Stuðningur við baráttu gegn alvarlegum mannréttindabrotum skilar árangri. Amnesty International er alþjóðleg mannréttindahreyfing sem telur rúmlega 3 milljónir manna. Félagar í Amnesty International er venjulegt fólk sem berst fyrir þá sem ekki fá notið réttlætis og frelsis. Hér má lesa um árangur 14 mannréttindamála sem Amnesty International hefur komið að á einn eða annan hátt. Þessi grein birtist fyrst á vef samtakanna á Íslandi og birt hér með þeirra leyfi.
14 GÓÐAR FRÉTTIR FRÁ ÁRINU 2015
„1. Okkar þrýstingur varð til þess að Moses, fangi á dauðadeild og þolandi pyndinga, var leystur úr haldi í kjölfar náðunar

Moses Akatugba í júní 2015 eftir hann var laus úr haldi.
Eftir 10 ár í fangelsi og yfir 800.000 stuðningsbréf frá aðgerðasinnum víða um heim var lífi Moses Akatugba hlíft. Emmanuel Uduaghan, ríkisstjóri Delta-fylkis í Nígeríu, notaði síðasta dag sinn í embætti til að náða Moses að fullu þann 28. maí 2015.
Moses var fangelsaður og pyndaður árið 2005 og síðar dæmdur til dauða með hengingu fyrir að stela farsímum, glæp sem hann þvertekur fyrir. Hann þakkaði öllum sem studdu hann: „Félagar og aðgerðasinnar Amnesty International eru hetjur mínar.“
Hann lofaði því einnig að berjast fyrir mannréttindum: „Ég mun ganga til liðs við baráttuna gegn pyndingum svo að aðrir þurfi ekki að ganga í gegnum sömu þjáningar og ég.“
2. Þrýst var á leiðtoga Evrópusambandsins til að stöðva manntjón í Miðjarðarhafinu
Eftir að 1200 flóttamenn og farandfólk drukknaði í tveimur skipbrotum á einni viku í apríl stóðu hundruð þúsundir fólks upp til að mótmæla. Að lokum horfðust stjórnmálamenn í Evrópu í augu við þá staðreynd að Miðjarðarhafið væri að breytast í grafreit.
Að loknum neyðarfundi leiðtoga Evrópusambandsins var lögð fram ný áætlun þar sem meðal annars var lagt til að bæta leitar- og björgunaraðgerðir. Þetta gæti þýtt smátt en mikilvægt skref fram á við ef öll ríki Evrópusambandsins styðja áætlunina að fullu. Um 500.000 þúsund manns skrifuðu undir #SOSEurope herferðina.

SOSEurope aðgerð á Englandi.
3. Jafnrétti til hjónabands samþykkt á Írlandi
Írland var fyrsta landið í heiminum til að leggja lögleiðingu hjónabands samkynhneigðra í þjóðaratkvæðagreiðslu 23. maí síðastliðinn. Amnesty International á Írlandi stóð fyrir herferð um að lögleiðingin yrði samþykkt.
„Ákvörðunin er gríðarlega mikilvæg“ sagði framkvæmdastjóri Amnesty á Írlandi. „Þetta hefur augljóslega mikil áhrif hér á Írlandi en áhrifanna mun gæta um heim allan. Þetta sendir skilaboð til hinsegin fólks alls staðar í heiminum að þau, þeirra sambönd og fjölskyldur skipta máli.“
4. Við töluðum fyrir máli #FreeTheFive í Kína
Kínversk yfirvöld leystu fimm konur úr haldi 13. apríl eftir alþjóðlega herferð fyrir frelsi þeirra. Amnesty bjó til „hashtagið“ #FreeTheFive fljótlega eftir að konurnar, Wei Tingtin, Wang Man, Wu Rongrong, Li Tingting og Zheng Churan voru handteknar 7. mars. Hver var „glæpur“ þeirra? Að skipuleggja herferð gegn kynferðislegri áreitni á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna.
