Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Skúlptúrar og málverk í Gallerí Fold

$
0
0

Listamennirnir Gunnella og Lulu Yee munu opna sýninguna „Sögur“ í Gallerí Fold við Rauðarárstíg á morgun laugardaginn 15. ágúst.

Á sýningunni verða ný málverk eftir Gunnellu ásamt keramikskúlptúrum Lulu. Listakonurnar hafa áður sýnt saman í Nordic Heritage Museum í Seattle. Sýningin fór fram í september á síðasta ári og bar nafnið Auga Óðins og var þema sýningarinnar Óðinn og goðafræðin. Þær halda nú samstarfi sínu áfram. Gunnella vinnur meðal annars með Auðhumlu en frá henni streymdu fjórar ár sem nærðu jötuninn Ými en í myndheimi Gunnellu geta þær allt eins verið prýðisgóðar sportveiðiár. Vestmannaeyjar hafa einnig veitt henni innblástur fyrir sýninguna en nokkrar myndanna eru þaðan. Nokkur verka Lulu eru einnig innblásin úr goðafræðinni en auk þess gefur að líta ýmsar furðuverur sem sprotnar eru úr hugarheimi hennar.

Gunnella – Guðrún Elín Ólafsdóttir er fædd árið 1956. Hún stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1974-76 og 1983-86. Þá naut hún leiðsagnar Hrings Jóhannessonar og Ásgeirs Bjarnþórssonar. Verk eftir hana var valið til þátttöku í myndlistarsamkeppni Winsor og Newton árið 2000 og í kjölfarið var haldin sýning á verkunum í London, Brussel, Stokkhólmi og í byggingu Sameinuðu þjóðanna í New York. Árið 1997 fékk hún menningarverðlaun Garðabæjar. Gunnella hefur haldið margar einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga. Gunnella var heiðruð af New York Times og valin á lista tíu bestu myndskreyta árið 2005 í Bandaríkjunum fyrir bókina Hænur eru hermikrákur eftir Bruce McMillan.

63D6184C-0681-4E41-955A-EA0303B5ED2F

Norn eftir Lulu Yee

Lulu Yee býr í New York en er fædd og uppalin í Kaliforníu þar sem hún nam við San Fransisco Art Institute. Hún bjó á Íslandi um fjögurra ára skeið og heillaðist af íbúum landsins, náttúrunni og menningararfinum. Hún vinnur myndlist sýna með fjölbreytilegum hætti; málar með olíu, vinnur með textíl og keramík. Verk hennar eru innblásin flakki hennar um heiminn, gömlum leikföngum og ljósmyndum. Á þessari sýningu mun hún sýna fígúratífa skúlptúra úr keramíki. Fígúrurnar hennar eru málaðar með leirmálningu og glerungum og margbrenndir sem skapar mörg lög af teikningu og lit. Sumar fígúrurnar má nota sem vasa eða ílát. Lulu Yee hefur áður haldið sýningu á Íslandi en auk þess sýnt verk sín víða um heim og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum.

Sýningin stendur til 30. ágúst.

Mynd efst í grein er verkið Auðhumla eftir Gunnellu – Guðrún Elín Ólafsdóttir


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283