Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Mín reynsla af HIV

$
0
0

Árið 2006 var ég svo óheppinn að greinast með HIV-veiruna. Ég hafði alltaf talið mig ábyrgan í kynlífi og tekið ráðstafanir til þess að verja mig fyrir kynsjúkdómum. Ég hef verið blessunarlega laus við alla kynsjúkdóma (7-9-13) og vona að það haldi áfram. Ég hugsa oft um kaldhæðni örlaganna –að hafa fengið „Jack-pottinn“ í fyrstu og einu reynslu minni af kynsjúkdómi sem ég kalla „Hinn illkvittna vírus“, öðru nafni HIV.

Ég var í löngu sambandi með manninum sem smitaði mig. Ég veit blessunarlega hver það var og ég komst að því að ég væri smitaður þegar fyrrverandi maður þáverandi lést úr alnæmi.

Þá ákvað ég að fara í tékk enda var mig farið að gruna að eitthvað alvarlegt gæti verið að.

Ég var búinn að léttast mikið en ég var alltaf frekar þrekinn. Ég var oft með kvef og einhverjar kveisur, sem var mjög ólíkt mér.

Sá sem smitaði mig vissi ekki um smit sitt og hef ég því engan að sakast við annan en mig sjálfan, því ég var ungur og vitlaus – nýorðinn tvítugur þegar ég byrjaði með honum og treysti því að hann væri neikvæður.

Auðvitað var það náttúrlega alveg fáránlegt að álykta slíkt en við Íslendingar erum stundum þannig að við höldum að slæmir hlutir hendi bara einhverja aðra en ekki mann sjálfan. Við getum sagt að ég hafi „learned the hard way”.

Ég var heppinn (ef það má kalla það svo) að hafa greinst í Bretlandi. Það hefur verið vel haldið utan um mín mál alveg frá greiningu og fram til dagsins í dag. Ég ber öllu heilbrigðisstarfsfólkinu sem hefur veitt mér þjónustu góða söguna.

Hérna er ekki fyrir hendi sú sama hætta og á Íslandi þegar kemur að félagslegri einangrun sem getur hæglega fylgt því að greinast með þennan sjúkdóm.

Marga grunar mann um að vera eða hafa verið sprautufíkill og þess háttar. Það er erfitt að þurfa að búa við slíkt þegar maður hefur sett sér það markmið að lifa lífinu á sem eðlilegastan máta og eiga starfsframa í því sem maður hefur ákveðið að taka sér fyrir hendur.

Árið 2013 voru tæplega 108.000 einstaklingar í Bretlandi smitaðir af HIV.

hiv graf

Eins og sjá má myndinni eru sprautufíklar í algerum minnihluta hér í Bretlandi. Á Íslandi er hlutfall þeirra hlutfallslega hærra, sem eykur hættuna á að fólk fordæmi frekar þá sem smitaðir eru sem fíkla og eiturlyfjaneytendur, sem  kyndir  undir enn frekari fordóma.

En veiran fer ekki í manngreinarálit og allir geta lent í þessum sporum. Höfum það hugfast.

Rannsóknir sem lofa góðu

Nýjustu rannsóknir sýna að rétt lyfjagjöf og ábyrgð í kynlífi kemur í veg fyrir smit nær undantekningarlaust.

Ég greindist í september 2006 og byrjaði á lyfjum í janúar 2007. Þá var ég með CD4 upp á 180 sem er mjög lágt. CD4 frumur eða T4 frumur er ein gerð eitilfrumna (hvítra blóðkorna) og eru í fararbroddi sýkingarvarna í ónæmiskerfinu. Það er mælt með að hefja lyfjagjöf þegar CD4 er 300 og undir. Það tók rúman mánuð fyrir mitt veirumagn að verða ómælanlegt.

Hægt og bítandi fór svo magn þessarar CD4 frumna batnandi hjá mér og í dag rúmum 8 árum síðar er CD4 tölurnar mínar 1219 við síðasta tékk. Hjá heilbrigðu og HIV-neikvæðu fólki eru þessar tölur yfirleitt á milli 500 og 1500.

Þannig að þið sjáið að ég er vel staddur, stór og þrekinn aftur og lifi heilsusamlegu lífi.

Það sem hrjáir mig annars lagið eru aukaverkanir af lyfjunum, en þær geta verið margvíslegar, mjög misjafnar fyrir fólk og eftir því hvaða lyf það fær. Þegar lyfjameðferðin virkar svona vel er smithættan lítil sem engin. Rannsóknir á þessu sviði lofa mjög góðu.

Hérna eru nokkrir linkar á rannsóknir um smithættu þeirra sem svara lyfjagjöf vel:

http://www.aidsmap.com/No-one-with-an-undetectable-viral-load-gay-or-heterosexual-transmits-HIV-in-first-two-years-of-PARTNER-study/page/2832748/

http://www.aidsmeds.com/articles/heterosexual_transmission_1667_23387.shtml

Karlmaður hnepptur í gæsluvarðhald

Nýlega kom upp mál hérlendis þar sem karlmaður af erlendum uppruna var hnepptur í gæsluvarðhald grunaður um að smita konur viljandi af veirunni.