„Ákvörðunin um að leysa allar fimm konurnar úr haldi markar hvetjandi tímamót,“ sagði rannsóknarmaður Amnesty í Kína, William Nee. „Yfirvöld verða að fylgja málinu eftir og fella niður allar ákærur og höft gegn konunum.“
5. Við komum af stað sögulegum tímamótum fyrir réttindum transfólks í Noregi
Sérfræðinefnd tilkynnti 10. apríl 2015 að transfólk í Noregi ætti ekki að vera neytt til að gangast undir inngripsmikla meðferð til að fá löglega viðurkenningu á kyni sínu. Þessi ávinningur fylgdi í kjölfar alþjóðlegrar herferðar fyrir máli John Jeanette Solstad Remø, transkonu og aðgerðasinna.
„Þetta er allt sem mig hefur dreymt um og vonast eftir“, sagði hún. „Baráttan var þess virði. Án stuðnings Amnesty þá værum við ekki á þeim stað sem við erum á í dag“

John Jeanette Solstad Remø að afhenda heilbrigðisráðherra undirskriftir.
6. Við sáum til þess að pyndingarmál Jerrymes yrði rannsakað
Lögreglan á Filippseyjum tilkynnti í lok mars að bréfin sem voru send af „mannréttindasamtökum“, sem við getum fullyrt með vissu að er Amnesty International, hafi orðið til þess að rannsókn hófst á hryllilegum pyndingum sem Jerryme Corre varð fyrir þar sem honum var gefið rafstuð, hann kýldur og hótað lífláti.
Amnesty á Filippseyjum afhenti þúsundir undirskrifta frá bréfamaraþoninu 2014 til lögreglunnar þar í landi þann 27. mars. Strax í kjölfarið tilkynnti lögreglan Jerryme og fjölskyldu hans að mál hans yrði rannsakað. Þann 6. apríl var Amnesty viðstatt fyrstu skýrslutöku rannsóknarinnar ásamt Jerryme Corre og lögfræðingi hans.
7 . Omar var loks leystur úr haldi gegn tryggingu eftir áralanga herferð
Þann 7. maí þegar Omar Khadr yfirgaf réttarsalinn í Alberta í Kanada ásamt lögfræðingi sínum til langs tíma, Dennis Edney, var það fyrsta upplifun hans af frelsi eftir næstum 13 ár í fangelsi, að mestum hluta í hinu alræmda bandaríska fangelsi í Gvantanamó.
Omar var aðeins 15 ára þegar hersveit Bandaríkjanna handtók hann í Afganistan árið 2002. Stuðningsfólk Amnesty víða um heim hefur barist fyrir réttindum hans síðan þá. Hægt er að senda stuðningskveðjur til hans hér:
8. Við komum að tímamótasigri á Ítalíu fyrir Róma-fólk

Afgirt hverfið.
Ítalskur dómstóll úrskurðaði í maí að það hefði verið ólöglegt að flytja Róma-fjölskyldur í aðskilið hverfi eftir uppruna, í útjaðri Rómar. Þessi tímamótaúrskurður fylgdi í kjölfarið á áralangri herferð Amnesty og annarra um að stöðva þvingaða brottflutninga, aðskilnað og mismunun Róma-fólks á Ítalíu.
Árið 2012 þvinguðu yfirvöld í Róm fjölmargar Róma-fjölskyldur í einangrað hverfi af samansettum gámum. Heimili margra þeirra voru eyðilögð. Amnesty heldur áfram að þrýsta á að Róma-fólk hafi rétt á sömu möguleikum á húsnæði og aðrir.
9. Söguleg stund gegn dauðarefsingunni í Bandaríkjunum
Afnám dauðarefsingarinnar var samþykkt í Nebraska 27. maí 2015 sem varð þar með 19. fylkið í Bandaríkjunum sem hefur sagt skilið við þessa ómannúðlegu refsingu.
„Þetta hefði ekki gerst án mikillar vinnu hópa sem hafa barist fyrir því að binda enda á grimmúð ríkisins“, sagði Christy Hargesheimer, verkefnastjóri aðgerða gegn dauðarefsingum hjá Amnesty í Bandaríkjunum. „Stuðningur við afnámið heldur áfram að aukast í Bandaríkjunum og brátt verður dauðarefsingin einungis bókstafur í sögubókum þar sem hún á heima. Hvaða fylki verður næst?“
10. Bréf okkar komust loks til skila til Erkin, þolanda pyndinga í Úsbekistan
Um leið og við komumst að því að bréf kæmust ekki til skila til Erkin Musaev, þolanda pyndinga sem hefur verið í haldi síðan 2006 í Úsbekistan, lögðum við fram kvörtun til fangelsisstjórans. Erkin var þá leyft að lesa nokkur bréf í návist starfsmanna fangelsisins áður en hann skilaði þeim til baka.
