 4 garðstóla.

Af fenginni reynslu vissi ég að rúmfatadeildina og ljósaperurnar væri að finna á neðri hæðinni en það styttir gönguleiðina til muna ef maður svindlar sér inn um útganginn og fer beint inn á neðri hæðina, þannig að gönguleiðin verður þá aðeins 4 kílómetrar en væri meira en helmingi lengri ef maður færi fyrst upp á efri hæðina og þræddi alla ranghala þar áður en maður kæmi að matstofunni og fyndi leið niður á neðri hæðina eins og Ingvar sænski eigandi IKEA hefur skipulagt af mikilli útsjónarsemi.

Þarna er margt að skoða og þótt varningurinn sé glæsilegur finnst mér skemmtilegast að skoða fólkið sem gengur þarna um. Allir vita að skemmtilegt er fyrir ung pör sem eru að byrja eða hugleiða að byrja sambúð að ganga þarna um og finna ódýrar bókahillur fyrir geisladiskana sína. Því miður vita færri að fyrir pör sem lokið hafa hveitibrauðsdögum sambúðarinnar er óráðlegt að fara í IKEA án þess að hafa skilnaðarlögfræðing eða sáttarnefndarmann með í ferðum, því að þarna innan veggja er margt ágreiningsefni að finna.

Sjálfur hef ég tamið mér að nota aldrei orðið „nei“ þarna innan dyra heldur eingöngu „já“ eða í versta falli „þá það“ til að spara bæði lögfræðikostnað og langvinnar deilur.

Fyrir þá sem ekki eru kunnugir er skynsamlegt að taka með sér gps-tæki eða allavega láta ættingja eða einhvern nákominn vita af ferðalaginu, því að þarna eru víða leynidyr á veggjum svo að maður getur hæglega villst út af merktri leið og lent í miklum villum. Í dag heyrði ég við útganginn á tal roskinna hjóna sem upplifðu mikinn létti við að hafa fundið útganginn því að þau fóru í IKEA til að upplifa jólabyrjun í ágúst síðastliðnum og ætluðu að kaupa jólapappír á góðu verði og hafa reikað þarna um síðan og lagt sig um nætur í rúmadeildinni og nærst á IKEA-kjötbollum með lingonsultu.

En ferðin tókst sem sagt ákaflega vel og var bæði gefandi og skemmtileg og nú er eftir að athuga hvort réttur skrúfgangur sé á ljósaperunum sem ég vona að sé enda er gott samstarf hér í Hafnarfirði þegar við þurfum að skipta um perur.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283