HIV-samfélaginu á Íslandi er augljóslega mjög brugðið. Ég sem Íslendingur erlendis sem fylgist mikið með því sem gerist á Íslandi er þar engin undantekning. Mér var einnig mjög brugðið. Umræðurnar sem fóru af stað í kjölfarið gerðu mig óttasleginn.

Ábyrgð í kynlífinu

Ég viðurkenni að það þurfti kjark til þess að grípa inn í umræðuna um leið og ég sá í hvað stefndi í kommentakerfunum. Ég setti inn ummæli hjá DV sem skrifaði frétt um þau í kjölfarið.

Það var önnur ástæða fyrir því að ég greip inn í umræðuna líka. Það er nokkuð augljóst að fordómar og stigma eru ríkjandi þegar kemur að HIV og alnæmi. Það er vegna þess að fólk veit í raun svo lítið um HIV. Ég uppgötvaði þegar ég var greindur að ég vissi í raun ekkert um sjúkdóminn. Ekki nema það að maður átti að passa sig á að fá ekki HIV.

images

Það er ákveðinn þöggun í kringum sjúkdóminn vegna þess að honum fylgir ennþá skömm.
Ég er búinn að losa mig úr viðjum skammarinnar. Ég er einnig búinn með mín tímabil af kvíða, reiði, depurð og áfallastreituröskun sem sjúkdómurinn hefur orsakað. Þess vegna er ég reiðubúinn til þess að tala um hann nú.

Það er okkar að lifa ábyrgu kynlífi og taka ráðstafnir til að verja okkur frá kyn- og smitsjúkdómum. Það er aldrei ásættanlegt að varpa ábyrgð á eigin kynhegðun á aðra.

Grundvallarreglan er ALLTAF að verja sjálfan sig. Það vekur furðu mína að ég var harðlega gagnrýndur fyrir þessi ummæli í DV sem ég vitnaði í að ofan.  Það sýnir að það skortir enn á að upplýsa fólk um ábyrgð á eigin kynhegðun.

Ég vil benda fólki á herferð Terrence Higgins Trust „It starts with me” sem er að finna hér: http://www.tht.org.uk/itstartswithme/itstartswithme

Síður Terrence Higgins Trust eru ómissandi upplýsingabrunnur fyrir þá sem eru með HIV og þá sem vilja fræðast meira. Hvet fólk eindregið til að kíkja þangað. 

5B57C9487835441EBC7D8835C0156043

Staðreyndir fyrst – dæmum svo

Ég lýsti yfir áhyggjum af umræðunni vegna þess að fólk var rosalega dómhart og reitt yfir þessum fréttum. Þetta eru allt mjög skiljanlegar tilfinningar, en offors í svona málum er aldrei af hinu góða.

Sorglegast var að sjá ummæli eins og „Burt með þennan viðbjóð“, kynþáttaníð og hina klassísku sakfellingu mannsins af götudómstólnum áður en viðeigandi yfirvöld geta lokið málinu og áður en allar staðreyndir málsins hafa litið dagsins ljós.

Maðurinn er kominn í gæsluvarðhald og það stafar engin hætta af honum meðan á því stendur.

Við vitum lítið um bakgrunn mannsins og við vitum ekkert um hvernig hefur verið haldið á hans lyfjameðferð og eftirliti. Við getum ekki einu sinni verið viss um hvort maðurinn skilji alvarleika sjúkdómsins.

Hann getur verið í áfalli sjálfur, átt við áfallastreituröskun og kvíða. Slíkt getur leitt til alvarlegs dómgreindarbrests eins og fólk sem þekkir til vita. Það er mjög alvarlegt mál ef hann hefur gert þetta viljandi, en eins og endranær, þá vil ég ekki dæma hann fyrirfram fyrr en viðeigandi aðilar hafa unnið sína vinnu og málið er komið í réttan farveg.

Svona mál eru einfaldlega svo snúin að ég vil ekki eiga þátt í slíkum múgæsingi og ég vona svo sannarlega að fólk deili því viðhorfi með mér. 
Ég hvet fjölmiðla eindregið til að hafa vönduð vinnubrögð í öndvegi í svona viðkvæmum málum.

Í lokin …

Hugur minn er hjá konunum sem eru nú nýsmitaðar.  Nú tekur við hjá þeim tímabil kvíða, hræðslu og mjög hugsanlega einhver einkenni áfallastreituröskunar – og svo fordómarnir ofan á allt þetta. Ég veit hvað þær eru að ganga í gegnum.

Það er ekki uppbyggjandi fyrir þær að sjá ljótorðar ásakandi umræður og fordóma í garð HIV-smitaðra þegar þær þurfa að kljást við að ná áttum og lifa við vægast sagt mjög breyttar aðstæður. Ég vona að þær fái þann stuðning sem þær þurfa á að halda.

Þær mega líka vita að þeim er velkomið að setja sig í samband við mig ef þær vilja og ég heiti fullum trúnaði við þær, ef þær velja að gera svo. Ég vil hvetja fólk til að vera nærgætið þeirra vegna – og vegna allra hinna sem lifa við HIV hvern einasta dag.

Á hverjum degi þegar við tökum lyfin okkar erum við grimmilega minnt á í hvaða sporum við erum.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283