Erkin og fjölskylda hans færa innilegustu þakkir til allra í Amnesty sem hafa sent þeim stuðningskveðjur, þar á meðal í bréfamaraþoninu 2014. Erkin segir að hver einasta kveðja skipti hann miklu máli og gefi honum styrk, bjartsýni og trú.
11. Þrjár systur í Sameinuðu arabísku furstadæmunum leystar úr haldi eftir að við beindum kastljósi að máli þeirra
.
Asma, Mariam og Alyazia al-Suwaidi voru leystar úr leynilegu varðhaldi 15. maí eftir alþjóðleg mótmæli á samfélagsmiðlum. Eftir að systurnar tístuðu á Twitter um óréttlát réttarhöld bróður þeirra voru þær yfirheyrðar af lögreglu Sameinuðu arabísku furstadæmanna í febrúar og hurfu í þrjá mánuði.
„Þessar þrjár konur hefður aldrei átt að vera handteknar“ sagði Said Boumedouha hjá Amnesty. „Þetta er hrollvekjandi kúgun af hendi ríkisins til að þagga niður í fjölskyldu aðgerðasinna með því að loka þær inni í nokkra mánuði án aðgangs að ástvinum sínum eða umheiminum.“
12. Við fögnuðum sögulegum úrskurði í Bandaríkjunum
#LoveWins varð alþjóðlegt „hashtag“ þann 26. júní eftir sögulegan úrskurð hæstaréttar Bandaríkjanna sem staðfesti réttindi samkynhneigðra til hjónabands. „Þessi gleðilegi dagur er ekki aðeins sigur fyrir pör af sama kyni í ástríku og traustu sambandi heldur fyrir alla sem aðhyllast mannréttindi og jafnrétti fyrir alla,“ sagði Steven W. Hawkins, framkvæmdastjóri Amnesty International í Bandaríkjunum.
„Að geta valið hverjum þú giftist og sett á stofn fjölskyldu eru mannréttindi sem eru vernduð í alþjóðalögum. Þessi langþráða og mikilvæga ákvörðun staðfestir að samkynhneigð pör og fjölskyldur þeirra eiga skilið sömu virðingu og viðurkenningu og allir aðrir.“
13. Við áttum þátt í frelsun tveggja menn í Svasílandi
Bhekitemba Makhubu og Thulani Maseko voru loks leystir úr haldi í Svasílandi þann 30. júní eftir 15 mánuði í fangelsi. Þúsundir félaga Amnesty víða um heim kölluðu eftir lausn þessara samviskufanga og sendu þúsundir bréfa þeim til stuðnings. Fjölskyldur þeirra þökkuðu félögum Amnesty fyrir að minnast þeirra á myrkasta tímabili þeirra.
Bheki og Thulani voru fangelsaðir í mars 2014 og voru að afplána tveggja ára dóm fyrir vanvirðingu við dómstóla eftir áberandi ósanngjörn réttarhöld. Þeir voru sakfelldir fyrir að birta greinar í blaðinu The Nation um áhyggjur af hlutleysi og heilindum dómsvaldsins í Svasílandi.
14. Að lokum voru 84 börn leyst úr haldi í Kamerún eftir þrýsting frá Amnesty
Í kjölfar þrýstings frá Amnesty hófu yfirvöld í Kamerún að leysa 84 börn úr haldi þann 24. júní. Þau höfðu verið í haldi í sex mánuði eftir að þeim hafði verið safnað saman síðastliðinn desember eftir rassíu hjá öryggissveitum í íslömskum skóla undir því yfirskini að verið væri að berjast gegn vopnuðum hópi Boko Haram. Þann 30. júní gátum við staðfest að öll börnin höfðu verið leyst úr haldi í bænum Maroua.“